08.08.1931
Efri deild: 24. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í C-deild Alþingistíðinda. (2026)

9. mál, brúargerðir

Guðmundur Ólafsson:

Ég hefi sömu sögu að segja sem þeir aðrir hv. þdm., er talað hafa. Ég hafði í huga í vetur að flytja þá þessar sömu brtt., sem ég nú flyt við frv., en þá var hv. d. annan veg stemmd í málinu en nú, og lét hv. samgmn. mig fullkomlega skilja það, að ekki væri til neins að vera að koma með brtt. við frv., því að því væri ætlað að ganga fram óbreyttu, ef unnt reyndist. Ég sá mér því ekki fært að bera fram neinar brtt. við frv. í vetur. því að ég vildi ekki eiga neina sök á því, að ekkert yrði úr setningu brúarlaganna. En nú hefir hv. d. tekið aðra stefnu í þessu máli. Við 2. umr. frv. var 4 brúm bætt inn í brúarlögin samkv. till. hv. samgmn., og tóku þá margir þm. til máls og lofuðu þessa fyrirhyggju, jafnframt sem þeir hvöttu til þess, að sem flestar brýr, sem byggja þyrfti á næstunni, væru teknar upp í frv. Hefi ég sem margir aðrir orðið við þessari hvatningu og ber fram tvær brtt. á þskj. 107, þar sem ég fer fram á það, að fyrirhuguðum brúm á Svartá hjá Bólstaðarhlíðarhélum ogVatnsdalsá í framanverðum Vatnsdal verði bætt inn í frv.

Báðar eru þessar ár á sýsluvegum, og að því er Svartá snertir hefir nú um mörg ár verið leitazt við að fá vegamálastjóra til að láta brúa hana, en aldrei hafzt fram. Eru mörg ár síðan áætlun var gerð um það, hvað þessi brú mundi kosta, en nú hefir verið gerð ný áætlun, sem er allt að þriðjungi hærri en sú gamla, þar sem gengið var út frá, að brúin mundi kosta 16 þús. kr. Munar það ekki litlu fyrir sýsluna, ef sá verður endirinn, að hún verður að standa straum af þriðjungi kostnaðarins við brúargerðina, eins og er um brýr á sýsluvegum, og má segja, að brigðmælgi vegamálastj. um að byggja brúna hafi þá orðið sýslunni nokkuð dýr, en ég vona, að síðari áætlunin sé vitlaus og sú fyrri rétt, jafnframt sem ég vænti þess fastlega, að þessi brú verði samþ. Það er komið að því að byggja þessa brú, ef ekki er þegar byrjað á því, og því verður ekki í móti mælt, að öll sanngirni mælir með því, að hún verði tekin upp í brúarl., a. m. k. á hún þar ekki síður heima en sumar þær brýr, sem fyrir eru í frv., því að hv. samgmn. mun hafa komizt að því við frekari rannsókn á þessu máli, að einar 8 brýr, sem frv. telur upp, séu ýmist byggðar nú þegar eða verið að byggja þær. Virðist þetta ekki benda til þess, að vegamálastjóri hafi beint vandað til frv. Og Svartárbrúin er ekki síður nauðsynleg en margar þær brýr, sem vegamálastjóri hefir tekið upp á arma sína, því að sumar þeirra eru jafnvel í óbyggðum. — Þá er Áshreppingum ekki lítil nauðsyn á að fá brú á Vatnsdalsá á þeim stað, sem getur í till. minni. Umferð er mikil um ána og auk þess verður að reka yfir hana afréttarfé á hverju hausti, en áin er þá oft vatnsmikil, svo að illt er að koma fé yfir hana, en hjá því verður ekki komizt, af því að réttirnar eru hinummegin árinnar. — Tel ég, að enginn vafi geti leikið á því, að þessar till. mínar báðar nái fram að ganga, eftir því sem dm. féllu orð við 2. umr. þessa máls, og ekki ætti það að geta spillt fyrir þessum brúm, þó að þær séu ekki á þjóðvegum, því að þær brýr, sem felldar voru inn í frv. við 2. umr., voru það ekki heldur, og sízt þar um meiri vatnsföll að ræða, og fengu þær þó atkv. mikils meiri hl. deildarinnar.

Viðvíkjandi Vatnsdalsárbrúnni er það að segja, að á þeirri á er engin brú sem stendur, en aftur er brú á annari á, sem ýmist er kölluð Vatnsdalsá eða Hnausakvísl, en hún er fyrir norðan dalinn, þannig að dalbúar hafa ekki gagn af henni.

Viðvíkjandi Svartárbrúnni er aftur það að segja, að þegar sett verður önnur brú á Blöndu, þá verður þessi brú á þjóðvegi, því að þá þurfa menn ekki að taka á sig þann krók, sem þeir verða nú að taka, að fara til Blönduóss.