23.07.1931
Neðri deild: 10. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (1368)

66. mál, slysatryggingalög

Flm. (Halldór Stefánsson):

Ég hefi leyft mér ásamt hv. 3. þm. Reykv. að bera hér fram frv. um breyt. á slysatryggingalögunum. Frv. þetta er að mestu leyti kunnugt frá síðasta þingi. Fór það þá til nefndar og fékk þar góðar undirtektir, og vona ég, að svo verði enn. Nú eru þó nokkur nýmæli í frv., og vík ég síðar að þeim.

Breyt. sú, sem hér er farið fram á að gerð sé á gildandi lögum, miðar að því að nema burt ýmsar takmarkanir við slysatrygginguna, takmarkanir, sem eru óeðlilegar og hafa valdið óvissu í framkvæmd.

Þær breyt., sem ég vil geta hér um, eru þær, að í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að fiskimenn séu tryggingarskyldir, þótt þeir hafi ekki stundað fiskiveiðar 1 mánuð í senn, og ennfremur, að afnumin sé sú takmörkun tryggingarskyldu, að 5 menn eða fleiri vinni að verkinu eða aflvélar séu notaðar að staðaldri, því um slíkt er oft óvíst þegar byrjað er á fyrirtækinu.

Aðalnýmæli frv. er í 5. gr. og hnígur það að því að gefa almenna heimild til frjálsrar tryggingar þar, sem skyldutrygging er ekki. Þetta er engin þvingun, heldur frjálst val fyrir þá, sem vilja nota þessa heimild. Það felst þó meira í 5. gr. en í texta hennar segir, vegna þess sem fellur niður í staðinn. Það hefir verið vafi á því, hvort eigendur tryggingarskyldra fyrirtækja, þar með taldir bílstjórar á eigin bíl, væru tryggingarskyldir, ef þeir ynnu sömu áhættusömu vinnuna. Sá vafi er byggður á orðalagi 15. gr. eins og það er nú, en fellur niður, ef orðun greinarinnar breytist eftir tillögum frv.

Það hefir komið fram brtt. á þskj. 79 frá hv. þm. Ísaf. Við flm. þessa frv. föllumst að efni til á þessa brtt., en við álítum, að betra sé að setja hana á annan stað í lögunum; og vona ég, að hv. flm. till. geti fallizt á það. Munum við hv. þm. Ísaf. bera fram till. þess efnis síðar.

Ég vil svo óska, að þessu máli verði vísað til allshn. Þetta er einfalt mál og ágreiningslaust og ávinningur að það gangi fram á þessu þingi. Það er m. a. vegna þess, að á síðustu þingum hafa lögin tekið ýmsum minniháttar breytingum. Af þeim sökum er orðið nauðsynlegt að breyta reglugerðinni og gefa lögin út í nýjum texta, svo að handhægra sé fyrir þá, sem þurfa að nota þau.