18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í C-deild Alþingistíðinda. (948)

27. mál, kirkjur

Pétur Ottesen:

Hv. frsm. allshn. hefir gengið inn á till. á þskj. 156, því að hann segir, að það sé enginn munur á till. allshn. um sama efni, því að þeir skeyti prófasti framan á til að setja kirkjusvip á þessa gr. frv., en mér finnst nógur kirkjusvipur á þessu, þar sem greinin byrjar á að tala um prófast, að hann eigi öllu að ráða, og finnst mér það rangt, þar sem um jafnréttháa aðila er að ræða, og til að komast hjá misklíð, t. d. þegar prófastur vill byggja en söfnuður ekki, þá er hyggilegra fyrir þá, sem vilja heldur friðsamlegra samstarf, að samþ. till. okkar, sem þá um leið syndir fram hjá þessu hættulega skeri.

Svo ætti allshn. að vera því hægra að gera þetta, þar sem hún segir, að alveg sé sama, hvor brtt.samþ., og vænti ég að hv. dm. geti fallizt á, að réttara sé og hyggilegra að samþ. till. okkar um þetta á þskj. 156.

En ég get ekki gengið fram hjá því, er hv. flm. segir um kirkjusvip.

Var það að setja kirkjusvip á frv. að strika biskup út úr frv.? Ég held, að annaðhvort meini hann ekki mikið með þessu, eða honum hefir mistekizt, er hann vildi láta afmá biskup úr því ríki, er átti að byggja upp með þessu frv.

Ég undrast það, úr því að n. hefir gengið inn á 5. gr., að hún skuli þá taka aftur það, sem veitt er með 2. gr. En í 5. gr. frv., eins og það er núna, hefir sá byggingarfróði maður, sem gert er ráð fyrir, að prófastur leiti til, kirkjubygginguna í sínum höndum, og ræður hann, hvernig byggingunni er hagað og hve miklu fé er varið til hennar til skrauts og annars, sem hann vill prýða bygginguna með. Er hér verið að taka með annari hendinni, sem gefið var með hinni, því að þetta er í ósamræmi við till. okkar á þskj. 156. Ef menn vilja samþ. þessa brtt., leiðir af sjálfu sér að fella niður 5. gr., sem felur í sér gagnstæð ákvæði. Út af því, sem hv. frsm. sagði, að skeyta þessu aftan við 7. gr., að í kirkjum mætti halda safnaðarfundi, kjósa presta og annað þess hattar vil ég taka það fram, að þetta mundi ekki vera hægt, svo framarlega sem nokkur ágreiningur rísi út af þessu. Þess vegna höfum við borið fram till. um það, að í kirkju megi undir öllum kringumstæðum vera haldnir safnaðarfundir og að prestskosningar fari þar fram. Það er vitanlega ekki annað en útúrsnúningur, að það sé bundið skilyrði, að ágreiningur sé um þetta mál. Ég skal ekki fara meira út í þetta, því að í rauninni var ekki til mín mælt, það sem hv. frsm. sagði um brtt. hv. þm. S.-M. En af því að ég tók undir hana með honum og var henni samþykkur, vildi ég þó svara hv. frsm. þar að nokkru. Ég verð að segja út af hinu mikla kvennatali hv. frsm., að ég hefi nú lesið frv. og get ekki séð, að þar sé neitt, sem banni, að einungis konur skipi þessar nefndir. Í nefndina er kosið á safnaðarfundi og fer það eftir vali þessa safnaðar, hvort kynið hann velur til að skipa nefndina. Ef söfnuðurinn vill heldur kjósa konur, þá er það heimilt. — Mér er kunnugt um, að það er líka gert oft og tíðum. Ég vildi náttúrlega ekki draga úr því, sem hv. frsm. sagði um hinar góðu og heillaríku afleiðingar af þátttöku kvenfólksins í ýmsum stöðum í þjóðfélaginu, þar á meðal í opinberum störfum. Þetta álít ég réttmætt, en ég sé ekki, að með þessu ákvæði sé neitt gengið á það atriði. Ég ætla náttúrlega ekki að fara út í fræðimennsku hv. þm. um það, hvað Páll postuli var kvenhollur maður. (MT: Nei! ). Annað var ekki hægt að draga út af því, sem hann sagði, að hann hefði endað öll sín bréf með því að minnast á kvenfólkið.

Þá var það fyrirspurn hv. þm. V.-H. um till. um kirkjufærslur. Ég skal taka það fram, að það sem fyrir okkur vakti með þessari brtt. er, að ef um verulega færslu er að ræða, sé kirkja færð af einni jörð á aðra, enda mun það oftast vera undirrót þess ágreinings, sem rís um kirkjufærslur, því að þeir sem búa fjær eftir flutninginn eiga erfiðara með að sækja kirkju. En að færa kirkju af grunni með tilliti til þess, að á þessum stað er betra kirkjustæði en á hinum kirkjustaðnum, það var vitanlega ekki slík kirkjufærsla, sem við höfðum í huga, þegar við sömdum brtt.