05.08.1931
Neðri deild: 21. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (144)

1. mál, fjárlög 1932

Jóhann Jósefsson:

Í umr. um frv. til fjárl., hafa allmargir hv. þdm. komið að því atriði, sem er mjög áberandi síðastl. árin, því, að hæstv. stj. hefir haft mjög miklu meira fé til umráða en fjárl. hafa gert ráð fyrir, og ráðstafað því á ýmsan veg. Nú er það að vísu nokkur vorkunn, þó ráðstafanir á því fé, sem algerlega er látið óráðstafað í fjárl., fari nokkuð á aðra leið en hv. þm. mundu helzt hafa kosið. En það er eftirtektarverðara, þó þetta sé ekki gott ástand, ef stj. lætur undan falla að verja því fé, sem fjárl. ákveða, hvernig verja skuli, til þess, sem þingið hefir ákveðið. Vegna þess, að ég hefi fyrir satt, að svo hafi verið að undanförnu, vildi ég benda á eitt atriði, þar sem þetta hefir komið fyrir, og í sambandi við það atriði beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh., hvernig á þessu standi.

Í nál. fjvn. árið 1930, sem er um fjárlagafrv. fyrir árið 1931, er nokkuð gjörla talað um, hversu n. lítist að verja því, sem hv. Alþ. veiti til nýrra símalína. N. telur þar upp kostnaðaráætlanir yfir nokkrar símalínur, og gerir ráð fyrir ákveðnum fjárupphæðum til þeirra. Það eru 119 þús. kr. alls, sem n. ráðstafar þarna — ráðstafar þannig, að hún telur upp 7 símalínur víðsvegar á landinu og segir í áliti sínu, að þetta sé samkv. áliti landssímastjóra, og bætir svo við:

„Hefir n. fyrir sitt leyti engar athugasemdir að gera við þessar tillögur landssímastjórnar og gerir ráð fyrir, að eftir þeim verði farið“.

Það er um þessar 7 símalínur, sem n. segir þetta. Ég ætla ekki að nafngreina þær, en ef menn vilja kynna sér, hvaða símalínur þetta eru, þá er það að finna á þskj. 245 árið 1930. Þessar upphæðir nema allar saman 119 þús. kr. Eftir þeirri venju, sem verið hefir um símalagningar, skyldi maður ætla, að þessar línur yrðu teknar fyrst fyrir. Nú hefi ég það fyrir satt, að einungis ein af þessum línum, sem áætlað var að ætti að kosta 16 þús. kr., hafi verið lögð, og hvorki gerður undirbúningur til þess, að hinar símalínurnar yrðu lagðar, né þær heldur lagðar verið. En á hinn bóginn hefir stj. látið leggja, í 2 sýslum, nýjar símalínur, sem hvorki er gert ráð fyrir í fjárl. né öðrum lögum, m. ö. o., sem engin heimild var fyrir. Nú vildi ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh., hversu það ber til, að ekki eru lagðar fyrst og fremst þær símalínur, sem áætlað er fé til í fjárl., heldur aðrar, sem ekki eru gerðar neinar ráðstafanir til, af þingsins hálfu, að lagðar séu?

Ég skal ekki bera niður á fleiri ráðstöfunum hæstv. stj. af þessu tæi. En það ber nauðsyn til, að það sé skýrt, af hvaða ástæðum þetta er gert.

Hv. frsm. fjvn. hefir ekki séð sér fært að vera við núna, — hann, sem talaði svo mjög um ábyrgð hv. þdm. og brýndi þá með því, að menn ættu nú að sýna, að þeir fyndu til ábyrgðar við afgr. fjárl. Í gær voru ræddar ýmsar brtt. við fjárl. alla kvöldvökuna svo að segja fyrir tómum þingsal. Hv. frsm. fjvn. lét sér sæma að sýna þingdeildinni þá lítilsvirðingu, sem ég veit ekki til, að neinn frsm. hafi gert, að koma hvergi nærri umræðum alla kvöldvökuna. Hafi hv. frsm. með því ætlað að sýna sérstaka ábyrgðartilfinningu sína, þá tel ég hann hafa tekið upp nokkuð nýstárlega aðferð til þess. Einmitt þetta og þvílíkt sinnuleysi og kæruleysi um afgr. ýmsra mála, sem frsm. fjvn. undirstrikaði í gær, skerðir álit þingsins. Hv. frsm. á svo að segja álit sitt á tillögum, án þess að hafa heyrt rök hv. þdm. um þær. Vil ég hér drepa á fáeinar þeirra.

Fyrst er brtt. um byggingarstyrk til sumarskýlis símamanna í Rvík. Aðaltill. fer fram á 4000 kr. styrk, en aukatill. 3000 kr. Grundvöllurinn að því, að þessu sumarskýli yrði komið upp, var lagður árið 1926 af Forberg heitnum landssímastjóra með 1000 kr. gjöf, er hann gaf í sjóð, er nota skyldi í þessum tilgangi. Var það í tilefni af 25 ára afmæli símans. Var landssímastj. það bezt kunnugt, hversu þreytandi er starf símamanna, sem jafnframt er eitthvert hið lægst launaða starf, sem unnið er fyrir ríkið. Er því nauðsynlegt, að þeir njóti hressingar utanbæjar einhvern hluta ársins. Til sumarskýlisins, sem nú er nærri því fullbyggt á einhverjum fegursta stað hér í nágrenninu, var fyrst stofnað með gjöf Forbergs sál. og þá með happdrætti og frjálsum samskotum. Sjóðurinn er nú 6000 kr., en í efni hefir verið lagt 1000 kr. Auk þess ætlar símafólk að gefa 1100 kr. Alls mun húsið kosta 15000 kr. uppkomið, að því er áætlað er. Heldur símafólkið, að það muni geta klofið kostnaðinn, ef það fær þann styrk, sem hér er farið fram á. Má geta þess, að settur landssímastjóri hefir sýnt málinu hina mestu velvild, eins og yfirleitt allir menn hafa gert. Vona ég, að Alþingi bregðist ekki síður við og virði hinn fagra tilgang Forbergs með því að samþ. styrkveitinguna.

Við 2. umr. fjárl. bar ég fram þá till. ásamt hv. þm. Seyðf., að Þórhalli Þorgilssyni, sem skrifað hefir kennslubækur í spönsku og ítölsku, verði veittur styrkur til þess að koma þeim á prent. Till. var felld. Þar sem ég vil nú ekki vera að fara fram á það sama aftur, vil ég leyfa mér að fara þess á leit, ásamt hv. þm. Seyðf. og hv. þm. S.-M., að Þórhalli Þorgilssyni verði veittar 1500 kr. til prentunar á kennslubók í spönsku, sem nú er búin til prentunar. Hér er um að ræða mál, sem snertir þá þjóð, er tekur við mestu af útflutningi vorum. Ber hin mesta nauðsyn til þess, að ungir verzlunarmenn vorir læri spönsku, sem við hliðina á þýzku og ensku er hægt að kalla heimsmál, því að utan Evrópu er hún töluð svo að segja um alla Suður-Ameríku. Íslendingum er nauðsynlegt að halda uppi góðri vináttu við Spánverja, þó ekki væri nema af hagsmunaástæðum. Þó er ekki hægt að segja, að við gerum eins mikið í þá átt og hægt væri. Við kaupum t. d. vörur frá öðrum löndum, sem eins vel mætti kaupa á Spáni. Hefi ég átt tal um þetta við Helga Guðmundsson fiskifulltrúa á Spáni, og er hann mér sammála um, að það gæti haft mikla þýðingu, ef þessu væri breytt, þó að við Íslendingar notum ekki mikið af vörum frá útlöndum á stærri þjóða mælikvarða. Það mun ávallt vera svo, þegar auka á aðflutningstoll á útlendum vörum, að spurt er að því fyrst, hvort þjóð sú, er flytur inn vörurnar, kaupi vörur af þeirri, sem ætlar að auka tollinn. Geta þá úrslitin farið mjög eftir þessu. Get ég í þessu sambandi tekið það fram, að maður einn var hér á ferð fyrir nokkru, sendur frá spönsku verzlunarhúsi, og sýndi hann vörur, aðallega fatnað, sem fyllilega var samkeppnisfær við slíkar vörur, sem flytjast hingað aðallega frá Norðurlöndum og Hollandi. Virðist mér því, sem fleiri en ein ástæða liggi til þess, að Íslendingar leggi nokkra rækt við spanska tungu. Mun Íslendingum ekki aukast samúð hjá Spánverjum, þegar þeir frétta, að Alþingi felli hvað eftir annað till., sem gengur í þá átt að kynna Íslendingum tungu þeirra, en veiti jafnframt fé til óþarfari hluta. — Ber þess að gæta, að hér er ekki verið að fara fram á styrk til þess að skrifa þessar bækur, því að maðurinn er búinn að ljúka við handritið að báðum. Fer ég hér einungis fram á styrk til útgáfu annarar. Vona ég, að hv. þd. reynist svo víðsýn, að hún veiti þenna styrk. Myndi það sízt skerða samúð Spánverja í okkar garð á þessum hættulegu krepputímum, sem nú steðja að saltfiskverzlun Íslendinga, þó þeir vissu, að við vildum læra mál þeirra.

Ég sé, að hv. þm. Borgf. og hv. 4. þm. Reykv. fara enn af stað með till. um það, að styrkurinn til Stórstúku Íslands verði hækkaður frá því, sem ákveðið er í frv. hæstv. stj. Till. um þetta var felld hér við 2. umr. Vil ég ekki fara mörgum orðum um starfsemi Stórstúkunnar hér á landi, með því að mér er hún lítt kunn. Vil ég þó geta þess, að nýlega heyrði ég frá því skýrt í útvarpinu, að vínnautn hefði aukizt mjög á síðustu árum hér á landi, eins og sjá má á eftirfarandi tölum:

1928 voru seld Spánarvín fyrir 1.9 millj. kr., 1929 fyrir 2,5 millj. kr. og 1930 fyrir 2,7 millj. kr.

Á sama tíma hafði templurum fækkað úr 4400 ofan í 3800. Var ég ekkert hissa á tölum þeim, sem sýndu aukna útsölu á víni, en meira á þeirri hnignun innan reglunnar, sem af því sést, að stúkumeðlimum fækkar stórum. Síðan núv. stj. tók við völdum, hefir mjög verið slegið á þá strengi, að gott lag hefði komizt á bindindismál hér á landi. Var um eitt skeið sérstakur stjórnmálaflokkur bendlaður öðrum fremur við vínnautn, og var það gert af „agitations“-ástæðum. En svo ber það við, að á stjórnartímum núv. stj. eykst vínnautn og fækkar þeim, sem hér á landi bindast samtökum um baráttu gegn þessari nautn. Er það opinbert mál, að hér rétt utan við bryggjurnar í Reykjavík er veitt vín af allflestum tegundum, hverjum sem hafa vill, þá er útlend ferðamannaskip koma, og eins og til að kóróna þessar lagayfirtroðslur, eru hafðir tollverðir um borð í skipum þessum. Tek ég það fram, að ég er ekki að álasa starfsmönnum þessum, því að ég er þess fullviss, að þeir loka ekki augunum fyrir öðru en því, sem yfirboðarar þeirra vilja, að ekki sé hreyft við. Þetta allt gerist á valdatímum þeirrar stj., sem hefir gert pólitískt númer úr því að þykjast vera að auka bindindi í landinu, sbr. bls. 152 í bókinni „Verkin tala“, þar sem sagt er, að þjóðin viti, að vínnautn í landinu hafi minnkað síðan 1927 (þó er bent á það á sömu bls., fáeinum línum neðar, að útsala Spánarvína hafi aukizt!). Enda veit hvert mannsbarn, að þetta er ekki annað en blekking. Eins og ég lýsti áðan og hagskýrslur sýna, templarar votta og hvert mannsbarn getur séð, er það staðreynd, þrátt fyrir allt gortið um bindindisáhuga og minnkandi vínnautn, að drykkjuskapur vex hröðum skrefum. Templarareglunni stórhnignar, meðlimum fækkar úr 4400 niður í 3800 á einu ári, og vín er veitt hverjum, sem hafa vill, rétt utan við bryggjusporðana í Reykjavík, í nærveru eftirlitsmanna laganna, allt undir verndarvæng Framsóknarstjórnarinnar. Þetta veit stj. vel, enda þótt hún láti gefa út á landsins kostnað blekkingar um minnkandi vínnautn. Af því sem sagt hefir verið, er það ljóst, að full ástæða er til þess að styrkja Goodtemplararegluna í því starfi að berjast gegn vínnautn hér á landi á þeim grundvelli, sem hún starfaði á, áður en farið var inn á bannstefnuna, en það er með aukinni fræðslu um skaðsemi drykkjuskaparins. Legg ég því til, að reglan fái þann litla styrk, sem farið er fram á.

Ég heyrði af umr., að það stendur til að breyta birtingu veðurskeyta þannig, að þau verði framvegis birt munnlega gegnum útvarpið, en áður voru þau send með ritsímanum. Á Fiskifélagið að sjá um birtingu þeirra úti um land. Býst ég við, að áætluð fjárhæð muni reynast of lítil til þessa. Er það mikið verk að sjá um birtingu skeytanna, skrifa þau niður og auglýsa fyrir almenningi. Um birtingu landssímans á undanförnum árum er það að segja, að hún var mjög lítilfjörleg og til lítils gagns fyrir almenning. Þó kom þetta að nokkrum notum, sérstaklega þar sem bætt var úr birtingunni. Björgunarfélag Vestmannaeyja hefir t. d. tekið að sér um margra ára skeið að birta skeytin og auglýsa á góðum stað, þar sem þau væru aðgengileg fyrir sjómenn bæði dag og nótt.

Um styrk til Eimskipafélags Íslands liggja fyrir tvær till., önnur frá fjvn. (þskj. 183), en hin frá hv. þm. Borgf. og hv. 4. þm. Reykv. (þskj. 194). Eru báðar samhljóða um upphæð þess fjár, sem stj. skal heimilað að gjalda Eimskipafél. sem aukastyrk, en greinir á um skilmálana. Strandferðastyrkur Eimskipafél. er 60 þús. kr. Hér er farið fram á að heimila stj. að gjalda félaginu 150 þús. kr. í stað 85 þús. kr. Í till. fjvn. standa orðin: „Enda veitist ríkisstj. aðstaða til athugunar og íhlutunar um rekstur þess“ (félagsins).

150 þús. kr., að viðbættum strandferðastyrk, verður 210 þús. kr. Þessar 210 þús. kr. er sannarlega ekki of hár styrkur til félagsins fyrir strandferðirnar einar. Í síðustu skýrslu Eimskipafél. er bent á, að viðkomum á innlendar hafnir fer sífjölgandi. 1928 voru viðkomur á innlendar hafnir 863, 1929 887 og 1930 1050. Viðkomur skipanna á innlendar hafnir hafa því aukizt um 20% frá 1928 til 1930. Allir sjá, að þær 60 þús. kr., sem eiga að vera strandferðastyrkur, eru smámunir einir.

Hvað kosta nú þessar mörgu viðkomur skipanna á innlendar hafnir? Skipin eru fyrst og fremst miklu lengur í förum en ella. Félagið spillir fyrir sér með þessu um flutning milli landa. Útlendu keppinautarnir velja úr beztu hafnirnar innanlands. Þeir skeyta ekki um hina íslenzku hagsmuni. En Eimskipafél. hefir ávallt tekið meira tillit til viðskiptamannanna en sjálfs sín. Þetta verður þingið að skilja og viðurkenna í verki. Ég vil benda á, að samkv. síðustu skýrslum og reikningum félagsins eru brúttótekjur félagsins nál. 3 millj. kr. Þær byggjast vitanlega á fargjöldum og flutningsgjöldum og að langmestu leyti á flutningsgjöldum. Þegar þessa er gætt, verður ríkisstyrkurinn ekki svo stórvaxinn, að því ætti að taka fyrir ríkið að fara að setja um hann skilyrði, sem benda í þá átt, að Eimskipafél. þurfi eftirlit. Um þetta er það annars að segja, að landsstj. hefir frá öndverðu haft einn mann í stj. fél. og einn af þrem endurskoðendum. Með þessu ætti að vera tryggt svo mikið eftirlit sem æskilegt er, ef ríkið vill ekki hafa alger yfirráð yfir félaginu, sem ég skil ekki, að vaki fyrir hv. meiri hl. n. Með einum manni í stj. fél. og einum endurskoðanda getur ríkið haft aðgang að öllum plöggum félagsins, svo að ef um einhverjar misfellur væri að ræða, gætu þær ekki dulizt ríkisstj. Veit ég því ekki, hvort skilja á viðbótartill. svo, að þeir, sem að henni standa, hafi ekki vitað um íhlutun þá, sem stj. hefir um rekstur félagsins, eða hana eigi að skoða sem milt form á því, að ríkið fari að hlutast meira til um rekstur félagsins en áður. Á það bendir samt skilyrði það um hlutafjárkaup, sem var í frv., þegar það var lagt fram af stj. En vaki það fyrir meiri hl. n., tel ég það spor í öfuga átt. Eimskipafél. er til orðið fyrir atbeina þjóðhollra manna og sameiginlegum vilja alþjóðar á að koma upp íslenzkum millilandaflota. Framtíð félagsins byggist á því, að þjóðin, og þá fyrst og fremst þeir, sem þurfa á fari eða flutningum að halda, gleymi ekki hinum upphaflega tilgangi félagsins né tilætlun þeirra ágætu manna, sem hrundu því af stað, og hinna, er studdu að stofnun þess. Hina síðustu mánuði bera blöðin það með sér, að ný alda er að rísa í þá átt að styðja að eflingu félagsins og vekja Íslendinga til umhugsunar um, að þeir sem einstakir farmsendendur, móttakendur og ferðamenn hafi jafnan í huga að styðja félagið. Ekki er langt síðan einn merkur maður hefir farið sterkum orðum um þá nauðsyn, að allir íslenzkir viðskiptarekendur láti Eimskipafél. sitja fyrir flutningum.

En þessi stuðningsskylda hvílir líka á ríkinu. Og eins og ég hefi þegar tekið fram, tel ég fél. ekki of haldið af því að fá 200–210 þús. kr. styrk til strandferðanna einna. Og ég álít, að ríkið eigi engin fríðindi önnur að fá í staðinn. Hinsvegar er hætta á, að sú samúð, sem fél. er nauðsynleg hjá viðskiptamönnum sínum, fari ekki vaxandi við þær tilraunir að kúga stjórn fél. undir bein áhrif ríkisvaldsins, með hlutakaupum út á styrkinn eða öðru. Eimskipafél. hefir sannað á undanförnum árum, að sá grundvöllur sé Íslendingum fyrir beztu í siglingamálum, að íslenzk skip undir stjórn íslenzkra manna annist flutninga milli Íslands og annara landa.