17.07.1931
Neðri deild: 3. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (17)

1. mál, fjárlög 1932

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Hæstv. forsrh. sagði, að hann mundi mæta fyrir dómstólum, ef ég stefndi honum fyrir illmæli í bókinni „Verkin tala“. Þar með hélt ráðherrann, að hann hefði fært fram allar frambærilegar ástæður, svo að hann þyrfti ekki á þessum vettvangi, að verja gerðir sínar. Hæstv. ráðh. á þó að vita, að fyrir dómstólunum er sá rétti vettvangur fyrir einstaklinginn Ólaf Thors gagnvart atvmrh. Tryggva Þórhallssyni, að stefna honum fyrir illmæli, sem þessi Tryggvi Þórhallsson hefir gefið út um Ólaf Thors, fyrir stolið fé úr ríkissjóði. Hitt er annað mál, að mér sem einum af kosnum málsvörum þjóðarinnar ber skylda til að gæta þess, að hið gamla og góða Mósesar boðorð „þú skalt ekki stela“ verði látið gilda framvegis, þó að ríkissjóður eigi í hlut. Ég hefi hér ávarpað hæstv. ráðh. og ásakað hann fyrir gerðir sínar, og hæstv. ráðh. má ekki halda, að hann komist undan því að verja sjálfan sig á Alþingi fyrir ásökunum alþingismanna um það að fara óráðvandlega með ríkisfé. Annars getur verið, að hæstv. ráðh. viti ekki, hvað stendur í bókinni. Ég get vel hugsað mér, að það sé ekki þessi hæstv. ráðh., sem hefir átt þátt í því, sem verst er og svívirðilegast í þessari bók. Get ég vel hugsað, að hann sæti fyrirskipun frá öðrum manni, sem hafi sagt: Ég skrifa, þú lánar nafn þitt. Þegar Tryggvi Þórhallsson var ritstjóri, þurfti hann oft að bera ábyrgð á sorpi, sem var miklu verra en hann óskaði eftir í blað sitt. En sannarlega ætti hæstv. forsrh. sjálfur að kynna sér, hvað stendur í slíkri bók, áður en hann gefur hana út fyrir ríkisins reikning fyrir tugi þúsunda króna í algerðu heimildarleysi, og gerist þar með þjófur á ríkisfé.