11.08.1931
Efri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í D-deild Alþingistíðinda. (1165)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Jakob Möller:

Já, ég hefði nú getað sleppt því að svara hv. 2. landsk., því hann er dauður. En mér þykir þó rétt að víkja örfáum orðum að ræðu hans.

Hann sagði, að það hefði verið alvarlegt mál fyrir Framsókn, ef hún hefði ekki fengið verðtollinn. En það hefði ekki verið neitt alvarlegt mál fyrir framsóknarmenn, þegar jafnaðarmenn voru reiðubúnir til að fá þeim ekki aðeins eins mikið fé og verðtollinum nam, heldur fimmfalda þá upphæð. (JBald: Þær tekjur voru bundnar). Hv. þm. veit vel, hvað Framsókn metur mikils slík bönd. Þegar stj. var búin að ná í þessar tekjur, hefði hún notað þær eins og henni sýndist, eins og annað fé ríkissjóðs, hvað sem öllum böndum leið. Það dettur víst engum í hug, að hver peningur af þessum tekjum hefði verið notaður eftir fyrirmælum hv. 2. landsk. Nei, þær hefðu verið notaðar eins og stj. gott þótti. Þar að auki voru ekki allar tekjurnar bundnar. Ég man ekki til, að það væru nein bönd á tekjunum samkv. tekjuskattsfrv., sem hv. þm. Seyðf. flutti í Nd. (JBald: Það var bundið í kreppufrv.). Það er alveg rétt, en tekjurnar eftir tekjuskattsfrv. voru, að ég held, alveg óbundnar. Og ef það væri nú samþ., en kreppufrv. ekki, hvar eru þá böndin? Ég man satt að segja ekki öll þau tekjuaukafrv., sem jafnaðarmenn hafa flutt, en þau eru ekki öll miðuð við kreppuna. Sum eru það, og þær tekjur eru bundnar að nafni til. en tekjur samkv. tekjuskattsfrv. eru alveg óbundnar. Og jafnaðarmenn voru reiðubúnir að bera fram frv. um hækkun tekna, hvenær sem vera skyldi, og hafa gert það. Við sjáum nú t. d. frv., sem hv. 2. landsk. flytur hér í þessari hv. d. um einkasölu á tóbaki og eldspýtum. Ég geri nú reyndar ráð fyrir, að það gefi ekki miklar tekjur í ríkissjóð, en hann gerir sjálfsagt ráð fyrir því. Og ekki hefir hv. þm. lagt nein bönd á þær tekjur. Ég veit ekki betur en það frv. hafi verið afgr. til d. haftalaust. Svo eins og allir sjá, er þetta ekki annað en snakk út í loftið. En það er sannleikur, að jafnaðarmenn vildu kaupa því við sjálfstæðismenn að neita Framsókn um verðtollinn, en voru svo sjálfir reiðubúnir til að láta hana fá ekki aðeins þá upphæð, heldur fimm- til sexfaldar tekjur verðtollsins. Hvaða þvingun var þá í því að fella verðtollinn?

Við lítum svo á, sjálfstæðismenn, að það sé ekki hyggilegt, sérstaklega nú á þessum krepputímum, að taka þann kost að fella niður þá skatta, sem fyrir eru, og taka upp beina skatta í staðinn. Við viljum ekki fella niður þá tolla, sem verið hafa, vegna þess, að við keppum að því, að innflutningur verði sem minnstur á þessum erfiðu tímum. En niðurfelling tolla myndi verka þannig, að meira yrði flutt inn af vörum.

Það hefði ekki komið til, að Framsókn hefði komizt í nein vandræði, þó verðtollurinn hefði verið felldur, svo það er alveg út í loftið þegar hv. 2. landsk. er að tala um nýjar kosningar í því sambandi.

Hv. þm. sagði, að þó Framsókn hefði gengið til kosninga og fengið 2 sæti í viðbót, þá hefði hún ekki getað skipað þingið svo, að hún hefði komið málum fram gegn vilja andstöðuflokkanna. En má ég spyrja: Hvar stendur vilji þessara andstöðuflokka saman?' Ég hefi ekki orðið var við það, að það væri í einu einasta máli, ekki einu sinni, að því er virðist upp á síðkastið, í kjördæmaskipunarmálinu. Og nú veit hv. þm. það, að ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði tapað 2 þingsætum, þá hefði hann ekki haft vald til að skipa Ed. Alþ. þannig, að þar yrði neitunarvald. Alþýðuflokkurinn vildi ekki taka þátt í skipun Ed. og hefir ekki sýnt nein samtök í að koma málinu fram. Og sjálfstæðismenn verða að haga sér eftir því, haga sér eins og Alþýðuflokkurinn sé runninn af hólmi og búinn að svíkja málið. Því það er hann.

Hv. þm. sagði, að Alþýðuflokkurinn hefði ekki getað komið manni upp í Ed. Hv. þm. veit ákaflega vel, að hann hefði getað það, ef hann hefði viljað.