07.08.1931
Efri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1037 í B-deild Alþingistíðinda. (1455)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Jónas Jónsson:

Út af þeim orðum hv. 2. landsk., hvernig flokkar hafa staðið að þessu máli, vildi ég gefa þá skýringu, að ég held, að allir þeir þrír þingflokkar, sem hafa þingmenn, hafi meira og minna staðið að þessari einkasöluhugmynd. Það er kunnugt, að einn af leiðtogum Íhaldsflokksins, núv. hv. 2. þm. Skagf., bar hana fram, —- ekki að ég held af löngun til ríkisrekstrar eða til að geðjast Framsóknarflokknum, heldur af því, af hann áleit þetta eðlilega leið til að afla tekna í ríkissjóð. Það fór líka svo, að þessi leið reyndist betur en upphaflega var búizt við. Og það var sú reynsla, sem sannfærði okkur framsóknarmenn um það, að þessu fyrirkomulagi ætti að halda áfram.

Það, að socialistar halda fram ríkisrekstri og ríkisverzlun, hefir náttúrlega stutt þetta mál á þann hátt, að þeirra flokkur hefir orðið velviljaður málinu fyrir það, að þeim fannst verið að koma inn á þeirra stefnu. En það hafði engin áhrif á okkur framsóknarmenn, sem álítum ekki, að það sé yfirleitt örugg vissa, að ríkið geri alla hluti betur en einstaklingar. Ég býst við, að það hafi einnig verið gert einungis af beinum fjárhagsástæðum hjá þeim flokki, sem kom þessu máli fyrst í gegn. Síðan mun það vera mála sannast, að þegar Íhaldsflokkurinn tók við völdum, var það kaupmannastéttin, sem sveigði flokkinn frá þessari stefnu, sem hv. 2. þm. Skagf. hafði tekið upp, og kom því til leiðar, að flokkurinn hné að því ráði að rífa niður verk hv. 2. þm. Skagf. Kaupmannastéttin óttaðist, að ef vel reyndist ríkisverzlun með tóbak, þá kynnu fleiri vörutegundir að koma á eftir, og væri þá þrengt að hagsmunum verzlunarstéttarinnar. Ég held, að hér sé um þrjár stefnur að ræða. Ein er stefna socíalista, sem fylgja yfirleitt ríkisrekstri. Í öðru lagi erum við framsóknarmenn með þessu, af því að við, eins og hv. 2. þm. Skagf. 1921, álítum það gróða fyrir ríkið að verzla með þessa vörn. Þá er stefna íhaldsmanna, að vilja ekki tóbakseinkasöluna, af því að kaupmenn flokksins vilja hana ekki. Í því lýgur engin játning um það, að hv. 2. þm. Skagf. hafi haft á röngu að standa þegar hann bar hugmyndina fram. Hið gagnstæða var einmitt viðurkennt, en hagsmunir íhaldsmanna kröfðust afnáms einkasölunnar.

Það má því segja, að við framsóknarmenn stöndum að þessu leyti á sama grundvelli og þessi umræddi íhaldsmaður, sem flutti málið á þinginu 1921, og það er raunar sá eini grundvöllur, sem getur komið til greina. Hér skiptir engu máli, hvort verzlunarstéttin er fylgjandi tóbakseinkasölu. Það er heldur engin ástæða að hafa einkasölu, af því að það sé socialistum að skapi. Það eina sem skiptir máli, eru þjóðhagslegar ástæður, hvort ísl. þjóðin vill af skattfræðilegum ástæðum taka upp þann sama sið sem Frakkar og Svíar hafa haft um óralangan tíma.

Ég álít ekki þörf að lengja mjög umr. um þetta mál. Það liggur alveg ljóst fyrir og er sannað af reynslu, að það er mjög arðvænlegt ríkissjóði að reka þessa verzlun, og að það stendur ekkert í vegi nema hleypidómar einnar stéttar. En geti kaupmannastéttin vakið þann mótblástur gegn málinu, að ekkert verði úr, þá er það gott fyrir hana eina, en ekki fyrir landið. Ég treysti því, að þessi hv. d. vilji láta hag landsins sitja fyrir, og hraði þessu máli áleiðis.