12.08.1931
Efri deild: 27. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í B-deild Alþingistíðinda. (1481)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Jakob Möller [óyfirl.]:

Út af þessari seinni ræðu hv. 2. landsk. vildi ég aðeins spyrja hann að því. hvort það sé meining hans að greiða atkv. gegn till. hv. 1. landsk. (JBald: Já). Mér þykir þetta næsta merkileg aðstaða vegna þess, að hann getur ekkert vitað um það, hvort frv., sem hann ber fram um sama efni, nær fram að ganga á þessu þingi. Hann hefir áður lýst yfir því, að hann hafi bundið væntanlegar tekjur tóbakseinkasölunnar í öðru frv. Nú er hann farinn að efast um, að frv. það nái fram að ganga, því ekki að binda tekjurnar í þessu frv. sjálfu? Þetta er alveg hliðstætt við till. hv. l. landsk. Ef það á að vera tryggt, að þetta gildi um tóbakseinkasöluna, þá þarf að vera ákvæði í frv. sjálfu, sem er því samfara. Vitanleg. er ekkert ú móti því, að frv. hv. 2. landsk. gangi sinn gang, og ég tel engan efa á því, að það verði samþ., en ég skil ekki, hvaða ástæðu hv. þm. hefir til þess að greiða atkv. á móti þessari brtt., ef hann er að öðru leyti samþ. því, að leitt sé í lög, að slíkir starfsmenn taki ekki verzlunarágóða af vörum fyrirtækjanna. Ég get ekki komizt hjá því að gruna hv. þm. um að vilja koma þessu ákvæði fyrir kattarnef, og vilja hafa það laust og óbundið, hvort starfsmennirnir eigi að geta haft einkaágóða af vörnum þeim, sem þeir selja landsmönnum. Ég get ekki út frá öðrum skilningi áttað mig á afstöðu hv. þm. til þessa máls. En þetta gefur tilefni til ýmiskonar hugleiðinga í sambandi við þessa einkasölustefnu og yfirleitt ríkisrekstrarstefnu hv. 2. landsk. Það liggur mjög nærri að álíta, að það sé ekki veigalítið atr. í þessu máli, sú aðstaða, sem skipazt hefir til þess að gera fjölda manna meir háða ríkisrekstri, og ýmiskonar „beinahagnaður“, sem skapazt gæti í því sambandi. Og ég verð að segja það, að þótt ekkert annað væri athugavert við þessa ríkisrekstrarstefnu, þá finnst mér það vera ærin ástæða til þess að leggjast á móti henni. Það er einmitt þessi aðstaða, sem ríkisstj. er gefin, til þess beinlínis að ráða yfir hagsmunum einstaklinganna. Og það hefir reynslan sýnt undanfarin ár, að þessi stefna er að því leyti vissulega athugaverð, og menn skyldu hugsa sig vel um áður en þeir stuðla að frekari aðgerð í þá átt en þegar hafa verið gerðar, því stórkostlegri misnotkun á aðstöðu stj. get ég ekki hugsað mér, að hægt sé að beita við rekstur slíkra stofnana gagnvart einstökum mönnum. Og það er alveg víst, að slíkar misnotkanir hafa átt sér stað í svo stórur stíl, að ástæða er til þess að taka það mál til nánari yfirvegunar.

Hvað annars snertir stefnu slíks frv. sem þessa, að auka tekjur ríkissjóðs, þá vil ég segja það, að ég tel vafasamt, að það nái tilgangi sínum í því efni. Hv. 2. landsk. sagði, að verzlunarágóðinn myndi ekki vera neinn annar en kaupmannaágóðinn, m. ö. o. verðið hækkaði ekki, kaupmannaágóðinn flyttist aðeins í ríkissjóðinn. En ég held, að hver maður geti séð, að ef ekki er um annan ágóða að ræða, þá muni ekki verða miklar eftirtekjur, og það er af því, að hér er um að ræða að stofna fyrirtæki, sem þarf að standist sinn rekstrarkostnað og leggst því í raun og veru algerlega nýr kostnaður á þessar vörur sökum þess, að kaupmennirnir verzla með fleiri vörur og kostnaðurinn á þessa vörutegund verður því hverfandi lítill. Í öðru lagi er því svo varið með þessa vöru, að einstakir kaupmenn, sem hafa umboð frá framleiðendum og hafa sín umboðslaun frá þeim, myndu hafa þau eftir sem áður, þótt ríkið taki einkasölu á vörunni. Því er það svo, að ekki er hægt að flytja kaupmannaágóðann yfir í ríkissjóðinn; hann rennur til þeirra eftir sem áður. Með brtt. hv. l. landsk. er verið að girða fyrir, að umboðslaunin renni til starfsmanna einkasölunnar, en hitt efast enginn um, að umboðslaunin muni renna til ákveðinna umboðsmanna, hver sem selur vöruna.

Í öllum löndum, þar sem verzlunin á að fullnægja þörfum, verður kostnaðurinn við rekstur hennar miklu meiri heldur en í fljótu bragði virðist, því að stundum reynist nauðsynlegt að hafa ekki aðeins eina skrifstofu, heldur einnig útibú, því annars mun reka að því, að salan minnkar og óleyfilegur innflutningur eykst að miklum mun. Reynslan af fyrri einkasölu sýndi, að kaupmenn úti um land áttu mjög erfitt með að afla vörunnar, þar sem aðeins einn aðili, sem ekki hafði neinna persónulegra hagsmuna að gæta í sambandi við söluna, hafði hana á boðstólum, og reyndi því að tryggja sig sem bezt gegn áhættu, og hinsvegar bar ekki lítið á hlutdrægni í sambandi við þessa verzlun. Þetta er mér persónulega kunnugt um. Allt þetta leiðir til þess, að salan úti um land og löglegur innflutningur verður minni, því að einstaklingarnir neyðast þá til að fara aðrar leiðir til að afla sér vörunnar. Í samb. við það vil ég benda á, að því fer fjarri, að hér sé ekki um áhættuverzlun að ræða, þótt vitanlega sé meiri áhætta að verzla með ýmsar aðrar vörur en tóbak. Auðvitað er áhættan minni í einkasölu að því leyti, að hún getur tryggt sig gegn áhættu með viðskiptum við þá eina, sem eru öruggir greiðendur. Hinsvegar myndi það verða svo um tóbakseinkasölu ríkisins, að hún hefði verri aðstöðu til þess að tryggja sig gegn þessari áhættu vegna þess, að þeir einstaklingar, sem gera verzlun að atvinnu sinni, hafa miklu nánari samband vil viðskiptavini sína en einkasalan myndi hafa. Þeir hafa líka meiri reynslu í viðskiptum við kaupmenn víðsvegar úti um land, þar sem þeir verzla við þá með fleiri vöruteg. en einkasalan myndi gera. Áhættan við einkasöluna yrði því margföld á við áhættu einstaklinganna. Ég held líka, að reynslan af rekstri tóbakseinkasölunnar gömlu muni hafa verið sú, að áhættan hafi verið töluvert mikil, og að því er ég bezt veit, þá mun hún hafa tapað álitlegri upphæð í sínum viðskiptum. Annað er það líka hvað áhættuna snertir, að það er með tóbaksvörur eins og með aðrar vörur, að þær eru einskonar tízkuvörur. Það var sagt um tóbakseinkasöluna, að hún hefði þegar hún hætti, legið með talsvert af vörum, sem ekki gengu út. Allir vita um víneinkasöluna, hvernig hennar hag var varið í því efni. Hún lá með svo og svo miklar birgðir af vínteg., sem almenningur vildi ekki, og eina ráðið var að blanda þeim saman við aðrar teg. og jafnvel falsa aðrar vörur, sem verzlunin var látin selja. Slíkt væri síður hægt með tóbaksvörur. Það er ekki svo auðvelt að blanda óútgengilegum vindlum saman við aðrar teg. og pretta þeim þannig út til manna. Það kann að vera hægt með einstaka tóbaksteg., en það myndi naumast takast eins vel og með vínblöndunina.

Yfirleitt er það röng stefna að blanda ríkinu inn í áhættustarfsemi; það getur leitt til þess, þar sem um svo stórar upphæðir er að ræða, að ríkissjóði verði um megn að rísa undir þeim.

Um þær einstöku brtt., sem hér liggja fyrir, sé ég ekki ástæðu til að ræða mikið. Ég mun að sjálfsögðu greiða atkv. með till. hv. 2. þm. N.-M. um að taka eldspýturnar út úr, því að ég tel rétt að takmarka þó eins og unnt er þennan ríkisrekstur. Hinsvegar er það að segja um ákvæðin um, hvernig tekjunum skuli ráðstafað, að ég mun greiða atkv. á móti þeim, því að ég tel ekki forsvaranlegt að binda tekjurnar, sem ríkissjóður fær á þennan hátt, enda verður að bæta upp þann halla, sem verður á 1. ári og þá stórkostlegu tekjurýrnun, sem þetta hefir í för með sér. Annars furðar mig á, að hv. stjórnarfl. skuli vilja ráðast í að samþ. slíkt frv. sem þetta, nú á þessum krepputímum, því að vitanlega hefir það í för með sér stórkostlega tekjurýrnun.