20.03.1931
Neðri deild: 29. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í C-deild Alþingistíðinda. (871)

20. mál, búfjárrækt

Hákon Kristófersson:

Það er ekki óeðlilegt, þó að nokkur ágreiningur verði milli manna um ekki óverulegra mál en þetta. Það þarf ekki annað en að líta á þennan mikla lagabálk til þess að sjá það, að hér hefir hv. mþn. í landbúnaðarmálum, með aðstoð allra hinna mikilsvirtu sérfræðinga, leyst af hendi ekkert smáræðisverk. Þó er ég nú ekki í neinum vafa um, að það eru smáræðis mistök og smíðagallar á þessu mikla verki, þrátt fyrir alla þá vinnu, er í það hefir verið lögð.

Það er þó síður en svo, að ég vilji afsaka hv. n. fyrir það, að hún vill gerbreyta öllu þessu mikla verki. En þó ég sé henni ekki heldur sammála, þá get ég nú ekki annað en viðurkennt þá miklu vinnu, sem hún hefir fórnað til þess að gera ekki færri en 45 brtt. við frv. En allt þetta sýnir, að það er svo sem ekki óeðlilegt, þó að nokkur ágreiningur komi fram milli hæstv. forsrh. og n. Það sest í hinum mikla lagabálki, að það á að fella úr gildi lög um kynbætur nautgripa. Eftir þeim lögum skyldi kostnaður við kynbæturnar fram yfir ákveðið mat greiðast úr hreppssjóði. En með 7. gr. frv., sem n. hefir ekki séð neina ástæðu til að breyta, er farin hér önnur leið; hreppsnefndirnar eru nú leystar frá því að skipta sér af kynbótunum, en önnur nefnd — kynbótanefnd — er sett til þess að stjórna þessum málum, og geta hreppsnefndir ekkert við því sagt. Þessar kynbótanefndir eiga svo að hafa vald til þess að jafna kostnaðinum niður á hreppsbúa eftir sömu reglum og gilda um sveitarútsvör. Hver munur er nú á því, að þessi nefnd jafni niður kostnaðinum eða hreppsnefnd, fæ ég ekki skilið, en sjálfsagt er nú þessi breyt. ekki gerð út í bláinn, og slæ ég þessu fram aðeins til ábendingar og til þess að fá skýringar á þessu atriði.

En hvað sem öllu þessu líður, þá verður að hafa samúð með þessu mikla afreki n. ! ! Hinsvegar er ég í nokkrum vafa um, að það sé rétt hjá hæstv. forsrh., að þetta mál sé eins þýðingarmikið og hann vill vera láta.

Ég vildi því beina því til n., hvort ekki er verið að fara inn á reglugerðarsvið viðkomandi sýslna, þegar verið er að tala um heftingu vissrar tegundar nautgripa.

Þrátt fyrir það, þó að ég beri mikla virðingu fyrir sérfræðingum, verð ég að vera á sama máli og hv. frsm. n. og hv. þm. V.-Sk. um það, að flest þurfi að fara að lögfesta, ef fara á að setja lög um það, að fara megi inn í annara lönd og taka þar búpening og fara með sem hverja aðra óskilagripi. Veit ég ekki, hvar það lendir, ef fara á að lögfesta annað eins og þetta. Ég tel því, að brtt. n. hvað þetta atriði snertir eigi fyllstan rétt á sér, eins og reyndar er um fleiri brtt. n.

Ég get ekki fallizt á það hjá hæstv. forsh., að vanrækt hafi verið til þessa að styrkja búfjárræktina, því að Búnaðarfélagið hefir styrkt alla viðleitni í þessa átt, auðvitað á kostnað ríkisins. Hitt er rétt hjá hæstv. forsrh., að ef styrkurinn kemur í maklega staði niður, er vafasamt, hvort hann verður nokkurn tíma of mikill. Þó að frv. verði samþ. og bændur njóti þeirra fríðinda, sem í því felast, er stór spurning, hvort framfarirnar verða eins miklar og t. d. á Hvanneyri, þar sem skilyrðin eru ólíkt betri en víðast annarsstaðar á landinu og afraksturinn að sama skapi frábrugðinn. Mun því vart mega gera ráð fyrir því, að bændur almennt geti gert sér vonir um að geta byggt jafnveglegar hallir fyrir kýr sínar og reist hefir verið fyrir Hvanneyrarkýrnar ! !

Till. hv. n. bera það með sér, að n. er á móti fjölgun sauðfjárræktarbúa. Get ég ekki verið þar á sama máli, svo fremi þetta verði ekki haft að pólitískum bitlingum.

Hæstv. forsrh. gat þess, að þess væru dæmi, að ær hefði gefið af sér 100 kr. á einu ári. þetta er einstætt dæmi, sem ekki kemur fyrir nema einu sinni á öld, og getur því ekki verið til stuðnings fyrir frv.

Það, sem mér þykir leiðinlegast við þetta mál, er það, að ég gat ekki skilið hæstv. ráðh. öðruvísi en að fáir menn í n. hefðu komið fram með þessa miðlun í því, og vil ég þó leggja eins góðan skilning í orð hæstv. forsrh. og mér er unnt. Frsm. n. hefir og játað, að hann hafi gert það til samkomulags að skrifa undir brtt. Hefir hann þó engan fyrirvara um nafn sitt og talar meira að segja fyrir brtt. af sinni venjulegu málsnilld.

Viðvíkjandi þeim ágreiningi, sem orðið hefir út af ríkisfolunum( ! ! ) verð ég að segja það, að hér er um svo lítil útgjöld að ræða, að mig furðar á því, að merkir bændur skuli setja slíkt fyrir sig.

Þrátt fyrir það, þó að frv. hafi verið eins vel undirbúið og hæstv. forsrh. heldur svo mjög á lofti, verð ég að telja það illa farið, að ekki skuli fylgja því nein áætlun um þann kostnað, sem af frv. hlýtur að leiða. Ef miðað er við þann skepnufjölda, sem nú er í landinu, verður slíkt út í loftið, vegna þess að undir ákvæði frv. kemst ekki allur þorri skepna. En hinsvegar vil ég mega vænta þess, að þessi mál verði í höndum svo góðra manna, að þeir misnoti ekki vald sitt og láti þennan styrk ganga til pólitískra fylgifiska, heldur falli styrkurinn í verðugra manna hendur.

Eins og ég tók fram, er þetta svo mikill ættbálkur, að mér hefir ekki unnizt tími til að lesa frv. grandgæfilega ofan í kjölinn, né heldur til þess að bera frv. nákvæmlega saman við brtt. n. En ekki get ég neitað því, að mér lét það undarlega í eyrum, þegar hv. 2. þm. Skagf. lýsti yfir því, að brtt. n. væru gerðar í fullu samráði við ráðunaut Búnaðarfélagsins. Það er styrkur, sem ég bjóst ekki við, að n. hefði við að styðjast. Verð ég þó að segja, að þetta getur ekki orðið til þess, að ég fylgi öllum brtt. n., en þetta sýnir hinsvegar, að n. hefir lagt fulla alúð við starf sitt, og á hún því fyllstu þakkir skyldar. Mun ég sýna það með atkv. mínu við atkvgr., hvernig ég lít á hinar ýmsu till. n.

Að lokum vil ég aðeins endurtaka þá beiðni mína, að n. taki til athugunar fyrir 3. umr., hvort ekki mundi heillavænlegra, að sá kostnaður, sem af þessu hlýtur að leiða, verði greiddur úr hreppssjóði, því að ef ekki eru í þessum n. menn, sem taka fullt tillit til allra aðstæðna, getur illa farið.