24.07.1931
Neðri deild: 11. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í C-deild Alþingistíðinda. (2289)

83. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

Flm. (Magnús Jónsson) [óyfirl]:

Þetta mál hefir legið fyrir ýmsum þingum áður, en stundum komið svo seint, að það náði ekki afgreiðslu, og á síðasta þingi lenti það í hinum mikla svartadauða, sem önnur frv. Er hér farið fram á tvær breyt. á lögum um skipulag kauptúna frá 1921, til þess að koma í veg fyrir verulega ósanngirni í garð lóðareigenda, sem í þessum lögum felst. Það er viðbót við l3. gr., þar sem segir, að eftir að skipulagsuppdráttur hefir verið lagður fram má ekki vera neinar breyt. eða mannvirki á lóðinni, nema með samþykki sveitarstjórnar. En það er ekkert tekið fram um það, hve langur tími á að líða frá því að uppdrátturinn er lagður fram, og er þess vegna unnt að halda lóðunum án skaðabóta. Hér er því farið fram á, að bætt sé við, að ef skipulagsuppdráttur hefir ekki hlotið staðfestingu áður en tvö ár eru liðin frá framlagningu hans, skuli hann ekki vera framar bindandi. Þetta er yfirsjón í lögunum frá 1921, að ekki skuli vera sett ákvæði um vissan tíma. Reynslan í Reykjavík hefir staðfest þetta. Eins og lögin eru nú er hægt að halda skaðabótum fyrir mönnum von úr viti, hversu lengi sem dregst, að hin fyrirhugaða breyting kemst í framkvæmd. Lóð, sem er búið að ákveða undir mannvirki eða götu samkv. skipulagsuppdrætti, kemur vitanlega eiganda ekki að fullum notum. Hann getur ekki selt hana eða ráðstafað henni á annan hátt. En eins og lögin eru nú getur vel dregizt, að nokkrar bætur komi fyrir áratugum saman, svo að það verða kannske niðjar hins upphaflega eiganda í 3. eða 4. lið, sem fá þær, þegar munnvirkið er byggt eða gatan lögð. Eins og bent er á í gr., koma þessi ákvæði sennilega í bága við stjórnarskrána, sem kveður svo á, að menn skuli fá fullt verð fyrir lögnumda eign. Sú breyt., er við förum fram á, breytir engu um tilgang laganna. heldur er hér einungis um sanngirnismál að ræða.