04.08.1931
Neðri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

1. mál, fjárlög 1932

Jónas Þorbergsson:

Ég á þrjár brtt. á þskj. 183. Þá fyrstu flyt ég í félagi við hv. þm. Ak. og hefir hann gert grein fyrir henni að nokkru. Þessi till. er um hækkun styrks til flóabátaferða, og það, sem ég hafði aðallega í huga, var að hækkaður yrði styrkur til báts í Stykkishólmi, sem heldur uppi ferðum á Breiðafirði. Samgmn. hefir lagt til, að þessum bát yrði veittur 2000 kr. styrkur, en ég hefi fengið skýrslu frá ritgerðarmönnum hans á þá leið, að þeir treysti sér ekki til þess að halda uppi ferðum, ef þeir fá ekki meiri styrk. Bátur þessi er nýlegur, vandaður eftir stærð, og er ætlað að halda uppi samgöngum milli Breiðafjarðareyja um Meðalfellsstrandir og auk þess til Búðardals og inn á Gilsfjörð, þegar ferðir strandferðaskipanna eru strjálastar. Strandferðir, sem ríkið heldur uppi, eru mjög litlar á þessum slóðum; þetta er því hið brýnasta nauðsynjamál, því að mikill hluti míns kjördæmis væri illa staddur, ef þessar bátsferðir legðust niður. Samgöngur eru víða afarerfiðar í Dalasýslu, t. d. á Fellsströnd, Klofningshreppi og Skarðsströnd. Þar eru engir akvegir, enginn sími lengra en í Sauðafell og engar strandferðir aðrar en þær, sem þessi bátur hefir haldið uppi.

Hv. fyrrv. þm. Dal. bar fram á síðasta þingi. till. um, að sími yrði lagður eftir þessari strandlengju, frá Staðarfelli að Skarði. Ég hefi hlífzt við því að bera þessa till. fram nú, vegna þess, hve fjárhagsástandið er erfitt, en ég vona, að ég verði látinn njóta þess, og hv. þdm. taki þessari till. vel. Þessar ferðir bæta einmitt að nokkru úr símaleysinu.

Þá er brtt. XXXII, á sama þskj., þar sem farið er fram á, að fé það, sem ætlað er til þess að launa aukakennara við menntaskólann á Akureyri, verði hækkað úr 15 þús. kr. upp í 18 þús. kr. Ástæðan er sú, að skólameistari Akureyrarskólans hefir verið á hnotskóg eftir góðum söngkennara. Hann mun hafa fært það í tal við stjórnina síðastl. vetur, hvort hann mætti ráða tiltekinn mann til þessa starfa. Björgvin tónskáld Guðmundsson í Vesturheimi. Hann mun hafa fengið ádrátt um þetta hjá stjórninni, gegn því, að Akureyrarkaupstaður tæki að sér að launa kennarann að hálfu til söngkennslu við barnaskólann í kaupstaðnum. — Akureyrarbær tók undir eins vel í þetta, og nú fer skólameistari fram á, að þingið veiti það sem á vantar til þess að hægt sé að fá þennan ágæta mann að skólanum. Um Björgvin er óþarfi að fjölyrða. Hann er eitt af okkar beztu tónskáldum, brauzt ungur til Ameríku, og hefir þar áunnið sér virðingu og orðstí með dugnaði sínum og gáfum. T. d. kostuðu samlandar hans vestan hafs hann til sönglistarnáms í London, og lauk hann þar prófi með mjög góðri einkunn. Það væri svo góður fengur skólanum og landinu öllu að fá hann heim, að ég þykist þess fullviss, að hv. þdm. taki vel í þessa tillögu.

3. brtt. er sú XLV. á sama þskj., og er þar farið fram á, að Eggert Magnússyni, bónda í Tjaldanesi í Dalasýslu, verði veittar 900 kr., og til vara 700 kr., til dýralækninga. Í fjárl. þeim, sem nú eru í gildi, er hliðstæð fjárveiting til Hólmgeirs Jenssonar, 900 kr., svo að þetta er ekkert nýtt, að fé sé veitt í þessu augnamiði. Eggert lærði dýralækningar hjá Magnúsi heitnum Einarssyni um 1 ár og hefir stundað þær síðan í Dalasýslu, Strandasýslu og víðar og verið mjög heppinn. Hv. fyrrv. þm. Dal. flutti þessa till. á síðasta þingi, en hún náði þá ekki fram að ganga. Vona ég, að henni farnist betur í þetta sinn.