19.08.1931
Neðri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (1508)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Forseti (JörB) [óyfirl.]:

Ég vænti þess, að þeir tveir hv. þm., sem talað hafa, hv. þm. Vestm. og hv. þm. N.-Ísf., beri mér það ekki á brýn, að ég sýni óbilgirni í þessu máli, enda tók hv. þm. N.-Ísf. það fram, að hann gerði það ekki.

Ég geri allmikinn mun á þeim tveim málum, sem hér er um að ræða, þar sem þetta frv., um einkasölu á tóbaki, hefir oft legið hér fyrir, og er orðið þaulrætt hér í hv. d., en hitt málið, um ríkisbókhald og endurskoðun, er lítið þekkt. Þar sem fyrra málið er svo þaulkunnugt, þá sé ég ekki ástæðu til þess að fresta 2. umr. þess.

Ég vil einnig benda hv. dm. á, að þegar svo ber undir, að mál er tekið á dagskrá, sem álitið er um, að hafi ekki fengið nægilegan undirbúning, þá er í 43. gr. þingskapanna ákvæði, sem tryggir dm. það að taka slík mál út af dagskrá. (MG: Já, meiri hl., en þingsköp eiga að tryggja bæði rétt meiri og minni hl.). Það er að vísu rétt, en þetta ákvæði veitir þó nokkru tryggingu. Að öllu þessu athuguðu treysti ég mér ekki til þess að taka málið af dagskrá.