18.02.1931
Neðri deild: 3. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í C-deild Alþingistíðinda. (906)

27. mál, kirkjur

Hákon Kristófersson:

Án þess að ég vilji verða þátttakandi í umræðum þeim, sem hér hafa farið fram, sem ég tel að athuguðu máli eðlilegar, vil ég taka það fram, að ég hefi jafnan litið svo á, að orsökin til þess, að þingmenn hafa ekki fengið stjfrv. fyrir þing, væri sú, að frv. væru eigi svo snemma tilbúin, að slíkt væri hægt. Ég skal ekki segja, að hæstv. núverandi stjórn hafi farið í þeim efnum hægra en fyrrverandi stjórnir, en ekki er mér grunlaust um það, að eitthvað sé þó til í þeim ásökunum. Ég hefi hér fyrir framan mig framhaldsnál. póst- og símamálanefndar, og finnst mér, að eins hægt hefði verið að senda það þingmanninum og öðrum í sama héraði. Mér er m. a. kunnugt um, að ekki var það sent til mín, eins og þó hefði verið mjög vel hægt. Að ég átti kost á að sjá það fyrir þing, kom af því, að ég sá það á heimili eins vinar míns, sem látinn er fyrir 7 árum. Honum hafði verið sent það! (hlátur). Svipað má segja um annað merkisrit stjórnarinnar, sem nefnist „Samvinna bænda“. Þá bók sá ég ekki nema á einu heimili í Barðastrandarhreppi. Mun aðeins hafa verið sent Framsóknarmönnum vestra. (Dómsmrh.: Kaupfélagsmönnum). Ég sá hana þó hjá einum, sem ekki er í neinu kaupfélagi.

Ef þessar tvær bækur mega ekki eins sjást af Sjálfstæðismönnum sem öðrum, tel ég það illa farið, allra helzt þegar þær eru gefnar út fyrir fé úr ríkissjóði.

Hæstv. dómsmrh. hefir lýst yfir því, að hann hafi engin frv. fengið í tíð fyrrverandi stjórna. Þótt ég rengi ekki orð hans um það, sé ég þó ekki betur, en aðstaða hans til að afla sér frv. eða fá upplýsingar um efni þeirra sé ólíkt betri en okkar utanbæjarmanna. Þau ummæli, er hann hafði viðkomandi frv. um ríkislögreglu, sanna líka bezt, að svo er, því að hann segir, að sér hafi verið kunnugt um efni þess löngu áður en það kom fyrir augu annara þingmanna. Ég átel ekki stjórnina fyrir að hafa ekki sent út frv., af því að ég geri ráð fyrir, að þau hafi ekki verið tilbúin, en hitt tel ég ámælisvert, ef allir fá ekki sömu möguleika til að kynnast þeim málum, er stjórnin hugsar sér að leggja fyrir næsta þing, hver svo sem er.