15.08.1931
Efri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

1. mál, fjárlög 1932

Jakob Möller:

Ég á hér fáeinar brtt. á þskj. 297, sem ég vildi gera lítilsháttar grein fyrir. En ég held ég verði þó fyrst að minnast á till. fjvn. á þskj. 283 um styrk til Elínar Sigurðardóttur. Ég vildi aðeins vekja athygli hv. dm. á því, að þessi sjúkrastyrkur til hennar er búinn að standa í fjárl. í mörg ár, og hann er inn kominn af nokkuð sérstökum ástæðum, fyrst og fremst af þeim ástæðum, að heilsufari þessa sjúklings er þannig háttað, að hann fellur ekki undir berklavarnalögin, eða svo var það, þegar styrkurinn upphaflega komst inn. (JónJ: Hann hefir ekki verið í fjárl. undanfarið). Jæja, þá hefir hann verið felldur úr fjárl. meðan ég var í burtu frá þingi. En upphaflega var það ég, sem bar fram till. um þennan styrk; ég man ekki á hvaða þingi það var, en meðfram var það með tilliti til þess, að þessi kona hafði verið opinber starfsmaður, hafði bæði verið við kennslu og póstafgreiðslustörf norður í landi, og með tilliti til þess og heilsufars hennar var henni veittur þessi sérstaki styrkur. Þess vegna finnst mér illu farið, ef þessi styrkur verður af henni tekinn, og ég veit satt að segja ekki, hvað um hana kann að verða, ef hún missir hann. En vitanlega á hún ekki síður skilið að fá hjálp en aðrir berklasjúklingar, því hún er algerlega ófær til allra vinnu. Ég vildi því mælast til, að þessi till. fjvn. verði felld.

Brtt. mín á þskj. 297, XV, er um styrk til Stúdentaráðs háskólans, til þess að starfrækja upplýsingaskrifstofu. Það var einmitt nú verið að útbýta meðal þm. skýrslu frá stúdentaráðinu um starf skrifstofunnar, sem hefir verið rekin í 10 –11 ár.

Starf hennar hefir verið mjög merkilegt og verður vafalaust talið þýðingarmikið í menningarsögu landsins. Það vita nú allir dm., að hverju þetta starf beinist, að leiðbeina ísl. stúdentum, hvernig þeir eigi að haga námi sínu erlendis aðallega, með því að afla skýrslna um kennslu og kennslutilhögun í ýmsum skólum víða um lönd. Þannig hefir starf skrifstofunnar beinzt að því að hvetja stúdenta til þess að fara sem víðast og afla sér sem margbreytilegastrar menntunar, í stað þess að áður var siður að leita aðeins til eins lands. Nú eru ísl. stúdentar við nám í háskólum í mörgum löndum, og það er auðsýnt, hversu miklu affarasælla það er fyrir þjóðina í heild, að menntamenn hennar leiti sér menntunar víðar en í einu landi. Hvaða þýðingu þetta hefir fyrir hina einstöku menn, sem nota sér þessa aðstöðu, er auðséð, því að stúdentar, sem koma beint af skólabekknum, vita lítið, hvað þeir eiga fyrir sig að leggja, og til þess að leiðbeina þeim er upplýsingaskrifstofan. Ég tel tvímælalaust, að þessum litla styrk sé svo vel varið, að fáar upphæðir í fjárl. muni gefast eins vel og slíkur styrkur til Stúdentaráðs háskólans. Þörfin fyrir þessa leiðbeiningarstarfsemi verður meiri eftir því sem árin líða og stúdentum fjölgar. Það varðar miklu fyrir þjóðina, að þeim sé beint á sem fjölbreyttastar leiðir í námi sínu, ekki aðeins vegna þeirra sjálfra, heldur og vegna þjóðarinnar í heild sinni. En kostnaður er talsverður við þessa starfsemi, því að til þess að geta rækt hana, þarf skrifstofan að afla sér þeirra upplýsinga, sem hún á að miðla öðrum með því að afla sér leiðbeiningabóka, sem hún getur fengið víðsvegar að, um kennslu og kennslugreinar við ýmsa háskóla. Fer mikið til þess, auk þess sem þarf til starfrækslu skrifstofunnar. Ég vænti því, að hv. þdm. geti fallizt á að samþ. þennan litla styrk.

Þá eru undir XVII. lið till. um styrk handa þremur námsmönnum. Fyrst er það Valgarður Thoroddsen, sem les rafmagnsfræði í Þýzkalandi og er að ljúka námi. Hann hefir notið styrks í fjárl. til þessa náms og á aðeins 1 ár eftir, og er það sanngirnismál, að honum sé hjálpað til þess að ljúka því, en ekki lagður steinn í götu hans, þegar hann er rétt að enda við nám sitt. Það er vitanlegt, að hér mun verða þörf fyrir góða rafmagnsfræðinga í framtíðinni, eftir því sem meira er gert að því að framleiða rafmagn.

Annar styrkurinn er til Jóns Gizurarsonar, sem leggur fyrir sig verzlunarfræði við þýzkan háskóla. Það er kunnugt, að hér er mikil vöntun á vel menntuðum verzlunarfræðingum. Þá er þess líka að geta, að það er mjög ráðgert að stofna hér við háskólann til kennslu í ýmsum praktískum greinum, og kemur þá sjálfsagt einna fyrst á blað kennsla í verzlunarfræði. Og það er auðsætt, hve mikla praktíska þýðingu það hefði fyrir landið að geta veitt slíka kennslu innanlands, í stað þess að senda menn, sem þurfa að læra það, á námsskeið erlendis, sem mismunandi gefast, auk þess, sem það er til að flytja fé út úr landinu. Ennfremur yrði það vafalaust til að auka almenna menntun meðal verzlunarmanna í þessari starfsgrein þeirra og efla þannig veg og gengi ísl. verzlunar.

Þá kem ég að þriðja styrknum undir þessum sama rómv. lið. Það hefir orðið það slys með till., að nafn styrkþegans er rangt. Hún heitir Ingveldur, en ekki Sigríður, eins og hér stendur. Hún stundaði verzlunarnám hér heima í verzlunarskólanum og réðist svo í að fara utan til að fullkomna sig í þessum fræðum. Það mætti segja, að það væri hættulegt fordæmi að veita styrk til almenns verzlunarnám erlendis. En hér stendur alveg sérstaklega á. Það mætti skoða styrkinn ekki síður sem verðlaun til foreldra hennar, sem eiga 14 börn og eru að koma upp þessum börnum hjálparlaust, án nokkurs styrks frá öðrum. Það er ekki svo venjulegt, að foreldrar eigi svona mörg börn, og það fer ekki illa á því, að slíku sé nokkur sómi sýndur, eins og hér mætti gera. Stúlkan leggur fram með beiðni sinni vottorð um nám sitt hér og meðmæli frá kennurum um það, að hún sé alls góðs makleg í þessu efni.

Þá flyt ég þrjár till. undir XXII. lið, og er sú fyrsta um það, að aths., sem bætt var inn í við styrkinn til Leikfélagsins, að það skuli skilyrði fyrir styrknum, að fél. lofi að útvarpa síðustu sýningu hvers leiks, falli niður. Hv. dm. hafa vafalaust fengið erindi frá Leikfélaginu, sem að þessu lýtur, og hafa séð, hvaða annmörkum það er háð að leggja félaginu slíka skyldu á herðar, því það er miklum örðugleikum bundið að framkvæma þetta útvarp, svo nokkur mynd sé á. Ég skil ekki aths. svo, að til þess sé ætlazt, að fél. láti útvarpa síðustu sýningu annarsstaðar að en af leiksviðinu, ekki eins og útvarpað er frá útvarpsstöðinni, því það yrði náttúrlega ákaflega kostnaðarsamt fyrir Leikfél. En það verður ekki heldur lagður sá skilningur í aths., því það er aðeins talað um leyfi til að útvarpa síðustu sýningunni, og hún fer auðvitað fram á leiksviðinu. En á þessu eru miklir annmarkar, leikurinn getur ekki notið sín í útvarpi, svo að áheyrendur hafi af því full not, bæði af hávaða í leikhúsinu, auk þess, sem vafasamt er, hvað mikið er í það varið fyrir hlustendur að heyra útvarpað sjónleikum, því leikar njóta sín fyrst og fremst vegna meðferðar leikaranna á hlutverkinu, sem hlustendur hafa ekki gagn af; þeir heyra bara orðin. En ef d. hinsvegar vildi ekki fallast á að sleppa þessu, þá fyndist mér rétt að hækka styrkinn til fél. og láta útvarpa frá útvarpsstöðinni, þar sem það gæti orðið eins fullkomið og kostur er á.

Þá er önnur till. um styrk til tónlistarskólans. Það lá fyrir erindi frá skólanum í fjvn., en menn hafa ekki getað fallizt á að verða við þeim tilmælum hans um fjárframlag. Tónlistarskólinn er ný stofnun og hann byrjaði algerlega styrktarlaus af opinberu fé, en hefir fengið styrk hjá einstökum mönnum. Slíkur skóli er landsskóli auðvitað; þar eiga aðgang allir landsmenn, þó hann sé hér í Rvík. Hér á landi eru margir, sem eru sönghneigðir og langar til að læra eitthvað í þeim efnum, og tónlistarskólinn er hentugur til þess, að menn geti fengið slíka kennslu þar. Ræði er sennilegt, að það yrði ódýrara og betra heldur en að menn séu að reyna að afla sér slíkrar kennslu á snöpum hjá hinum og þessum, svo að misjafnlega tekst til um val. En auk þess er það, að meðan hér er enginn tónlistarskóli, hlýtur það að vera svo, að þeir, sem vilja læra eitthvað verulegt í þessum efnum, verða að fara til annara landa til að fá þá kennslu, og því fylgja fjárútlát út úr landinu, sem óþarfi væri, og hefir þess oft og einatt orðið vart í sambandi við fjárl., að sótt er um slíka styrki til náms erlendis, og slíkir styrkir hafa oft verið veittir. En það gæti líka minnkað, og það er ekki ríkissjóður einn, sem sparaði á því, að slíkri stofnun væri komið upp, heldur líka landið í heild. Það er líka kunnugt, að landsmenn hafa borgað talsvert mikið fé fyrir aðfengna hljómlist. Á veitingahúsum hér eru útlendar hljómsveitir; þær senda kaup sitt mánaðarlega til útlanda. Þetta verk gætu leyst af hendi innlendir menn; sem ekki sendu kaup sitt út úr landinu. Það væri auðsær þjóðarsparnaður, ef þessu væri þannig komið fyrir. Þá þyrfti ekki heldur að leigja hljómsveitir frá öðrum löndum við hátíðleg tækifæri og borga mörg þús. kr. fyrir, eins og t. d. kom fyrir í sambandi við alþingishátíðina síðastl. ár. Auk þess bætist við meginatriði þessa máls, hve mikið menningar- og metnaðaratriði það ætti að vera okkur að eiga slíka stofnun.

Það var upphaflega farið fram á 5000 kr. styrk til þessa skóla. Ég hefi ekki þorað að taka upp meira en 3000 kr. Hinsvegar get ég getið þess, að af hálfu skólans hefir verið leitað til bæjarstjórnarinnar í Rvík um styrk til skólahaldsins. Út styrkveitingu hefir þó ekki orðið enn úr þeirri átt, meðfram að þeirri ástæðu, að svo hefir verið litið á, að ríkissjóður ætti að ganga á undan, þetta væri fyrst og fremst landsins mál, þótt það sé auðvitað líka mál bæjarins. Ég tel engan vafa á því, að þegar skólinn kemst á fastari legg og fær þenna styrk úr ríkissjóði, fær hann einnig stuðning frá bæjarsjóði, enda þarf hann að fá meira en þessar 3000 kr. til þess að geta starfað.

Þá er síðasta brtt. mín, á sama þskj., XXII, 3, styrkur til Péturs Á. Jónssonar óperusöngvara, 5000 kr. Það er auðvitað dálítið óvanaleg málaleitun að fara fram á styrk handa slíkum manni, sem ekki er neinn námsmaður í sinni grein, heldur gamall og þekktur listamaður. En það er svo ástatt um Pétur Jónsson, að hann hefir orðið fyrir óheppni í starfsemi sinni. Hann var búinn að vera mikilsmetinn söngleikari í Bremen, en réðst í að flytjast til Berlínar, í von um að fá þar glæsilegri framtíðarmöguleika. En svo verður mikil breyting í Þýzkalandi, fjárhagsörðugleikar gífurlegir, og þrengir svo að almenningi, að mjög dregur úr atvinnumöguleikum þessara listamanna. Hann var þar óráðinn, og niðurstaðan hefir orðið sú, að hann hefir verið þar mikið til atvinnulaus síðan hann fluttist þangað, sérstaklega vegna þess, að hann er útlendingur, og í Þýzkalandi er mjög hlynnt að innlendum mönnum, eins og vera ber, bæði í þessu starfi og öðrum.

Hinsvegar má á það minna, að Pétur Jónsson fékk sem námsmaður aldrei neinn styrk frá ríkissjóði, eins og verið hefir um flesta eftirmenn hans á þessari braut, því að flestir hafa þeir hlotið einhvern stuðning til þess að fullnuma sig. En Pétur brauzt áfram upp á eigin spýtur. Hann var hér brautryðjandi; hann mun hafa verið sá fyrsti af ísl. söngvurum, sem farið hefir til útlanda og vakið eftirtekt á landinu og unnið því gagn og sóma. Þess vegna er farið fram á, að þessi styrkur sé veittur honum sem viðurkenning fyrir hans glæsilega söngvarastarf á undanförnum árum, en ekki ætlazt til þess, að það verði framhaldandi styrkur.