18.08.1931
Neðri deild: 32. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í D-deild Alþingistíðinda. (1661)

28. mál, vegamál

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Ég vil ekki vera að lengja umr. um þetta lítilfjörlega mál, því að ég veit, að framkvæmdir verða þær sömu, hvort sem till. verður samþ. eða ekki. Stóð ég aðallega upp til þess að taka það fram, að ég felli mig vel við brtt. við rökstudda dagskrá frá n., sem hv. þm. Barð. kom með. Get ég fallizt á þá afgreiðslu, sem hann mælir með. Vil aðeins geta þess út af orðum hv. þm. Dal., er hann gat þess til, að vegamálastjóri myndi hafa sagt n. fyrir verkum, að hann kom ekki á fundi n., fyrr en hún var búin að afgreiða nál., en þá kom í ljós, að vegamálastjóri var n. sammála um þetta. Annars vil ég ekki blanda mér frekar í þessa deilu og svara flm., sem bindur sig við form fremur en efni. Lít ég á þessa till. eins og viðvaningur væri að segja þaulvönum ræðara til um áralagið, eða sá, sem aldrei hefði snert á orfi, ætlaði að kenna æfðum sláttumanni. Er með öllu tilgangslaust að segja gamalreyndum mönnum fyrir verkum, sem þeir kunna betur en flm. (EA: Geta verið klaufar, þótt gamlir séu). Vil ég ekki eyða tíma til lengri umr. um jafnlítilfjörlegt mál og gagnslaust í alla staði og till. þessi er.