20.02.1931
Neðri deild: 5. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í C-deild Alþingistíðinda. (725)

9. mál, ríkisbókhald og endurskoðun

Magnús Guðmundsson [óyfirl.]:

Það er með hálfum huga, að ég kveð mér hljóðs, því að hæstv. fjmrh. er orðinn svo viðkvæmur og gramur, að það liggur nærri því við, að ég missi allan kjark.

Hæstv. fjmrh. þóttist ekki vita, hvort hv. 1. þm. Reykv. væri á móti frv. eða með því. Ég segi nú fyrir mitt leyti, að ég hefi ekki heyrt það áður, að menn séu skyldir til að segja við 1. umr. hvort þeir eru með eða móti máli. Ég er ekki viðbúinn að svara slíku, en býst þó ekki við, að ég geti samþ. frv. óbreytt.

Það var eitt atriði, sem hæstv. fjmrh. fór ekki út í, en það er, að ég er viss um, að þetta fyrirkomulag verður dýrt. Það er þegar búið að stofna tvö embætti, og ég veit, að fleiri endurskoðendur þarf heldur en þann eina, sem þegar er ráðinn.

Mér er ekki alveg ljóst, hvaða stofnanir það eru, sem hann á að taka undir sinn verndarvæng, og hve mikið kostar að hafa á hendi endurskoðun þeirra stofnana. Væri gott að fá yfirlýsingar ráðherra um það. En það er dálítið undarlegt, að þessum yfirskoðunarmanni eru ætluð hærri laun heldur en skrifstofustjórunum, að því er mér virðist, því að skrifstofustjórarnir hafa 5 þús. kr. að byrjunarlaunum, en endurskoðandinn 6 þús. kr.

Í frv. er innleidd sú meginregla, að ákveða skuli fyrningar af öllum eignum ríkissjóðs. Auðvitað er ekkert við það að athuga, þótt ætlað sé fyrir fyrningum, þegar gerður er upp rekstrarreikningur. En það er undarlegt að klessa þessum fyrningum allsstaðar inn í fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir, og það á að lögfesta með þessu frv. Það er alls ekki meiningin að borga þetta út. Ef ætti að hafa þetta sem einskonar byggingarsjóð og borga upphæðirnar ú, þá væri það skiljanlegt. En fyrst svo er ekki skil ég ekki, hversvegna þetta er sett á 20–30 stöðum í frv.; þá væri nóg að setja eina upphæð, sem væri fyrir fyrningum, þegar verið er að gera upp hvernig rekstrarreikningurinn fyrir umliðið ár er. Og af því að ekki á að greiða þetta út, er sú færsla á höfð, að telja innborgaðar við árslok þessar upphæðir, sem ekki eru borgaðar út og ekki borgaðar inn. Ef einstakir menn færu svona að um reikningsfærslu sína, mundi það þykja athagavert.

Ég held, að það sé rétt hjá hæstv. ráðh., að hann hefði getað gert þetta „administrativt“, án þess að fara til þingsins, og hann hefir sýnt, að svo lítur hann á, þar sem hann hefir þegar látið byrja á þessu fyrirkomulagi. En það er síður en svo, að ég vilji alasa honum fyrir að koma með þetta til þingsins, heldur tel ég það virðingarvert. En þrátt fyrir það, get ég ekki talið rétt að lögfesta þetta allt. Um það mun ég ræða síðar, því að þingsköp banna mér að fara út í einstök atriði við þessa umr. málsins. En það, sem hneykslaði mig mest hjá hæstv. ráðh., var það, að hann virtist gefa í skyn, að til þessa dags hefði alls engin bókfærsla verið hjá ríkissjóði, heldur allt í botnlausu sukki og drabbi. Ég hélt nú, að hann mundi verða síðastur til þess, að gefa slíkt í skyn. Ég viðurkenni, að reikningsfærsla ríkissjóðs hingað til, er ekki með nýtízku sniði, og að hana má að sjálfsögðu gera fullkomnari, en þó er hún nú ekki lakari en svo, að mjög auðvelt er að finna réttar niðurstöður um fjármál ríkisins. En þótt tvöföld bókfærsla sé hjá ríkisféhirði, þá þarf ekki fyrir þá sök að breyta formi fjárlaganna og landsreikningsins.

Þá talaði hæstv. ráðh. um bókfærslu danska ríkisins. Ég man nú ekki betur en sú bókfærsla sé ærið á annan veg en sú, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Mig minnir t. d., að þar séu settir endurskoðendur, sem séu utan þings og óháðir stjórninni með öllu. Og ef ég man rétt, þá er öllum ríkisstofnunum gert að greiða vexti af því fé, sem í þær er lagt. Ég þori því að fullyrða það, að ríkisbókhald Dana er á allt annan veg en þetta frv. mælir fyrir. Ég hefði gaman af að rannsaka, hvernig Danir færa hjá sér ábyrgðir, sem þeir taka á sig, og ætla ég, að þeir hafi gert það í allríkum mæli, t. d. fyrir lánafélögin. Ég hygg að þeir telji slíkar ábyrgðir ekki meðal sinna eigin skulda.

Ég kann hálfilla við það, er hæstv. ráðh. er að gefa í skyn, að útlendir fjármálamenn séu að „krítisera“ okkar bókhald. Mér er ekki ljóst, hvar þeir hafa eiginlega aðgang að okkar bókhaldi, (Fjmrh.: Þeir sjá landsreikninginn). Já, ég held, að það sé þá engin skömm að honum; ég býst við, að það megi forsvara hann að öllu leyti.

Annars virðist mér aðalatriðið í þessu máli, hversu þetta fyrirkomulag verður dýrt í framkvæmdinni. Ég býst við, að það kosti alltaf 4 til 5 ný embætti, og væri gott, ef hæstv. ráðh. vildi upplýsa eitthvað nánar um það.