18.08.1931
Neðri deild: 32. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (1338)

113. mál, verkamannabústaðir

Frsm. minni hl. (Bergur Jónsson):

Allshn. hefir klofnað um afgreiðslu þessa máls. Leggur meiri h1. n. til, að málið verði ekki afgr. á þessu þingi, en minni hl., sem ég mynda ásamt hv. 2. þm. Rang., að frv. verði samþ. með nokkrum breyt.

Frv. fer fram á þá breyt. á núgildandi l. um verkamannabústaði, að árlegt gjald ríkissjóðs og bæjar- og sveitarsjóða til byggingarsjóðanna hækki úr 1 kr. á íbúa upp í 3 kr. Höfum við ekki séð okkur fært að ganga svo langt, en leggjum til, að gjaldið verði ákveðið 2 kr., eins og upphaflega var ætlazt til, þegar þetta mál var borið fram fyrst hér á þingi.

Þá höfum við ekki getað gengið inn á 3. lið 1. gr., þar sem farið er fram á að lögfesta fast lóðargjald til byggingarsjóðanna, 4 af þúsundi af fasteignamatsverði. Sýsluvegasjóðsgjaldið nemur 6 af þús. í flestum sýslum landsins, þar sem sýsluvegasjóðum hefir verið komið á, og með þessari viðbót til byggingarsjóðanna yrði fasteignagjaldið því fullhátt.

Önnur brtt. okkar er aðeins leiðrétting. Þá höfum við athugað till. um hækkun á hámarkstekjum þeim, sem menn megi hafa til þess að geta orðið aðnjótandi þeirrar aðstöðu, sem l. um verkamannabústaði veita. Farið er fram á, að hámarkið verði sett við 6500 kr., í stað 4000 kr. Við álítum, að eins og nú standa sakir, þá muni vera nægilega margir lágtekjumenn, sem ekki hafa meira en 4000 kr. árstekjur að meðaltali, sem fúsir munu að taka þátt í þessum byggingarfél., svo að þau gætu starfað af fullum krafti og þyrftu ekki að gera þá menn að meðlimum sínum, sem hærri tekjur hafa. Þó höfum við viljað sýna viðurkenning þeirri hugsun, sem í frv. felst um það, að rétt sé að taka tillit til þess, hvort menn séu ómagamenn eða ekki, og höfum við því borið fram brtt. þess efnis, að í stað 500 kr. komi 300 kr., og í stað 6500 kr. komi 5500 kr.

Loks höfum við ekki viljað ganga inn á það ákvæði í frv., að verkamannabústaðirnir séu undanþegnir fasteignaskatti.

Að öðru leyti eru ákvæði frv. einungis skipulagsákvæði fyrir sjóðinn, sem við álítum rétt að samþ. að svo komnu máli.