23.02.1931
Neðri deild: 7. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í C-deild Alþingistíðinda. (741)

14. mál, Brunabótafélag Íslands

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Þetta frv. er samið af forstjóra Brunabótafélags Íslands og var lagt fyrir síðasta þing eftir ósk hans. Hv. fjhn. fékk málið til meðferðar og meiri hl. hennar bar fram rökstudda dagskrá, sem hlaut samþykki þessarar deildar, þar sem þess var óskað, að gerð væri breyting á stjórnarskipun Brunabótafélagsins í þá átt, sem ræðir um í 25. gr. núgildandi laga, að koma upp fulltrúaráði, og frv. síðan sent sveitarstjórnum til umsagnar. Þetta hefir verið gert. Svör voru að vísu fá komin, þegar frv. var fullgert, nokkur hafa komið síðan, og verða þau afhent hv. fjhn., sem ég býst við, að fái frv. aftur til athugunar, — en á þeim er ekki svo mikið að græða. Aðalbreytingin, sem æskt var álits um, stofnun fulltrúaráðsins, hefir ekki hlotið mikinn stuðning, og stj. álítur það svo dýrt, að mjög orki tvímælis, hvort ráðlegt sé, og hefir ekki tekið breytinguna upp í frv. En hinsvegar ætti að taka til athugunar, hvort ekki er rétt að koma slíku fulltrúaráði upp fyrir allar deildir tryggingarstarfseminnar. Samkv. ákvæðum síðasta þings starfar nú mþn. að athugun þeirra mála, og er rétt að bíða álits hennar um það atriði, hvort stofna eigi fulltrúaráð, er nái til allra hinna opinberu tryggingarstofnana. — Ég legg ti1, að frv. verði vísað til fjhn.