20.02.1931
Neðri deild: 5. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í C-deild Alþingistíðinda. (720)

9. mál, ríkisbókhald og endurskoðun

Fjmrh. (Einar Árnason):

Frv. þetta er í tveimur aðalköflum. Fyrri kaflinn er um ríkisbókhald. Síðari kaflinn er um endurskoðun þess.

Eftir því sem ríkisbúskapurinn verður umsvifameiri og fjölþættari, vex þörfin á fullkomnara bókhaldi og gleggri yfirsýn um fjárhagsástandið á hverjum tíma. Er því nauðsynlegt að fara eftir föstum reglum, er gefi sem mest öryggi um bókhaldið.

Þess er eigi að dyljast, að bókhald og reikningsfærsla ríkissjóðs er nú mjög orðin á eftir tímanum. Það má vera, að þetta gamla form hafi dugað vel, meðan starfræksla ríkisins var lítil og fábreytt. En með fjölbreyttari og umfangsmeiri starfsemi ríkisins verður þörfin fyrir fullkomnara bókhald og reikningsfærslu nauðsynlegri með hverju árinu, sem líður. Hjá nágrannaþjóðunum er þetta viðurkennt. Þær hafa allar tekið upp hið fullkomnasta bókhald og reikningsform við ríkisreksturinn hjá sér. Hér á landi hefir líka nauðsyn fullkomins bókhalds verið viðurkennd, þar sem öllum verzlunum er gert að skyldu að viðhafa tvöfalt bókhald. Sýnist því eigi nema alveg sjálfsagt, að ríkið sjálft noti einnig hin fullkomnustu form við sína starfrækslu. Nú þegar hefir stjórnin látið vinna að því af fagmönnum á því sviði að færa bókhald ríkissjóðs í nýtízkuform. Og um síðastliðið nýjár var byrjað á því að færa bækur ríkissjóðs eftir því.

Það má máske segja, að stjórnin hefði getað látið gera þetta án þess að leita til þingsins með það. En mér þótti réttara, að þingið tæki ákvörðun um þetta og lögfesti það form, sem það vill láta nota við reikningsfærslu ríkissjóðsins.

Þá er í frv. einnig gert ráð fyrir, að skipaður verði af fjmrh. einn fastur endurskoðandi. Sá maður á að hafa fullkomna sérþekkingu á öllu því, er að bókfærslu lýtur og reikningsfærslu. Hann á að standa undir fjmrh. og endurskoða í fjármálaráðuneytinu. Þá er einnig ætlazt til, að hann hafi með höndum endurskoðun á hinum ýmsu sjóðum, sem standa undir vernd hins opinbera, en hinum og öðrum hefir hingað til verið falin endurskoðun á og þeim greitt fyrir. Er ætlazt til, að sú greiðsla gangi til að launa þennan mann og mætti svo fara, að kostnaðarauki af því að hafa fastan endurskoðanda yrði lítill, eða jafnvel enginn. Aðalatriðið er þó það, að endurskoðunin yrði með þessu fyrirkomulagi miklu tryggari.

Ég mun eigi að sinni fara út í efni einstakra gr. frv. — En ég vil benda á, að þetta frv. er algert nýmæli og ég vænti þess, að hv. n. taki það til rækilegrar athugunar og greiði götu þess„ svo að það nái að ganga gegnum þingið, vegna þess, að ég tel það sé aðkallandi.

Ég vil svo leggja til, að frv. verði að lokinni umr. vísað til fjhn. Ég tel, að þetta frv. sé þar bezt komið.