12.08.1931
Efri deild: 27. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (1476)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Það lítur helzt út fyrir, að till. minnar á þskj. 243 bíði alleinkennileg forlög af hendi hv. 5. landsk. og núv. og fyrrv. flokksmanna hans. Þeir eru allir innilega sammála mér um tilgang till., að því er þeir segja, en hinsvegar sjá þeir sér ekki fært að greiða henni atkv., og finna til hinar og aðrar tylliástæður, sem ég hirði ekki að elta ólar við. Þó vildi ég taka til ahugunar eina þá mótbáru, sem fram hefir komið gegn brtt. minni, og er sú, að það væri tortryggni gagnvart þessari einu stofnun, ef farið væri að setja slík ákvæði um hana eina, og væri því réttara að setja um þetta almenna löggjöf. Þar sem hér er nú um að ræða stofnun, sem ekki er enn til, og því hefir engum starfsmönnum á að skipa, er einmitt hægt að setja slíkt ákvæði í frv., án þess að það þurfi að sýna tortryggni í garð nokkurs manns. Ef till. hinsvegar næði einnig til stofnana, sem þegar eru til, væri hægt að líta svo á, að í henni fælist tortryggni til starfsmanna þeirra stofnana. Ég tel það því þvert á móti kost, að þessu skyldi vera hreyft í sambandi við þetta frv., af því að enginn getur tekið það til sín.

Hv. 5. landsk. var að gera mér upp ástæðurnar fyrir því að flytja þessa till., og sagði eitthvað á þá leið, að mér mundi vera kunnugt um freistingarnar á þessu sviði frá starfi mínu sem landsverkfræðingur. Sagði hann í því sambandi sögu af ofnakaupum fyrrv. fræðslumálastjóra svo sem eins og til skýringar þessu. Nú er ekki mikil freisting á þessu sviði yfirleitt fyrir þá menn, sem vitað er um, að eru opinberir embættis- og sýslunarmenn, nema ef þeir skyldu ganga í veg fyrir freistinguna. Um embættismenn og sýslunarmenn gildir í þessu efni gömul og samstæð löggjöf á Norðurlöndum, og liggja þungar refsingar við, ef þessir menn á nokkurn hátt misnota stöðu sína sér til ávinnings. Þetta er alkunnugt og orðið svo inngróið í hugsunarháttinn þar, að litið er um yfirtroðslur af þessu tæi. Varð ég og sama sem ekki var við það, að neinir yrðu til að bjóða mér upp á hagnað af starfi mínu fyrir vegagerðir ríkisins, á meðan ég hafði umsjón með þeim. Öllum er það líka vitanlegt um hina eiginlegu sýslunar- og embættismenn ríkisins, að slíkt má ekki eiga sér stað, og er ekki einungis óleyfilegt, heldur refsiverður glæpur. Það er því ekki sérstaklega af þeirri reynslu, sem ég hefi í þessum efnum, að ég hefi borið fram þessa till., heldur fyrst og fremst af því að starfræksla ríkisins hefir færzt inn á ýms ný svið í seinni tíð, svo að orkað getur tvímælis, hvort þeir starfsmenn ríkisins, sem á þeim sviðum starfa, heyra undir þau ákvæði í þessum efnum, sem sett voru fyrir tveim mannsöldrum. Hefi ég orðið þess var, að ekki er alstaðar slíkur skilningur á þeim ákvæðum, og því hefi ég hreyft þessu máli hér. Í umr. hefir ekkert það fram komið, er réttlæti það að ég taki þessa till. mína aftur, og þess vegna sé ég ekki ástæðu til annars en að láta hana koma til atkvgr.

Öðru því, sem fram hefir komið í umr., síðan ég síðast talaði, þarf ég ekki að svara, nema ef vera ætti bollaleggingum hv. frsm. meiri hl. út af því, hverjar ástæður væru til þess, að smyglun væri meiri undir einkasölufyrirkomulagi en í frjálsri verzlun, ef rétt er, sem ýmsir halda fram, að einkasala hafi meiri smyglun í för með sér. Er hægt að benda á sennilegar ástæður fyrir þessu aðrar en samúð eða andúð gegn slíku verzlunarfyrirkomulagi, eins og hv. frsm. meiri hl. virtist helzt hallast að. Freistingin í þessum efnum er mest, þegar vöruekla er, eins og gefur að skilja, og það sýndi sig við fyrri einkasölu, að ekki þótti af einhverjum ástæðum neitt keppikefli að verzla þá með tóbak, og var ekki óalgengt, að fyrir kæmi, að ekla væri á tóbaksvörum í verzlunum á ýmsum stöðum landsins, þó að slíkt geti að vísu líka komið fyrir í frjálsri verzlun. En aðstöðumunurinn fyrir þá, sem útvega eiga þá vöru, sem ekla er á er mjög mikil, eftir því hvort fyrirkomulagið er í þessum efnum. Ef verzlunin er frjáls, geta menn sjálfir útvegað sér þá vöru, sem ekla er á, annaðhvort með því að panta hana frá útlöndum eða kaupa hana um borð í einhverju skipi, sem þeir ná til, ef þeir þá jafnframt gera hlutaðeigandi embættismanni aðvart og greiða toll af. Undir einkasölufyrirkomulagi mega menn þetta hinsvegar ekki. Ef þeir útvega sér vöruna á þennan hátt og vilja vera heiðarlegir og greiða af henni toll, falla þeir þar með undir refsiákvæði þessara l. og fá 50–20000 kr. sekt, auk þess sem varan er gerð upptæk og afhent einkasölu ríkisins til ráðstöfunar. Lögin neyða menn því til þess, annaðhvort að vera án vörunnar eða þá að taka þátt í að smygla henni inn. Gerir þessi aðstöðumunur það skiljanlegt, að fremur má búast við smyglun undir einkasölufyrirkomulagi en í frjálsri verzlun.