04.08.1931
Neðri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

1. mál, fjárlög 1932

Jón Auðunn Jónsson:

Ég ber enn fram nokkrar brtt. við þessa umr. fjárl., sem ég þarf að mæla nokkur orð fyrir. Er þar þá fyrst brtt. III, á þskj. 183, um að veittar verði 12 þús. kr. til síma frá Sandeyri að Stað í Grunnavík af fé því, sem ætlað er til símalagninga á þessu ári. Tók ég þessa till. aftur við 2. umr. fjárl. samkv. beiðni hv. fjvn. og hefði því vænzt þess, að n. hefði eitthvað um till. sagt, en svo hefir nú ekki orðið. Ég kann ekki við að vera nú að endurtaka þau rök, sem ég færði fram fyrir till. við 2. umr., en vil aðeins minna á það, að þessi símalína um norðurhreppi Ísafjarðarsýslu var ákveðin þegar árið 1913 í símalögunum, en síðan hefir ótal nýjum línum verið bætt í símalögin og auk þess verið lagðar margar nýjar símalínur fyrir hundruð þúsunda kr. utan við fjárl., og þessi lína samt alltaf orðið útundan. Ég vænti því þess, að hv. n. sjái sér fært að mæla með þessari till., þegar hún athugar þetta, og að hv. d. geti fallizt á að samþ. þessa sanngjörnu till.

Næsta till. mín er á sama þskj., 183, V, og fjallar um 300 kr. læknisvitjanastyrk til Nauteyrarhrepps. Hefir hv. fjvn. einnig gert till. þessa efnis, en bætt þeirri aths. við, að hreppurinn skuli því aðeins njóta þessa styrks, að héraðið sé læknislaust. Eins og stendur þjónar þarna settur læknir, en allar líkur benda til þess, að svo verði ekki nema 2—2½ mánuð enn, en jafnvel þó að þarna sæti fastur læknir, er svo erfitt til hans að sækja fyrir íbúa hreppsins, að þeir eru litlu betur settir en þó að héraðið væri læknislaust. Það stendur því eins á fyrir þessum hreppi og þeim öðrum hreppum, er njóta þessa styrks, og leyfi ég mér því að vænta þess, að hv. fjvn. geti fallizt á að hverfa frá aths. sinni við till.. og mundi ég þá taka þessa till. mína aftur.

Eins og ég drap á í framsöguræðu minni fyrir till. samgmn. við 2. umr. fjárl., ber bráðlega að því, að ríkissjóður þurfi að styrkja þau félög, sem halda uppi bátaferðum með flóum og fjörðum landsins, meira en verið hefir til þessa. Er þetta og strax komið á daginn, því að nú er Djúpbáturinn, sem annazt hefir ferðirnar um Ísafjarðardjúp, ónýtur, og þarf að fá nýtt skip í þessu skyni. Hefi ég ekki getað náð samgmn. saman, til þess að fá meðmæli hennar með þeirri till., sem ég hefi leyft mér að bera fram vegna þessa, 183, XXI, þar sem farið er fram á, að veittur verði 30 þús. kr. styrkur til kaupa á nýjum bát, gegn tvöföldu framlagi annarsstaðar frá. Er meiningin, að þessi nýi bátur fullnægi öllum þörfum um póst- og mannflutninga um Ísafjarðardjúp, en þangað leggja ekki önnur skip leið sína en Esja, sem kemur á Bolungarvík nokkrum sinnum á ári. Er því hin fyllsta nauðsyn á, að þessar samgöngur falli ekki niður, en þar er nú ekki annað fyrirsjáanlegt, því að félagið, sem haldið hefir þessum ferðum uppi, er nú að þrotum komið fjárhagslega, og tillög Ísafjarðar og Norður-Ísafjarðarsýslu uppurin. Hefir félagið engin tilk á að halda þessum samgöngum uppi áfram, ef því kemur ekki styrkur til þess frá ríkinu, a. m. k. ekki nema það fái þá ábyrgð fyrir láni í þessu skyni. Ég vil hinsvegar benda á það, að áður en Djúpbáturinn kom, þurfti póstjóður að greiða árlega 10–12 þús. kr. til póstferða á þessum slóðum eingöngu. Auk þess er svo ástatt í Ísafjarðarsýslu, að þar verður ekki komið við ferðum eða flutningum á landi, nema þá aðeins á milli hreppa. Ég er því sannfærður um það, að ekki verður komizt hjá þessum aðgerðum að því er Djúpbátinn snertir, og reyndar líka að því er snertir bátinn, sem er í ferðum um norðanverðan Breiðafjörð, því að félagið, sem gerir hann út, er líkt statt, að öðru leyti en því, að sá bátur má teljast viðunandi eins og hann er. — Ef litið er til þess, hve Norður-Ísafjarðarsýsla lætur mikið af mörkum til ríkissjóðs, er þetta, sem hér er farið fram á, ekki nema lítið brot af þeirri upphæð, eða fyrir neðan 10% af því, sem sýslan borgar beint í ríkissjóð, og eru þá frá dregin þau útgjöld, sem ríkissjóður hefir vegna sýslunnar við starfrækslu á embættum þar o. s. frv. Ég þykist því fara hér hóflega í sakirnar, enda hefir það jafnan verið svo, að NorðurÍsafjarðarsýsla hefir greitt mikið í ríkissjóð, en lítið úr honum fengið í staðinn. Ég segi þetta ekki vegna þess, að ég telji það eftir, þó að Norður-Ísafjarðarsýsla borgi meira en aðrar sýslur í ríkissjóð í hlutfalli við það, sem ríkissjóður lætur sýslunni af mörkum. Ég álít það skyldu allra borgara þjóðfélagsins að sjá ríkissjóði fyrir nægilegum tekjum að sínum hluta, en hinsvegar má ríkissjóður þá ekki vera svo fastheldinn að synja hinum ýmsu landshlutum um styrki, sem þeim er nauðsynlegt að fá. En svo er um þann styrk, sem ég fer hér fram á, og vænti ég því þess, að hv. þd. sjái sér fært að samþ. þessa till.

Þá á ég till. XXIV, á þessu sama þskj., þar sem farið er fram á, að veittar verði 3750 kr. til viðgerðar á öldubrjótnum í Bolungarvík. Er þetta endurveiting. N. hefir orðið sammála um að veita þetta, enda virðist það hyggilegra að færa þessa veitingu yfir á næsta ár, þar sem ekkert hefir enn verið unnið að þessu, því að nú er orðið svo áliðið sumars, að þetta verk mundi ónýtast, ef farið væri að byrja á því nú, vegna þess, hve þarna er stórbrimasamt, þegar komið er fram yfir miðjan ágúst. Með því að færa þessa fjárveitingu yfir á næsta ár, eins og till. fer fram á, er það tryggt, að hægt verði að byrja á þessu verki næsta vor, og kemur þá fjárveitingin að fullum notum.

Sú hefir ekki verið venja mín að flytja till. um styrk til einstakra manna. Hefi ég sem margir aðrir fremur kosið að leggja eitthvað af mörkum sjálfur til þess að styðja efnilega unga menn til náms. Nú hefi ég samt orðið til þessa, þar sem ég fer fram á það, að Jóni Sigurðssyni verði veittar 1000 kr. til þess að nema nýjustu aðferðir til byggingar úr járnbentri steinsteypu (183, XXXIV). Þessi maður er hinn efnilegasti, námfús og atorkusamur og hefir hin beztu meðmæli. Hefir hann þegar verið að þessu námi í tvö ár, og þarf að dvelja ytra eitt ár enn til þess að fullnuma sig. Vænti ég þess, að hv. d. geti fallizt á að samþ. þessa till., því að okkur er ekki sízt þörf á sérmenntuðum mönnum í þessari grein, svo, mjög sem steinsteypubyggingar fara í vöxt hér á landi.

Næsta till. mín er nokkuð óvanaleg í 183, XLIII). Fer ég þar fram á, að búfjáreigendum í Norður-Ísafjarðarsýslu verði veittur 20 þús. kr. styrkur til fóðurbætiskaupa. Eins og ég hefi drepið á áður, verður mjög þröngt í búi þarna vestra í ár, eins og reyndar víðar á landinu, vegna hins mikla grasbrests, sem þar er. Hafði ég hálfvegis búizt við því, að hv. n. mundi gera einhverjar till. til úrbóta í þessu efni, en svo hefir þó ekki orðið. Er þó fyrirsjáanlegt að mörgum bóndanum verður ókleift með öllu að komast yfir þau vandræði sem af grasbrestinum leiða, án þess að þeim komi einhver styrkur af opinberu fé eða fái a. m. k. vaxtalaus lán Það má að vísu benda á Bjargráðasjóð í þessu skyni, en ég lít svo á, að ekki sé rétt að grípa til hans í þessu tilfelli, því að það má búast við, að komið geti mörg vond ár í einu, og er því hyggilegra að geyma að taka af honum, en veita í þess stað nokkurn styrk til þeirra sýslna og hreppsfélaga, sem harðast hafa orðið úti af völdum grasbrestsins. Hefi ég fyrir nokkru símað oddvitunum í Norður-Ísafjarðarsýslu og beðið þá að safna upplýsingum um ástandið þar vestra. Svör þeirra hefi ég nú fengið og skal ég með leyfi hæstv. forseta leyfa mér að lesa þau hér upp

Oddvitinn í Eyrarhreppi símar á þessa leið: Töðumagn helmingi minna en síðastl. sumar.

Oddvitinn í Hólshreppi segir svo: Töðufengur í sumar 65,75% minni að meðaltali en í fyrra.

Oddviti Súðavíkurhrepps símar: Áætlaður töðufengur, fyrri sláttur, allt að 50% minni en 1930. Túnasláttur víðast byrjaður tveim vikum síðar en þá, svo að há verður sennilega talsvert minni.

Oddviti Nauteyrarhrepps símar: Áætla töðuna 80% minni.

Það er eftirtektarvert, að þetta er einhver stærsti landbúnaðarhreppur sýslunnar, sem svo illa hefir orðið úti.

Oddvitinn í Ögurhreppi símar svo: Eftir því sem séð verður, áætlast töðufengur í Ögurhreppi í sumar 65% minni en síðastl. ár.

Oddviti Reykjafjarðarhrepps símar: Töðufengur hér í hreppi áætlaður 75% minni en síðasta ár.

Oddviti Sléttuhrepps símar: Áætla töðufeng hér um 25% minni en í fyrra.

Oddviti Snæfjallahrepps símar: Áætla töðufeng hreppsins 50% minni en síðastl. ár.

Oddviti Grunnavíkurhrepps, sem staddur er hér í bænum, hefir tjáð mér, að töðufengur þar í hreppi muni verða um , 50%; minni en síðastl. ár.

Þegar þess er gætt, að útengjar eru mjög rýrar eða engar í Norður-Ísafjarðarsyslu, mega menn geta sér nærri, hvernig horfurnar þar eru. Ég veit til þess, að í sumum þeim hreppum hér á Suðurlandi, sem taldir eru að hafa orðið einna verst úti, er áætlað, að töðufengurinn verði 10–20% minni en í fyrra, en útengjar munu hér alstaðar í meðallagi eða betri. Það er því enginn samanburður á því. hvað þessir hreppar í NorðurÍsafjarðarsýslu hafa orðið verr úti. Ég geri ráð fyrir því, að þessum styrk, ef veittur verður, verði skipt niður á milli hreppana með tilliti til þess, hve mikinn skaða þeir hafa beðið vegna grasbrestsins, en það sjá allir, að styrkurinn á hvern einstakan hrepp kemur ekki til með að bæta mönnum þenna skaða nema sem svarar að fjórðungi. Þannig var töðufengur í Nauteyrarhreppi um 6000 hestar í fyrra, en verður nú ekki nema 1500 hestar, eftir því sem áætlað er. Engu að síður vænti ég þess fastlega, að hv. d. samþ. þessa till. mína.

Þá flyt ég till. um það (183, LV), að eftirlaun Cathincu Sigfússon verði hækkuð úr 400 kr. upp í 1000 kr., eða til vara 750 kr. Ég veit ekki, hvort hv. þd. eru kunnar ástæður þessarar heiðurskonu, en ég get skýrt frá því, að þau hjón voru efnalaus, þegar maður hennar féll frá, og mun það einkum hafa dregið til þess, hversu þau hafa hjálpað mörgum fátækum piltinum til mennta. Hafa svo sagt mér þeir menn, sem vel voru kunnugir þeim hjónum, að ekki lítill hluti af launum Jóhannesar sál. Sigfússonar yfirkennara hafi gengið til þessa. Þau hjón áttu engin börn, en settu alla getu sína í það að hjálpa fátækum námsmönnum áfram, enda munu þeir skipta tugum, sem þannig hafa orðið aðnjótandi hjálpar þessara heiðurshjóna. Er þá illa launað gott og göfugt starf, ef eftirlaun þessarar valinkunnu sæmdarkonu verða ekki hækkuð eins og ég fer fram á með þessari till.

Þá kem ég að síðustu brtt. á þessu þskj., 183, LXVII. Er sú till. mín í tveim liðum. Í fyrri lið till. fer ég fram á það, að endurnýjuð verði heimild fyrir stj. til að ábyrgjast lán fyrir Hólshrepp, til þess að koma upp raforkuveri, gegn endurábyrgð Norður-Ísafjarðarsýslu, sent þegar hefir samþ. að ábyrgjast lánið. Það liggja ekki fyrir neinar áætlanir um þessa virkjun nú, en eftir útreikningum Steingríms Jónssonar rafmagnsstjóra, sem gerðir voru 1929 og þá lágu hér frammi, er mjög álítlegt að virkja á þessum stað, sem hér er um að ræða. Hefir þegar verið varið 20 þús. kr. til undirbúnings virkjuninni, með því að leggja vegi, byggja stíflugarða o. fl. Vænti ég þess, að hv. þd. fallist á að samþ. þessa endurveitingu með tilliti til þessa. Síðari liður þessarar till. minnar fjallar um það, að stjórninni verði heimilað að ábyrgjast allt að 60 þús. kr. lán fyrir h/f

Djúpbátinn til bátskaupa, gegn ábyrgð Norður-Ísafjarðarsýslu og 1. veðrétti í bátnum. Eins og ég gat um áður í sambandi við till. um styrkveitingu til handa Djúpbátsfélaginu, er sá bátur, sem félagið hefir haft í förum, ónýtur. og verður því að kaupa nýjan bát til þess að halda þessum samgöngum uppi. Er þessi ríkisábyrgð nauðsynleg til þess að það geti tekizt. Ef þessarar ábyrgðar verður hinsvegar synjað, eru þessar samgöngur þar með úr sögunni, því að félagið getur ekki ráðizt í þessi bátakaup af eigin ramleik, og mundi þá t. d. póstsjóður verða að halda uppi póstferðum á þessum slóðum á eigin kostnað að öllu leyti. En ég vænti þess fastlega, að hv. d. sjái sér fært að verða við þessari beiðni, því að það má heita lífsnauðsyn fyrir alla þá, sem þarna búa, að þessar samgöngur leggist ekki niður. Ef svo illa færi, yrðu menn þar að breyta um búskaparlag og þessi héruð að fá landafurðir annarsstaðar frá en nú, sem mundi bæði verða óhentugra og dýrara. Hinsvegar gera örar samgöngur innan héraðsins það að verkum, að menn geta meira skiptzt á vörum sín á milli en ella og þannig losnað að miklum mun við að kaupa erlendar vörur. Þessi bátur, sem hér er um að ræða, hefir undanfarið farið flestar ferðir af þessum svokölluðu flóabátum. Á síðasta ári fór hann 114 ferðir innan Ísafjarðardjúps og nokkrar út fyrir það. Og í ár er áætlað, að báturinn fari 118 ferðir. Ég veit, að þeir hv. þm., sem þekkja til staðhátta þarna fyrir vestan, muni skilja nauðsyn þessa máls, og vænti þess fastlega, að d. samþ. þessa till. mína.