20.07.1931
Neðri deild: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1139 í B-deild Alþingistíðinda. (1577)

27. mál, einkasala á síld

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Ég get haft þann sama formála um þetta mál sem hv. þm. Borgf. hafði um það frv., sem var til umr. næst á undan, sem sé, að þetta frv. var borið fram á síðasta þingi, en náði ekki fram að ganga. Við, sem að því stöndum, töldum okkur skylt að hreyfa því nú, því að það hefir sízt orðið breyt. til batnaðar um afkomu síldarútvegsins; þvert á móti.

Hér hafa í dag verið allmjög til umr. ýmiskonar skattamál. Liggja þegar fyrir þinginu allmargar till. um skattamál, og því nær eingöngu í þá átt að herða á skattabyrðum landsmanna. Einn af hv. þm., sem talaði fyrir skemmstu, lét svo um mælt, að áhugi manna um landið mundi nú vera venju fremur mikill um skattamál og afdrif þeirra. Má vel vera, að svo sé. Skattamál eru þess eðlis, að menn hafa mikinn áhuga fyrir því, að þeim málum sé þannig fyrir komið, að sem flestir geti þolanlega við þau unað. Þó mun það ofraun reynast hinu háa Alþingi í þessu landi, eins og öllum stjórnum og þingum, að koma skattamálunum þannig fyrir, að allir telji sig ánægða. En í sambandi við þann mikla áhuga, sem Alþ. hefir á skattamálum, virðist mér muni þurfa að hafa engu minni áhuga fyrir þeim atvinnufyrirtækjum í landinu, sem eiga að bera uppi skattana. Því að það er lítið gagn að semja hér og samþ. skattafrv. ofan á skattafrv., ef þingið hinsvegar horfir á atvinnuvegina leggjast í auðn að meira eða minna leyti, sumpart að vísu fyrir óviðráðanleg atvik og heimskreppu, en sumpart — og það í nokkuð ríkum mæli — fyrir mistök löggjafarvaldsins.

Sá atvinnuvegur, sem hér um ræðir í frv., hefir ekki hvað sízt orðið fyrir því, að þingið hafi tekið hann skökkum tökum. Ég hefi oft áður haft tækifæri til að henda á ýmislegt, sem mistekizt hefir hjá stj. einkasölunnar, og skal ekki fara að þreyta þá hv. þm., sem setið hafa á undanförnum þingum, með því að rifja það upp, með því að ég tel víst, að hinir nýkosnu þm. hafi ekki getað farið varhluta af að heyra ýmislegt um afkomu síldareinkasölunnar á undanförnum árum. En ég vil stuttlega minnast á þá höfuðstaðreynd, að við Íslendingar erum að missa út úr höndum okkar yfir til útlendinga arðinn af síldarframleiðslunni. Ég fullyrði ekki, að þetta sé eingöngu fyrir afskipti löggjafarvaldsins; en ég vil benda á það, að löggjöfin frá 1927 og þá ekki viður lögin um síldareinkasöluna — og sérstaklega framkvæmd þeirra laga — á mikinn þátt í að skapa núv. vandræðaástand síldarútvegsins. Þessa höfuðstaðreynd vil ég undirstrika.

Það er nú svo komið, að jafnvel tekjumikil atvinnugrein eins og síldarútvegurinn liggur undir svo miklum áföllum; að kunnugir menn telja vonlaust, að hann verði rekinn með nokkrum arði þetta ár. Útlendingum fjölgar mikið nú við þennan atvinnuveg. Í viðbót við Norðmenn, sem voru einu keppinautar okkar áður, eru komnir Svíar, Danir og síðast Finnar

Það er ekki svo að skilja, að ég haldi fram, að frv. það, sem hér er um að ræða, muni verða nægilegt til þess að reisa rönd við öllum utan að komandi áhrifum á síldarútveginn eða við keppinautum. Nei, það þarf miklu meiri ráðstafanir, sem ekki verða nefndar í þessu sambandi. En þetta frv er einn nauðsynlegur liður í því viðreisnarstarfi, sem fyrir liggur að því er síldarútveginn snertir, þennan útveg, sem kominn er nú svo að segja í rústir, en Alþ. ber skylda til að rétta við, eftir því sem því endist vilji og máttur til.

Það, sem hér er farið fram á, er í stuttu máli það, að yfirráð yfir þessum atvinnuvegi séu lögð einkum í hendur þeirra manna, sem mestra hagsmuna hafa við hann að gæta og mest leggja í sölurnar við að draga síldina á land. Líka er farið fram á það, að þeim hinum sömu mönnum sé fenginn vettvangur, þar sem þeir geti borið saman reynslu sína, rætt afkomu síldarútvegsins og horfur og tekið saman ráð sín um umbætur og þvílíkt, eins og á sér stað um önnur fyrirtæki. Eins og kunnugt er, er enginn vettvangur til fyrir síldarútvegsmenn að ræða mál sín nema blöðin, eða hafi það borið við, að hægt var að hóa útvegsmönnum og sjómönnum saman rétt af tilviljun til að ræða þessi mál. Samt er velta síldareinkasölunnar meiri en flestra þeirra félaga, sem annars þykir sjálfsagt, að haldi aðalfund árlega.

Á það var bent á síðasta þingi — og ég vil benda á það enn —, að þeir, sem aðallega hallar á, eru sjómenn og þeir, sem mest vinna með þeim, útgerðarmenn. Síldareinkasalan hefir hinsvegar orðið féþúfa fyrir útlenda kaupendur síldar, sem eiga tryggt ár frá ári að fá síld frá Íslandi við lágu verði. Áður gátu þeir átt von á að fá hana í einstökum árum við lágu verði, en nú er það tryggt og reglulegt. Útlendir kaupendur hafa því ekki ástæðu til að kvarta Verkafólk í landi hefir líka ákaflega góð kjör við verkun síldar. Hygg ég, að þau séu betri en svo, að atvinnuvegurinn muni rísa undir þeim. Í því sambandi vil ég benda á það, að ef maður tekur línubát, sem á að fiska fyrir norðan, og gerir skynsamlega áætlun um veiði til söltunar og til verksmiðju, þá verður hlutur sjómanna á slíkum bát kringum 550 kr. yfir síldveiðitímann; þar frá dregst svo fæði. En við síldarverksmiðju hafa menn tryggðar fyrir bæði dagvinnu, eftirvinnu og helgidagavinnu um 1200 kr. í vinnulaun fyrir síldveiðitímann, eða um það bil helmingi meira en sjómenn á línubátum. Þetta sýnir vel, að sjómenn bera mjög skarðan hlut frá borði. Síldarsaltararnir svokölluðu hafa ekki yfir neinu verulegu að kvarta. Söltunarlaunin hafa hækkað eftir því sem kröfur fólks í landi hafa vaxið um kaup. Um fasta starfsmenn þarf ekki að ræða; þeir fá alltaf sæmilegt kaup.

Þegar maður lítur á þessa aðila, kaupmenn, verkafólk, fastlaunaða starfsmenn og síldarsaltendur, þá sér maður, að þeir hafa allir fitað sig á kostnað sjómanna og útgerðarmanna. Ég hygg, að hv. þm. geti verið sammála um það, að tæplega sé hugsanlegt, að sjómenn við þennan atvinnuveg geti unað því, að þeirra hlutur sé gerður svo smár sem raun ber vitni, og að stj. þessa fyrirtækis sé hagað þannig, að þeir hafi í raun og veru ekkert að segja. Vitanlegt er, að núv. stj. síldareinkasölunnar er pólitísk, þar sem þrír í stj. eru kosnir af Alþingi. En við slík fyrirtæki eru afskipti hins pólitíska valds alls ekki ákjósanleg. Frv. fer fram á, að útgerðarmenn og sjómenn ráði mestu um það, hverjir kosnir eru í ritflutningsnefnd. Þetta finnst mér svo sanngjörn krafa, að ég vænti fastlega, að hv. þm. sjái sér fært að verða við henni.

Legg ég svo til. að frv. verði vísað til 2. umr. og sjútvn.