04.08.1931
Neðri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

1. mál, fjárlög 1932

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Ég er flm. að 2 till. með hv. þm. Seyðf. og hv. þm. Ísaf. Önnur fer fram á styrk til Sjómannafélags Reykjavíkur til að halda uppi sjómannastofu, en hin er um styrk til Alþýðusambands Íslands til að halda uppi ráðningarskrifstofu.

Sjómannafélag Reykjavíkur er eitt stærsta verklýðsfélagið á landinu, — telur um 1200 félaga. Innan félagsins eru allir hásetar á togurum og línuveiðurum og nær það einnig til sjómannanna í Hafnarfirði. Það hefir skrifstofu með föstum ráðsmanni. En það vill líka geta haldið uppi sjómannastofu, þar sem hægt er að veita upplýsingar um ýmislegt, sem sjómennina varðar, og þar sem gæti verið lesstofa, þar sem sjómenn gætu komið saman og átt athvarf, þegar þeir eru í landi, bæði þeir, sem ekki eiga heima hér í bænum, og einnig þeir, sem hér eru búsettir. Að vísu er önnur sjómannastofa hér í bænum, en hún er ekki á vegum sjómannafélagsins, en félagið sjálft óskar að geta haft sína stofu. En það sér sér ekki fært að koma því í framkvæmd, nema Alþ. veiti því styrk til þess. Við höfum því leyft okkur að fara fram á 10 þús. kr. í þessu augnamiði.

Ég þarf ekki að lýsa því, hverja aðbúð sjómennirnir hafa. Þeir eru úti á sjó mestan hluta ársins og veitir því ekki af, að eitthvað sé gert til þess að gera þeim vistlega dvölina þær fáu stundir, sem þeir eru í landi. — Í útlöndum geta þeir leitað til sjómannastofa, og vildu þeir gjarnan geta launað hinum útlendu stéttarbræðrum sínum það, þegar þeir koma hingað til lands.

Viðvíkjandi ráðningarskrifstofunni vil ég vísa til frv.

Hér vantar mjög tilfinnanlega ráðningarskrifstofu, sem hægt væri að leita til frá báðum hliðum, — atvinnurekendum og verkamönnum. Það er oft talað um, að erfitt sé að fá vinnufólk í sveitir, en ætla má, að það komi mikið til af því, að fólk veit ekki, hvert það á að snúa sér. En ekkert er eðlilegra en að verkamennirnir sjálfir haldi uppi skrifstofu, þar sem upplýsingar eru gefnar um það, hvar menn muni vera að fá og hvert vinnu er að leita. Nokkur hluti atvinnuleysis kemur að jafnaði til af því, að menn vita ekki, hvar vinnu er að fá, og þegar einhver er atvinnulaus innan síns kauptúns, þá er það oft svo, að hann veit ekki, hvort það þýðir að fara á aðra staði. Öll verklýðsfélög á landinu eru í Alþýðusambandinu og geta gefið upplýsingar í gegnum það. Við leggjum til, að veittar séu 8 þús. kr. til þessa fyrirtækis og er óhætt að segja, að ef gagn yrði að þessu á annað borð, þá má ekki gera ráð fyrir því minna en 8 þús. kr. virði.