16.03.1931
Neðri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (659)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús Guðmundsson:

Það var líka einmitt út af brtt. hv. fjhn., að ég vildi segja nokkur orð. Ég er hv. samþm. mínum sammála um það, að varhugavert sé að samþ. hana eins og hún liggur nú fyrir. Þar sem þetta atriði er undirbúningur undir ákvörðun tekju- og eignarskatts, verður að vanda vel til þess. Ég vildi því gera það að minni till., að hv. meiri hl. taki aftur brtt. sína til 3. umr., til þess að hægt sé að athuga þetta betur. Vildi ég þá einnig mega ganga út frá, að hv. samþm. minn taki aftur sína till. til 3. umr.

Ég man ekki til, að neinsstaðar sé ákveðið, að sú aðferð skuli höfð við verðlagsmat, sem eftir upplýsingum hv. samþm. míns er notuð í Skagafirði. En mér finnst, að þetta muni heppileg aðferð, og væri því gott að fá tíma til að athuga það nánar. Það þarf ekkert að tefja frv., því ég ætlast ekki til, að umr. sé frestað, heldur aðeins, að geymt sé að taka ákvörðun um brtt. þangað til við 3. umr. Vildi ég mælast til, að hv. þm. Dal. taki líka aftur sína brtt. til 3. umr., enda munu þá, eftir ummælum hv. 2. þm. Reykv., fara fram aðalumr. um málið.