21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í D-deild Alþingistíðinda. (1430)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. 2. þm. Skagf. hélt því fram, að fyrrv. fjmrh. hefði útborgað heimildarlaust hærri dýrtíðaruppbót en lögum samkv. Þetta má nú að vísu segja; en þar sem sú regla hefir gilt í mörg ár samkv. þál., að láta 40% dýrtíðaruppbótina halda sér, var það vorkunn, þó fyrrv. fjmrh. léti þá reglu haldast og úrslitin bíða vetrarþings. Till. um þetta lá fyrir þinginu í vetur og hafði náð samþ. annarar d., en vegna þingrofsins gafst ekki tími til að samþ. hana nema í annari d. Og þar sem ekki lá fyrir annar þingvilji en þessi till., sem samþ. hafði verið í annari d., var það vorkunn næsta ráðh. (TrÞ), þó hann gengi ekki móti honum og fylgdi þeirri reglu að láta uppbótina haldast óbreytta. Það var að vísu ekki um heimild að ræða né ótvíræðan þingvilja, en líkur fyrir honum, enda hefir þessi regla gilt 3 síðustu árin. Er sízt ástæða fyrir þá, sem enn vilja halda 40% uppbótinni, að áfellast þessar ráðstafanir.

Ég sé, að ég hefi verið óþarflega gætinn gagnvart hv. 2. þm. Reykv. áðan um hina „juridisku“ hlið þessa máls, og stafaði það af því, að þar sem ég átti við svo slyngan lögfræðing, þorði ég ekki að hafa sterkar fullyrðingar. En nú hefir ræða hans og hv. 4. þm. Reykv. sannfært mig um, að mér er óhætt að vera djarfur í fullyrðingum um það, að það er ótvírætt, að dýrtíðaruppbótin, sem talin er í fjárl., er áætlunarupphæð, og að þó brtt. verði samþ., muni ekki neinar dómkröfur af því leiða.

Hv. 2. þm. Reykv. nefndi fjárupphæð, sem væri veitt Einari Jónssyni með 40% verðstuðulsuppbót. En með þessari verðstuðulsuppbót er vitanlega átt við þá dýrtíðaruppbót, sem út hefir verið reiknuð af hagstofunni á sínum tíma samkv. ákvörðun launalaga. Og þegar það er ljóst, að um sömu verðstuðulsuppbót er að ræða og annarsstaðar er ákveðin, verður hann að lúta sömu kjörum og allir aðrir. Ég verð einnig að álíta, að það sé rangt hjá þessum tveim hv. þm., að upphæðin í fjárl. gefi heimild til útborgunar á þeirri dýrtíðaruppbót, sem þar er áætluð, án tillits til þess, hver sú dýrtíðaruppbót reynist, sem hagstofan reiknar út. Það er óheimilt að greiða að fullu fjárlagaupphæðina, ef hin raunverulega heimild í launalögum segir annað. Um áætlunarupphæðir er það svo, að þær geta reynzt hærri eða lægri en áætlað er. Og það er ótvírætt skylda að útborga hærri dýrtíðaruppbót en hún er áætluð í fjárl., ef svo á að vera samkv. launalögum, og þá er það eins skylt að greiða lægri uppbót, þegar útreikningur hagstofunnar heimtar. Það getur ekki náð neinni átt, að embættismenn hafi rétt til að heimta hærri dýrtíðaruppbót en áætluð er í fjárl., ef hún er raunverulega þar fyrir ofan, og eigi þó rétt til að heimta uppbótina eins og hún er áætluð í fjárl., ef hún er raunverulega þar fyrir neðan. Þetta hefir oft komið fyrir, að verðstuðulsuppbótin hefir orðið hætti en hún var áætluð, þegar fjárl. voru samin, og þó verið greidd að fullu. Það er því ótvíræðlega um áætlunarupphæð að ræða í fjárl. Ég vil auk þess benda hv. þm. á 18. gr. fjárl. Í 64. tölul. stendur:

„Á styrkveitingar í II. a.–i. greiðist dýrtíðaruppbót eftir reglum launalaganna“.

Þó er dýrtíðaruppbótin á þessum liðum áætluð 40%. Um þessar styrkveitingar og eftirlaunamenn gilda sömu ákvæði og um embættismenn, sem taka laun eftir reglum launalaganna. Það er ekki um að villast, hvað rétt er og lögum samkvæmt í þessu efni.

Það er ekkert hjákátlegt, þó dýrtíðaruppbótin sé í fjárl. reiknuð með 40%. Það er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig. Það er undir engum kringumstæðum hægt að reikna með þeirri dýrtíðaruppbót, sem verður. Hún er öllum ennþá óþekkt, þegar fjárl. eru samin.