07.08.1931
Neðri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (2029)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Bjarni Ásgeirsson:

Mér virðist nú sem séð séu fyrir örlög Karþagóborgar. Það er útlit fyrir, að réttur ljónsins yfir músinni eigi að ráða, þar sem um það er að ræða, að stærsta bæjarfélag landsins ætlar að svæla undir sig hluta af minnsta héraðinu.

Því hefir verið haldið fram, að fulltrúar sveitanna hefðu tilhneigingu til að ganga á rétt Reykjavíkur, en í þessu máli virðist það sýnilegt, að svo er ekki, því að vitanlegt er það, að nú munu nokkrir sveitaþm. ætla sér að greiða atkv. með þessu innlimunarfrv. Það þýðir því ekki að fjölyrða mikið um þetta valdarán, enda stóð ég frekar upp til þess að mæla hér fyrir brtt., sem ég hefi borið fram. Mér virðist, að ef þessu á fram að fara, þá eigi Kjósarsýsla heimting á að fá bættan þann skaða, sem henni er með þessu ger. Nú er málum svo háttað, að af gjöldum til sýslusjóðs mun Seltjarnarneshreppur greiða rúmlega helminginn, en Skildinganeskauptún líklega helminginn af því. Mundi því Kjósarsýsla vera svipt ¼ af tekjum sínum með samþykkt þessa frv., og þess vegna hefi ég borið fram till. á þskj. 166, sem tryggir það, að réttur sýslunnar sé ræddur og gerðar þær ráðstafanir, sem tiltækilegar mega álítast til að koma í veg fyrir þau spjöll, sem ger væru á fjárhag sýslunnar með þessu. Nú hefir hv. allshn. borið fram brtt. á þskj. 181, sem er sama efnis og b-liður minnar till., en þó nokkuð fullkomnari, svo að ég tek þann lið till. minnar aftur, í trausti þess, að brtt. verði samþ.