17.08.1931
Efri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

134. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Jón Baldvinsson:

Magnús heitinn Kristjánssson, sem var fjmrh. í stjórn Framsóknarflokksins 1928, tók vel í það hér á þinginu að nota heimild þá, sem fólst í veðdeildarlögunum um það, að ríkið ábyrgðist lán til þess að kaupa fyrir veðdeildarbréf. Þetta hafði verið gert áður, eins og búið er að upplýsa í umr., en þrátt fyrir þessa heimild í l. og þrátt fyrir góð orð fjmrh., þá varð ekkert úr þessu, enda féll Magnús Kristjánsson frá skömmu síðar.

Það, sem hefir gerzt í þessu máli frá hendi ríkisstj., er ekki annað en það, að hún hefir trassað að uppfylla þau loforð, sem hún hafði gefið, en búizt var við, að myndu verða efnd. Afleiðingin hefir orðið sú, að uppétizt hefir það fé, sem fyrir var til bréfakaupanna, en alltaf svo mikil þörf hér á erlendu lánsfé, að bréfin hafa um skeið verið lítt eða óseljanleg, nema fyrir afarlágt verð. Þetta ástand hefir aftur á móti dregið mjög úr byggingum í kaupstöðum og líka í sveitum landsins, og erfiðleikar hafa skapazt, því fyrir lágu lánbeiðnir hjá Landsbankanum, sem námu mjög miklu fé og höfðu stórvægilega þýðingu fyrir menn, sem búnir voru að taka lán, á einn eða annan hátt, lít á byggingar þær, sem þeir voru búnir að koma upp. Sumpart höfðu þessir menn fengið lán hjá vinum sínum og sumpart hjá efnissölunum, og það er áreiðanlegt, að mikið af þessu fé stendur sem skuld landsins erlendis, og hefir orðið til þess að minnka það veltufé, sem var hér og væri annars til í landinu handa atvinnurekstrinum. Á hinn bóginn hefir þetta dregið stórkostlega úr atvinnu þeirra manna, sem byggingar hafa stundað, og aukið að öllu leyti á hið erfiða ástand, sem verið hefir hér nærfellt eitt ár, og það heldur áfram að auka á vandræði manna, unz úr verður bætt. Þótt þetta frv. um nýja stofnun til þess að koma bréfunum á erlendan markað sé nú fram komið, þá er það næsta seint, og ríkisstj., hefir þó látið skína í það á undanförnum þingum, að hún væri með einhvern slíkan undirbúning, en hann hefir tekið æðilangan tíma og orðið til stórskaða fyrir land og lýð. Því að þótt deila megi um það, hvort það sé fært landinu til skuldar erlendis, að landið gangi í ábyrgð fyrir fé til kaupa á veðdeildarbréfum og það dragi úr lánstraustinu, þá er ekki að efa, að þeir erfiðleikar, sem skapast við það, að ekki hefir verið hægt að fá lánað fé, þeir draga líka úr lánstraustinu, og ekki er víst nema minni skaði hefði verið að því að geta sagt, að ríkið skuldaði nokkrum millj. meira erlendis en þessi stöðvun á byggingunum hefir valdið. Ég hygg, að það hefði vegið minna, þótt ríkisskuldirnar hefðu aukizt um 2–3 millj., og því hefði verið varið til þess að kaupa og leysa út þessi bréf, heldur en tjónið af byggingastöðvuninni.

Viðvíkjandi því, sem n. leggur til um breyt. á þessu frv., þá býst ég við, að við það verði ekki annað að gera að svo komnu máli. Eins og þetta frv. er byggt upp, þá geta byggingarsjóðir ekki komizt þarna inn nema með því, að um þá sé gerð sérstök löggjöf, og líklega stofnaður einn byggingarsjóður fyrir allt landið í heild, hvort sem það nú verður aðeins að forminu til, svo að hægt verði að selja þessi bréf, þá liggur það ekki fyrir í l. um verkamannabústaði, svo að ekki er um annað að gera en samþ. þær till., sem bornar eru fram á þskj. 322, og útbýtt var í morgun, samþykkja þær í trausti þess, að löggjöfin verði samrýmd, svo að byggingarsjóðir eigi aðgang að þessari veðdeild með sölu bréfa sinna á erlendum markaði, á sama hátt og Landsbankinn og Búnaðarbankinn selja sín bréf. Það er æskilegt, að frv. þetta nái fram að ganga á þessu þingi, og einnig frv. um veðdeild Landsbankans, sem er hér aftar á dagskránni.