11.08.1931
Efri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í C-deild Alþingistíðinda. (2380)

38. mál, vegalög

Magnús Torfason:

Ég stend upp út af þeirri till., sem hv. 4. landsk. flytur hér um veg í Gnúpverjahreppi. Ég get skýrt frá því, að nokkur ár eru síðan fyrirhugað var að leggja þennan veg. En það varð nokkur ágreiningur um, hvar hann ætti að liggja. Í fyrra sumar var hann athugaður talsvert og vegarstæðið, sérstaklega frá því sjónarmiði, að gerður yrði betri vetrarvegur heldur en þar, sem sýsluvegarstæðið er nú, sunnan undir fjöllunum, og þar liggur hann í lægð á nokkrum hluta.

Ég átti tal við vegaverkstjóra í Árnessýslu í vor, og ætlaði hann þá að athuga málið betur. Fyrir nokkru reyndi ég að ná í vegamálastjóra, en hann var þá ekki heima. Þess vegna var það, að okkur þm. Árn. kom saman um að ég skyldi ekki bera málið fram í þessari d., heldur skyldi samþm. minn flytja það í Nd., þegar þetta frv. kæmi þangað.

Það er enginn vafi á því, að það er mikil þörf á þessum vegi, og þá sérstaklega vegna þess, að hreppsbúar þarna eru komnir í samband við mjólkurbú og farnir að vinna afurðir úr mjólk sinni. Því þurfa þeir eins og hinir, sem neðar byggja, að geta komizt leiðar sinnar, jafnt að vetrarlagi sem að sumarlagi.

Ég er þess vegna þakklátur hv. 4. landsk. fyrir það, að hann hefir borið þetta mál fram og óska þess eins, að hv. d. megi fallast á þessu brtt. hans við vegalögin.