22.07.1931
Neðri deild: 7. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í C-deild Alþingistíðinda. (2172)

47. mál, undanþága skóla og sjúkrahúsa frá afnotagjaldi til útvarps

Jónas Þorbergsson:

Enda þótt þetta frv. sé ekki stórt að vöxtum eða láti mikið yfir sér, verð ég þó að lýsa því yfir, að ég er algerlega mótfallinn því. Ég geri ráð fyrir, að á bak við þetta frv. standi ákveðinn skoðunarháttur hv. flm. á landsmálum, fremur en það, að hann telji þau fjárhagslegu atriði, sem hér koma til greina, svo mikilsverð fyrir þessar stofnanir, að ástæða sé til þess að bera fram frv. þeirra vegna.

Það virðist satt að segja nálgast að vera broslegt að starfa að frv.gerð til þess eins að undanþiggja stofnanir, þar sem margir tugir manna njóta útvarpsins, þessu litla afnotagjaldi, 30 kr., sem greitt er fyrir að njóta daglegra veðurfregna, daglegra frétta, innlendra og útlendra, 3–400 erinda, hljómleika, upplestra úr bókmenntum, kennslu o. fl.

Í grg. segir, að það sé verið að skattleggja þessar stofnanir til útvarpsins. Ég vil leyfa mér að mótmæla þessum skilningi. Í þessu falli ber að greina milli skatts og afnotagjalds. Þetta afnotagjald er samskonar og greitt er til símans og gengur til þess að bera uppi rekstrarkostnað útvarpsins. Í grg. segir ennfremur, að það sé að taka úr einum vasanum og leggja í hinn, þar sem opinberar stofnanir séu skattlagðar til útvarpsins. Að vísu er rétt, að svo má segja, þegar opinberar stofnanir eru látnar greiða einhver gjöld. En það skiptir þó nokkru fyrir stofnanirnar, hversu gjöldunum er háttað, og ekki er rétt að ívilna einni stofnun á kostnað annarar, heldur ber að mínu áliti að fylgja þeirri reglu, að hver stofnun fái greidda hverja þjónustu, er hún innir af höndum vegna annara stofnana. Og þar sem þetta frv. miðar til þess að svipta útvarpið lögmæltum gjöldum. án þess að til slíks sé nokkur nauðsyn, þá álít ég bæði óréttlátt og ástæðulaust að samþ. nokkur ákvæði í þessa átt.

Að endingu vil ég benda á, að þetta myndi skapa fordæmi, sem er varhugavert, því að í frv. er talað um „aðrar menningar- og mannúðarstofnanir“, og ég geri ráð fyrir, að það verði margar stofnanir, sem ekki yrði skotaskuld úr því að kalla sig þessum nöfnum og losna við greiðslu afnotagjalds í krafti þessara ákvæða.

Meðan ákveðið er í lögum, að gjald skuli greitt fyrir afnot af útvarpi tel ég að ekki eigi að opna undanþáguleiðina, enda er ekki gott að vita, hvar þá yrði staðar numið.

Þar sem hv. flm. og flokksmenn hans hafa verið svo hugulsamir að leggja mörg frv. fram, svo að þingið verður vafalaust ekki í verkefnahraki, en þetta er hégómamál, þá legg ég til, að það verði ekki látið fara lengra, heldur fellt þegar við þessa umr.