23.07.1931
Neðri deild: 10. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í C-deild Alþingistíðinda. (2210)

63. mál, útsvör

Magnús Guðmundsson:

Það er fjarri mér að ætla að fara að hefja deilu um mál þetta að sinni, en af því að hv. aðalflm. var hér ekki viðstaddur, hóf ég umr. um málið. Um b.-lið 8. gr. er það að segja, að hann er brot á meginreglu útsvarslaganna, brot, sem er að kenna meðferð þingsins á málinu, en mér finnst þó mikill munur á því og þessu frv. Þar er ákveðið, að útsvar megi leggja á þá menn, sem nota sjálfir lóðir eða laxveiði, en hér er ákveðið, að leggja megi útsvar á menn, sem ekki nota húseignir sínar sjálfir.

Það kann vel að vera, að Reykjavík gæti haft töluverðar tekjur af þessu frv., en ég vil benda á það, að bærinn hefir ýmsa skatta af þeim húseignum, sem hér eru, þótt hann leggi ekki bein útsvör á eigendurna.

Ástæðan til þess, að ég er á móti þessu frv. er sú, að þegar lagt er á menn annarsstaðar en þeir eiga heima, þá verða þeir venjulega mjög hart úti, því að þótt svo eigi að heita, að þá skuli lagt á menn einungis eftir tekjum, sem aflað er utan heimilissveitar, þá hefir það nú þótt bera við, að nokkuð væri lagt á þá af handahófi. Þessa ágalla þótti gæta um ef fyrir 1926, er hin nýju útsvarslög voru sett, og þess vegna er ég mótfallinn því, að lagt sé aftur út á þá braut, sem þá var fordæmd.