06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

1. mál, fjárlög 1932

Bergur Jónsson:

Ég á nokkrar brtt., sem ég vildi stuttlega gera grein fyrir. Er sú fyrsta, XVII. brtt. á þskj. 183, um fjallvegi. Fjvn. hefir lagt til, að fjallvegafé verði hækkað um 10 þús. kr. Ef það verður samþ., tek ég mína till. aftur. En ástæðan fyrir því, að ég flutti hana, er sú, að sérstaklega stendur á um samgönguleysi þarna vestra. Rauðisandur er einhver frjósamasi blettur á öllum Vestfjörðum, en sveitin er innibyrgð, Breiðafjörður svo að segja hafnlaus, en fjöll á þrjá vegu, og er því þessi vegur lífsskilyrði fyrir héraðið, til þess að geta komizt í beint samband við Patreksfjörð. Og þetta er ekki aðeins mikið atriði fyrir Rauðasand sjálfan, heldur líka fyrir kauptúnið á Patreksfirði, því að þar er mjög lítið haglendi og erfitt með búskap allan, svo að kauptúninu er hin mesta nauðsyn á að fá beint samband við landbúnaðarsveit, þar sem hægt er framleiða nægilega mjólk. Vegamálastjóri hefir látið rannsaka þetta vegarstæði, mælt það út og gert kostnaðaráætlun. Gerir hann ráð fyrir, að kostnaðurinn verði um 20 þús. kr. og hefir lagt til, að þetta yrði tekið af fjallvegafé, eins og gert er nú í þessari till. En þá verður þessum fjárfrumlögum skipt á 3–4 ár, eftir því, sem á vinnst.

Þá á ég brtt. um að veita Guðrúnu Einarsdóttur ljósmóður 200 kr. Hún er búin að vera ljósmóðir í 38 ár og hefir rækt sitt starf mjög vel, og því er ekki ástæða til að neita henni um þessa litlu þóknun frekar en öðrum ljósmæðrum.

Loks kemur síðasta brtt. á þessu þskj. um það að veita heimild til þess að ríkissjóður láni Suðurfjarðarhreppi 20 þús. kr., sem endurgreiðist með jöfnum afborgunum árlega í 20 ár. Þessa brtt. ber ég fram vegna mjög aðkallandi nauðsynjar hreppsins. Nú standa á honum gjöld, sem verða að borgast þegar í stað, um 13–14 þús. kr. Auk þess er rafveita þar, sem varð mjög dýr, og hvílir á henni um 93 þús. kr. lán, sem ekki hefir verið borgað af, en sýnilegt er, að hreppurinn verður að taka það á sig að einhverju leyti. Þessar greiðslur, sem hreppurinn getur ekki annað, eru vitanlega allar lögboðnar, sýslusjóðsgjöld og greiðslur til fátækraframfærslu o. s. frv., svo að það er óhjákvæmilegt, að þetta verður að borgast. Og þá er ekki í annað hús að venda en að leita hjálpar ríkissjóðs. Þetta hreppsfélag varð fyrir sérstaklega miklum óhöppum, þar sem aðalatvinnurekandinn varð gjaldþrota ekki alls fyrir löngu. Síðan var stofnað nokkurskonar bjargráðafélag, til þess að annast verzlunina, en þó það sé ekki gjaldþrota, þá er það leyst upp með skuldir að baki sér, og stafar það mikið af bruna, sem varð á Bíldudal. Gjaldþol manna í hreppnum er því afarlítið, og hreppurinn getur ekki eins og sakir standa náð nema örlitlu af þeim útsvörum, sem hann þarf á að halda. Ég sé svo ekki ástæðu til að fara lengra út í þetta.