21.08.1931
Efri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í C-deild Alþingistíðinda. (1774)

56. mál, kartöflukjallari og markaðsskáli

Jakob Möller:

Það er undarleg hegðun hjá hv. 2. landsk. að hamla á móti því, að stofnað sé til atvinnubóta í Rvík með því að byggja hús undir kartöflur og grænmeti. Ég skil ekki, hvernig á því getur staðið, að hann skuli vera að amast við því, að þetta verk verði framkvæmt, þar sem hann hefir verið að bera fram fjárfrekar till. um að veita atvinnu bæði hér og annarsstaðar.

Mér finnst vera fullkomið ósamræmi í till. hv. þm. Um þá till. að nota þjóðleikhússkjallarann fyrir kartöflugeymslu er eiginlega ekkert að segja. Ef það er gert til þess að lítilsvirða bygginguna, þá er það varla umtalsvert. Það er meiri barnaskapur en svo, að hægt sé að segja nokkuð um það. En hinsvegar getur vel verið um það að ræða, að ríkisstj. fái kjallarann til afnota. En það þarf auðvitað enga lagasetningu um það.

Frv. um kartöflukjallara er aðeins heimild til ríkisstj. um að byggja hús til þessara afnota. En ef hún kýs ekki að byggja, þá getur hún eins tekið þá leið, að útvega hrís með öðru móti. Og það gæti auðvitað vel komið til mála að nota kjallarann, ef hann er álitinn hæfur til svo virðulegs verks. En eins og hann er núna er ekki hægt að nota hann, og verður því að ganga betur frá honum, ef á að nota hann.