04.08.1931
Neðri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

1. mál, fjárlög 1932

Jón Auðunn Jónsson:

Ég vil aðeins geta þess til viðbótar um styrkinn til Jóns Sigurðssonar, að ég hefi leyft mér að hækka styrkupphæðina upp í 5 þús. kr., sbr. þskj. 202. Það var svo að heyra á n., að það væru margir fátækir námsmenn, sem þyrftu þessa styrks með, og n. ætlaði öðrum þessar 4 þús. kr. En svo stendur á með þenna mann, að auk þess sem hann stundar nám í byggingafræði og tekur fyrri hl. prófsins næsta vor, þá ætlar hann sérstaklega að stefna að því að læra að ákveða um styrkleika bygginga eftir samsetningu og eins það, sem er sérstaklega nauðsynlegt, að læra að rannsaka byggingarefni, því að eins og allir vita, þá er nauðsynlegt, að þeir, sem vinna að byggingum, kunni til verka við það og hafi þekkingu á að rannsaka byggingarefni allskonar, sem nota þarf í steinsteypu. Þetta nám stundar hann við háskólann í Darmstadt. Þar eru prófessorar, sem eru sérstaklega vel að sér í þessum fræðum. Þeir halda námsskeið við háskólann, og þangað sækja fleiri þús. manna frá ýmsum löndum.

Þegar litið er til þess, að síðustu ár hefir verið byggt hér á landi fyrir 7–10 millj. kr., og mest úr steinsteypu, hljóta menn að sjá, hvílík nauðsyn okkur er að hafa völ á slíkri fagþekkingu. Þessi maður fékk styrk í þessu skyni í fyrra samkv. till. fjvn., og er mér óskiljanlegt, af hverju n. hefir ekki tekið styrkinn upp nú, því að þeirri ástæðu getur ekki verið til að dreifa, að pilturinn hafi ekki reynzt styrksins maklegur. Hinsvegar tók hann það fram við n. þá, að hann mundi ekki geta lokið þessu námi á skemmri tíma en 3 árum minnst, og gat þess jafnframt, að sér yrði ekki gagn að þessu námi, nema hann fengi lokið því, og væri sér því nauðsynlegt að halda styrknum framvegis. Ég endurtek það því, að ég fæ með engu móti skilið, af hverju n. hefir ekki lagt til, að styrkurinn verði veittur nú. og þykir mér þetta því undarlegra, þar sem engin slík fagþekking er til áður hér á landi. Má og benda á það, að til þessa háskóla sækja menn úr öllum löndum heims, t. d. frá Japan, Kína og Suður-Ameríku auk Norðurálfulandanna, enda er þessi háskóli talinn sérstaklega að hafa að miðla þekkingu á þessu sviði. Ég vænti þess því, að hv. n. sjái sér fært að mæla með þessari till., þegar hún hefir athugað þetta, og að hv. d. ljái till. fylgi sitt.