23.07.1931
Neðri deild: 10. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í C-deild Alþingistíðinda. (2150)

43. mál, tekju- og eignarskattur til atvinnubóta

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Hv. 3. þm. Reykv. var að tæpa á því, að sjálfstæðismenn væru samábyrgir í fjáreyðslu ríkisstj. Hann ætti heldur að leita að samábyrgðarmönnum meðal sinna eigin flokksmanna, því að sannarlega eru það jafnaðarmenn, sem hafa verið stuðningsmenn stj.

Andsvör hv. flm. gefa ekki tilefni til mikilla aths. Hv. flm. fannst of mikið rætt um fjáreyðslu ríkisstj. og sagði, að það væri ófrjótt mál. En það er sannarlega ekki ófrjótt mál að tala um fjáreyðslu ríkisstj., ef vera mætti, að hún sæi að sér. Því að ef tekjum ríkissjóðs væri vel varið, þá mætti hafa verklegar framkvæmdir án þess að skattleggja. Og ef umr. um eyðslu ríkisstj. mættu kenna henni að ganga á réttri braut, þá væru þær sannarlega ekki ófrjóar. Hv. flm. segist ætlast til þess, að Íslendingar séu svo vel síðaðir, að þeir betur stæðu miðli þeim verr stæðu. Ég veit, að Íslendingar eru þess hugar, að þeir, sem afla meira, vilja miðla þeim, sem minna hafa. En það er nú hvorttveggja, að ekkert bendir á, að ríkissjóður geti haldið áfram verklegum framkvæmdum, og að frv. þetta er kák og ekkert annað. Auk þess er sá galli á frv., að það er ekki tryggt, að þeir, sem eru aflögufærir, greiði skattinn.

Hv. þm. talar eins og það væri Kveldúlfur, sem ætti að borga allan þennan skatt. En ég get frætt hv. þm. á því, að Kveldúlfur tapaði síðastl. ár 100–200 þús. kr. og eignarskattur sá, sem myndi lenda á honum, yrði því ekki meiri en sá, sem hann getur fengið samkv. skattalöggjöfinni. En ég vil segja þessum þm. það í eitt skipti fyrir öll, að ég lít ekki á mig sem málsvara Kveldúlfs á þingi, og það er alveg óþarft fyrir hann að vera með þesskonar dylgjur. En ef það vakir fyrir honum að láta þann gjalda, sem gjaldþolið hefir, þá væri miklu eðlilegra, að eignarskatturinn væri hærri, en tekjuskatturinn lægri. (JónasÞ: Ég mun styðja brtt. frá hv. þm.). Ég hefi sagt hv. flm., að ég mun ekki greiða atkv. með þessu frv. og ber ekki fram neina brtt.

Hv. flm. sagði, að okkur stjórnarandstæðingum væri ekki ljóst, að stj. hefði notað góðærið til viðreisnar atvinnuvegunum. En af þessum 26 millj., sem stj. hefir eytt, hafa í hæsta lagi farið 6 millj. til verklegra framkvæmda. Hv. flm. verður að gera sér ljóst, að þegar nýtt skattafrv. er borið fram, á hinu fyrsta kreppuári, þá er ekki nema eðlilegt, að menn rifji upp, hvernig farið hefir verið með fé ríkissjóðs. Hv. flm. minntist á, að ég vildi ekki samþ. tekjuaukal. nema útséð væri um úrslit kjördæmaskipunarmálsins. Hv. þm. má þó skiljast, að stjórnarandstæðingar hafa aðstöðu til að synja stj. um aðstoð og fella hvaða mál, sem þeim sýnist, þ. á. m. tekjuaukann. Og það er ekkert óeðlilegt, eftir því sem á undan er komið, að þeir noti aðstöðu sína til að fella mál stj.