17.07.1931
Neðri deild: 3. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (21)

1. mál, fjárlög 1932

Magnús Jónsson:

Það var gersamlega af misskilningi mælt og út í hött hjá hæstv. forsætisráðherra um Landsbankann. Sparisjóðsinneignir hafa hér ekki svo mikla þýðingu. En það eru viðskiptin við útlönd, sem eru bezta loftvogin á afkomu þjóðarinnar. Og þau hafa sýnt þessa voðalegu útkomu. Annars skil ég ekki, hvers vegna hæstv. forsrh. hefir ekki fengið reikninga Landsbankans, því að þeir eru sendir út fyrir löngu, og hefi ég fengið þá sem þm., en ekki sem bankaráðsmaður. (EA: Ekki hafa sumum öðrum þm. verið sendir þeir).

Þá var hæstv. fjmrh. að tala um „hina óvenjulega glöggu og skýru skýrslu“, sem fyrirrennari hans hefði gefið um fjárhag landsins, er hann lagði fram fjárlögin á síðasta þingi. Ég skal ekkert fara út í það nú, heldur bíða þess rólegur, að landsreikningurinn skeri úr um það, sem okkur har þá á milli, mér og fyrrv. fjmrh., en minna vil ég þó á það, að í fjárlagaræðu sinni næstu þar á undan skeikaði fyrrv. fjmrh. um 1 millj. kr. í útreikningum sínum frá því, sem síðar reyndist í landsreikningnum. Þó að fyrirrennari hæstv. núv. fjmrh. sé óvenjulega skýr maður, má honum því síðan hafa farið mikið fram í skýrleika til þess að skýrslur hans séu taldar óyggjandi. — Annars er það fjarri mér að vera að deila á fyrrv. fjmrh. út af þessu, því að það er vitanlegt, að ekki er hægt að gefa fullkomið yfirlit um fjárhag landsins svo snemma árs sem fjmrh. flytur fjárlagaræðu sína. Orsökin er sú, að þá eru ekki komnar fram allar inn- og útborganir ríkissjóðs fyrir undanfarið ár. Ég vil því beina þeirri fyrirspurn til hæstv. núv. fjmrh., hvort sú skýrsla, sem fyrirrennari hans gaf um fjárhag landsins á síðasta þingi, sé rétt? Hvort ekki hafi orðið um 6½ millj. kr. halli á árinu, eins og haldið hefir verið fram, bæði af mér og öðrum fleirum? Fyrrv. fjmrh. taldi fram 17,25 millj. kr. sem útgjöld ríkissjóðs, en sleppti þar með öllu að telja fram lánsfé, sem þó hafði verið borgað úr ríkissjóði á árinu. Má sjálfsagt deila um það fram og aftur frá bókfærslulegu sjónarmiði, hvernig færa skuli ýmsar þær upphæðir, sem þar er um að ræða, en hræddur er ég um, að það komi á daginn, þó að seinna verði, að þessi umrædda skýrsla fyrrv. fjmrh. hafi ekki verið neitt „óvenjulega glögg og skýr“.