30.03.1931
Neðri deild: 37. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í C-deild Alþingistíðinda. (879)

20. mál, búfjárrækt

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég ætla að vona það, að ekki þurfi að verða eins langar umr. um þetta mál nú og við 2. umr. Ég vil geta þess, að hæstv. atvmrh. hefir nú setið á fundum með landbn. og að fullt samkomulag hefir fengizt milli hans og n. um þau atriði, er ágreiningur stóð um við 2. umr. Þó verð ég að geta þess, að einn nm., hv. 2. þm. Skagf., gat ekki setið nefndarfundinn og getur því verið, að hann kunni að hafa einhverjar brtt. eða að hann fallist ekki á brtt. nefndarinnar.

Ég vil aðeins fara fáeinum orðum um þær brtt., sem að einhverju leyti eru breyttar frá því, sem var við fyrri umr. Þá er það 1. liður brtt. við 2. gr. frv., að þar er nú lagt til, að nautgriparæktarnefnd í bæjarfélagi sé skipuð af bæjarstjórn kaupstaðarins. Að athuguðu máli þótti það eðlilegt, að þessi nefnd væri skipuð á sama hátt og aðrar fastanefndir, sem annast malefni bæjarfélagsins. Með sama lið brtt. er einnig gert ráð fyrir þeirri breyt. á 2. gr., að þar sem um er að ræða nautgriparæktarfélög innan bæjarfélags, þá skuli stjórn þess því aðeins vera sjálfkjörin nautgriparæktarnefnd, að í félaginu sé meiri hluti kúaeigenda. Finnst n. ekki sanngjarnt, að annars sé stjórn félagsins sjálfkjörin sem nefnd.

Brtt. við 7. gr. er aðeins orðabreyt. 3. liður brtt. fer fram á það, að sektir fyrir brot á ákvæðum I. kafla frv. renni til hlutaðeigandi nautgriparæktarfélags eða til nautahalds, en ekki í sameiginlegan sveitarsjóð. Þótti n. það eðlilegra.

5. brtt., við 29, gr., er nauðsynleg vegna þeirra breyt., sem gerðar voru á frv. við 2. umr., er það var fellt úr frv., að sveitarsjóðir skyldu taka þátt í kynbótakostnaðinum. N. hafði sézt yfir þetta atriði við 2. umr., en varð vör við það við síðari yfirlestur frv.

Þá koma margar brtt. við 3. kafla frv., um sauðfjárræktina. En vegna þess að þær eru að mestu shlj. þeim brtt., sem n. flutti við 2. umr., er óþarfi að hafa mörg orð um þær að þessu sinni. Skal ég aðeins geta þeirra breyt., sem orðið hafa á brtt. síðan við 2. umr.

Þá er fyrst að geta um 8. brtt., við 45. gr. frv. í brtt., sem n. flutti við 2. umr., var lagt til, að ríkisstj. væri heimilt að styrkja 4 sauðfjárræktarbú að auki, eitt í hverjum fjórðungi. Nú hefir orðið samkomulag um að leggja til, að stj. sé heimilt að styrkja 8 slík bú, eða 2 í hverjum fjórðungi. Að öðru leyti eru ákvæðin um búin eins og áður.

Þá er varatill. við 45. gr., um að gefa Búnaðarfélagi Íslands rétt til að ráðstafa kynbótafénu og ákveða, hvar búið starfar áfram, í samráði við aðra styrkjendur þess, verði ábúendaskipti eða búið sé leyst upp. Þessi viðbót er mjög nauðsynleg. Það getur alltaf komið fyrir, að bú, sem starfað hefir um stund, verði að falla niður af einhverjum ástæðum fyrr en búizt var við. sé nú búið að koma þar upp góðum kynstofni, þá þarf að vera hægt að láta stofninn verða að notum áfram, og því nauðsynlegt, að Búnaðarfélagið hafi vald til þess að kaupa stofninn og fá hann í hendur manni, sem það treystir til að standa fyrir slíku búi.

Þá kemur 12. brtt., við 50. gr., að í stað þess, að í frv. stendur, að hrútasýningar skuli halda í einstökum hreppum þriðja hvert ár, komi fjórða hvert ár.

Við 2. umr. frv. lagði n. til, að 51. gr. felli niður. Ég gerði þá grein fyrir því, hvers vegna hún hafði ekki trú á því, að samkeppni þessi gæti komið að verulegum notum, vegna ólíkra staðhátta í hverjum fjórðungi landsins. En með því að reyna að synda fyrir þau sker, sem n. hræddist mest, hefir n, fallizt á að láta gr. standa í frv. áfram, með breytingum. N. fer fram á þá breyt., að samkeppnin verði bundin við ákveðna landshluta og samskonar staðhætti. Með því móti má verða gagn og fróðleikur að samkeppninni.

Í brtt. er aðeins gert ráð fyrir, að farin sé ein umferð um landið til að byrja með, en að seinna megi endurtaka hana, ef samkeppnin verður að gagni, sem nm. vona að verði, og ef Búnaðarfélag Íslands óskar þess. Fannst n. rétt til samkomulags að hafa þetta ákvæði áfram.

Þá er 15. brtt., að á eftir 52. gr. komi ákvæði um sektir. Hefir gleymzt að setja slíkt ákvæði við þennan kafla, er frv. var samið, og er það nú leiðrétt með þessari brtt.

Þá er 16. brtt., við 55. gr., um nánari ákvæði um fóðurskoðanir, sem n. álítur, að vanti í frv. Sem sjá má, er farið fram á það í brtt., að fóðurskoðanir fari nægilega oft fram og að hinni fyrstu sé jafnan lokið fyrir 15. okt. ár hvert.

17. brtt., við 60. gr., er shlj. brtt. n. við 2. umr., að öðru leyti en því, að þá var gert ráð fyrir, að lán fóðurbirgðafélaga úr bjargráðasjóði skuli endurgreidd innan eins árs, en nú leggur n. til, að slík lán skuli greidd innan þriggja ára. Er það hagfeldara fyrir þau félög, sem þurfa að taka slík lán.

Þá kemur 19. brtt., við 89. gr. Er þar lagt til, að héraðssýningar komi í stað „sýslusýninga“ í frv. Telur n. heppilegra, að fleiri sýslur en ein geti verið saman um sýningar, þar sem sýningarsvæðin ættu að afmarkast af staðháttum, en ekki sýslutakmörkum eingöngu. Í frv. er líka lagt til, að landinu sé skipt í 10 umdæmi og sýningar haldnar í þeim til skiptis. Síðari liður brtt. er aðeins orðabreytingar í samræmi við fyrri liðinn.

Þá vil ég geta þess, að fram hafa komið 2 brtt. frá hv. þm. Barð., en þar sem ég tók ekki eftir þeim fyrr en ég hafði hafið mál mitt, á ég ekki gott með að átta mig á þeim í svipinn. En ég sé í fljótu bragði, að brtt. hans miða báðar að því að lækka þær styrkveitingar, sem n. hefir lagt til að veittar verði. Er ég mótfallinn því, að styrkir þessir verði færðir niður, og býst við, að ég geti tekið þá afstöðu gegn báðum brtt. fyrir n. hönd. Skal ég svo ekki hafa fleiri orð um málið að þessu sinni.