18.08.1931
Neðri deild: 32. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í D-deild Alþingistíðinda. (1656)

28. mál, vegamál

Jón Auðunn Jónsson:

Ég gæti nú eiginlega fallið frá orðinu, því bæði hefir hv. þm. Borgf. tekið fram það, sem ég vildi mega hafa sagt, og að nokkru leyti hv. þm. Barð. líka.

Það hefir verið skýrt frá því, að sumar af þessum umbótum, sem eru nauðsynlegar, eru í framkvæmd nú þegar, eins og að setja upp leiðbeiningarspjöld. Það er búið að panta merkin, og þau verða sett upp, þegar þau koma. Það er rétt, að brýrnar yfir ræsin á eldri vegum eru mjórri en vegirnir sjálfir, sem stafar af því, að vegirnir hafa flatzt út af umferðinni síðan þeir voru gerðir. En vitanlega hafa brýrnar yfir ræsin í upphafi verið jafnbreiðar vegunum. En á nýjum vegum, sem verið er að gera, eru brýr yfir ræsi gerðar lengri en breidd veganna. (BSt: En á að hætta að búa til óþarfa króka?). Óþarfir krókar eru að vísu nokkrir á vegunum, en það er þó nokkurt álitamál, hvort krókarnir eru óþarfir; það verður að fara eftir landslaginu, hvar krókar eru hafðir. Við höfum ekki alltaf ráð á að fara beint, og þá verðum við heldur að taka krókinn. Ef það t. d. kostar 15–20 þús. kr. á km. að fara beint, en ekki nema 1–2 þús. kr. á km. að fara krókinn, þá verðum við heldur að fara hann. (BSt: En ef krókurinn er dýrari? — LH: Krókurinn er sumstaðar dýrari). Já, það hefir ef til vill komið fyrir, en annars hefir nú vegamálastjóri sagt mér, að það sé verið að laga krókana, og það hefir þegar verið gert á einum 30 stöðum. Yfirleitt eru þær umbætur, sem hér er farið fram á, miðaðar við það, hvað ríkissjóði er fært. Í Noregi hafa menn víða látið sér nægja vegi, sem ekki eru breiðari en 2¼ m. Myndu margir þakka fyrir á Vesturlandi, ef þar væru til slíkir vegir, þótt ekki væru breiðari. Það er alger óhæfa að binda það fastmælum, að ekki megi neinstaðar leggja mjórri vegi en 4 metra.