07.08.1931
Neðri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (2033)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Frsm. (Jón Ólafsson):

Ég get ekki vel setið hjá þegar önnur eins ummæli hafa komið fram og fram komu hjá hv. þm. Mýr. Hér er ekki um það að ræða, að verið sé að gleypa dýrmætan bita eða ásælast neitt í hagnaðarskyni, heldur er Reykjavíkurbær að reyna að hindra það, að þarna rísi upp óskipulegt og illa byggt þorp, eins og full ástæða hefir verið til að ætla, enda ekki fyrir neina heilskyggna menn að horfa á slíkt. Það er alrangt hjá hv. þm., að Reykjavík sé þarna að hrifsa hluta af Seltjarnarneshreppi, því að vitanlegt er það, að Skildinganesþorp er nú orðið svo mannmargt, að það getur hvenær sem er krafizt bæjarréttinda og látið þá þau gjöld, sem íbúarnir greiða, renna í bæjarsjóð.

Hér er því aðeins um það að ræða, hvort þetta þorp á í framtíðinni að vera sérstakur bær eða hluti af Reykjavík. Annars verð ég að lýsa yfir því, að ég er mjög hissa á þessum hv. þm., sem mjög hefir ásælzt eignir bæjarins handa ríkinu, að hann skuli ekki vilja sýna neina viðleitni í þá átt að bæta bænum það upp.