14.03.1931
Efri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í D-deild Alþingistíðinda. (600)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Halldór Steinsson:

Hæstv. dómsmrh. sagði, að þetta mál væri ekki flokksmál. Ég hélt því ekki heldur fram, að svo væri eða ætti að vera. Ég álít þvert á móti sjálfsagt, að slík mál séu ekki flokksmál.

Hæstv. ráðh, sagði, að það hefði komið fyrir, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði snúizt gegn frv. um stjórnarskrárbreytingu og felt það. Þetta mál var í ráðherratíð Jóns heitins Magnússonar. En það voru ekki allir flokksmenn hans á móti honum í því máli, það þori ég að fullyrða. Ég hefi ekki hér við hendina Alþt. frá þessu ári, en í þessari d. var það meiri hl. hans flokksmanna, sem fylgdi honum í þessu máli. En mér þykir undarlegur gangur þessa máls hér, að enginn af flokksmönnum hæstv. stj. skuli vera till. fylgjandi.

Hæstv. fjmrh. sagði, að hann hefði engin áhrif reynt að hafa á flokksmenn sína í þessu máli. Ég get nú trúað því, en hinsvegar finnst mér, að ráðherra eigi ekki að bera þau mál fram í þingi, sem hafa ekkert fylgi hjá hans eigin flokksmönnum og það sé því skylda hans að leita fyrirfram upplýsinga um fylgi málsins innan síns flokks, og ef hann ekki gerir það, ber það vott um, að honum sé málið ekkert áhugamál. En óneitanlega er það hart fyrir ráðherra að sjá alla flokksmenn sína greiða atkv. móti honum í máli, er hann ber fram á þingi.

Það var ekki fleira en þetta, sem ég þurfti að svara þessum hæstv. ráðh., en ég kunni illa við, þegar hæstv. ráðh. var að koma með rangfærslur á orðum hv. 1. landsk., þar sem hann er dauður. Hæstv. ráðh. hafði það eftir honum, að hann hefði sagt, að hann hefði enga skoðun á þessu máli. Þetta er ekki rétt. Hann sagðist álíta, að ekki væri rétt að láta uppi skoðun sína í þessu máli, meðan hann hefði ekki rannsakað það betur en hann hefði gert.