15.08.1931
Efri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

1. mál, fjárlög 1932

Frsm. (Einar Árnason) [óyfirl.]:

Eins og komið hefir fram við umr., liggja fyrir allmargar brtt. við fjárlagafrv. frá einstökum dm. Þessar till., ef samþ. yrðu. hefðu þau áhrif, að útgjöld ríkissjóðs myndu aukast, ef taldar væru heimildir með, um 700 þús. kr. Hinsvegar hefir það hvergi komið fram, hvar ætti að fá tekjur til að mæta þessum nýju útgjöldum. Nú vita allir hv. dm., að eins og frv. lítur út frá Nd., má segja, að það sé slétt, eða með öðrum orðum, að tekjur og gjöld standast á. Nú má vel vera, að þeir hv. dm., sem telja óhætt að auka útgjöld ríkissjóðs, sem nemi þessari upphæð, álíti, að tekjuáætlunin sé svo lág, að hún geti borið þessi auknu útgjöld, sem sé, að tekjur ríkissj. árið 1932 verði meiri og til muna meiri en ráð er fyrir gert í frv. Hv. 4. landsk. lét þau orð falla áðan, að tekjuáætlunin væri varleg. Ef til vill á að skilja þetta svo, að tekjuáætlunin sé svo varleg, að óhætt sé að bæta við útgjöldum. En til þess að gera sér grein fyrir því, hvort tekjuáætlunin er varleg eða ekki, verða menn að fallast á að athuga málið eins og það liggur fyrir. Það er þýðingarlaust að slá því fram órökstutt, að tekjuáætlunin sé lág. Það er nauðsynlegt að bera hana saman við undanfarandi ár. Ég sagði í fyrri ræðu minni hér í dag, að í þessu frv. væru tekjur ríkissj. áætlaðar hærri en nokkru sinni áður, og þess vegna vil ég segja frá því. hvað tekjur ríkissj. hafa verið áætlaðar á undanförnum árum í sambandi við fjárlagafrv., og ég fer ekki lengra en til 1929.

Árið 1929 voru tekjur ríkissj. áætlaðar 10,9 millj., árið 1930 11,9 millj., árið 1931 12,8 millj. og nú í þessu frv., ef það er reiknað eftir sama fyrirkomulagi og er á eldri frv., eru tekjurnar áætlaðar 13,5 millj.

Nú er ástæða til í sambandi við þetta að athuga, hvað tekjurnar hafa orðið á undanförnum árum, og ég fer þá ekki lengra aftur en til ársins 1927. Árið 1927 urðu tekjur ríkissj. 11,2 millj., árið 1928 urðu þær 14,2 millj., árið 1930 er, að ég hygg, ekki nákvæmlega uppgert, en þeir raunverulegu tekjustofnar er gert ráð fyrir, að hafi reynzt 16,3 millj. Þó að tekjur ríkissj. séu hærri en þetta 1930, þá komu þær tekjur annarsstaðar að, og er ekki hægt að gera ráð fyrir þeim nú. Nú má ekki gleyma því, að það má alltaf gera ráð fyrir nokkrum upphæðum, sem eru útborgaðar eftir heimildum og sérstökum lögum. Ef gert er ráð fyrir því, að útgjaldaliðir frv. standist raunverulega, þá hljóta þó alltaf að koma fram útgjöld samkv. heimildum og sérstökum lögum, sem ekki er hægt að sleppa með minna til á árinu en 1/2 millj. Ef við nú bætum við því, sem fólgið er í brtt., sem mun vera um 700 þús. kr., og till. n., sem eru um 500 þús. kr., þá er komin tekjuhækkun, sem nemur 1 millj. 200 þús. kr. Nú vita allir, að yfir standa krepputímar og að útlitið er ískyggilegt. Ég vil nú taka árið 1928, þegar tekjurnar námu 14,2 millj. Eru nú nokkrar líkur til, að tekjurnar 1932 verði meiri en árið 1928, en það var gott framleiðslu- og verzlunarár. Ef hætt er við þessar 1,2 millj., þá er komið upp í 14,7 millj., en árið 1928 urðu tekjurnar 14,2 millj. Og þó að við fengjum sömu tekjur og 1928, þá eru ekki líkur fyrir annað en það verði tekjuhalli, sem nemi ½ millj. kr., og ég ætla að láta hvern og einn hafa sitt álit um það, hvort tekjurnar 1932 verði meiri en 1928. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram, til þess að hv. dm. yrði ljós niðurstaðan. Ég segi ekki, að ég í þessu efni tali fyrir hönd n., en ég þykist hafa athugað þetta svo vel, að ég hafi fulla ástæðu til að setja fram mína skoðun, og ég hygg, að hún styðjist við skoðanir meiri hl. fjvn.

Ég skal þá víkja nokkrum orðum að brtt. hv. dm. og segja frá afstöðu n. til þeirra. Þá verður fyrst fyrir brtt. frá hv. 2. landsk., sem er sparnaðartill., og fer hún fram á það, að borðfé konungs verði greitt í ísl. kr. Ég vil geta þess, að n. er á móti till. Það hefir verið tekin upp sú regla, að greiða borðfé konungs í dönskum kr., hvort sem það er nú rétt eða ekki, og ég sé ekki, að hægt sé að breyta frá því sem verið hefir. Ég vil gjarnan virða vilja hv. 2. landsk., sem kemur fram í þessari sparnaðartill., en því verður ekki neitað, að hann virðist eiga sinn bróðurpart í þeirri hækkun á útgjaldahlið fjárl., sem komið hefir fram. Mér hefir fljótlega reiknazt svo til, að af þessum 670 þús., sem farið er fram á, eigi hv. 2. landsk. till., sem nema 570 þús. kr.

Ég verð þá að taka brtt. í þeirri röð, sem þær eru í á þskj. Þá kem ég að brtt. frá hv. þm. Hafnf. um styrk til Kjartans Ólafssonar augnlæknis, og er n. óbundin um þessa till.

Þá er það brtt. frá hv. 2. landsk. um að veita Jónasi Sveinssyni styrk til dvalar erlendis í 2 ár. Meiri eða mestur hl. n. er á móti því, að þessi styrkur verði veittur. 1. er fyrst og fremst ekki sérstaklega kunnugt um, hvernig þessu er varið, og hún veit ekki, hvernig fjárhagur þessa manns er. Það getur vel verið, að hann sé efnaður og geti kostað sig til námsins.

Um V. brtt., frá hv. 1. landsk., er það að segja, að n. er óbundin um hana. Meiri hl. mælir með till. um Breiðadalsheiðarveg og þarf ég ekki frekar um það að ræða.

Þá er það brtt. frá hv. 4. landsk., um að hækka styrkinn til Holtavörðuheiðarvegar úr 30 þús. kr. í 60 þús. kr. Því verður ekki neitað, að það væri gott að geta lagt meira fram til verklegra framkvæmda. En ef framlag ríkissjóðs verður hækkað til eins af vegunum, þá er viðbúið, að þurfi að hækka við fleiri. Það er óneitanlega víða engu minni þörf á að leggja veg en yfir Holtavörðuheiði. Þó að ekki sé nema ruddur vegur þar, þá er hann þó alltaf fær á sumrum. Meiri hl. n. treystir sér ekki til að auka við útgjöldin eða breyta neitt verulega til um framlag til vega í frv. og getur þess vegna ekki fallizt á þessa brtt.

Þá er það brtt. frá hv. 2. landsk. um Fjarðarheiðarveg. Mér skildist af ræðu hans, að hér væri um það að ræða að ryðja Fjarðarheiði, svo að hún yrði fær fyrir bíla. Það hefir ekki legið neitt fyrir n. um þetta, og ég veit ekki, hvort það er til nokkurs gagns að leggja peninga í að ryðja heiðina. Vitanlega myndu þessar 20 þús. hrökkva skammt til þess, því verkið mun vera mjög mikið og dýrt. Það getur verið rétt að ryðja heiðina, því allir vita, að upphleyptur vegur gerir ekkert gagn nema um örstuttan tíma. N. er óbundin um till.

Þá kemur stærsta till. frá hv. 2. landsk., sem fer fram á, að 400 þús. kr. verði varið til að leggja nýjan veg milli Hafnarfj. og Rvíkur eða til að endurbæta gamla veginn. Nú finnst mér, að því verði ekki neitað, að það sé engin aðkallandi þörf á nýjum vegi vegna samgangnanna milli Hafnarfj. og Rvíkur. Mér hefir fundizt þar svo greiður vegur, að það væri engin knýjandi þörf á að leggja nýjan veg. Auk þess er ég ekki alveg viss um, að það séu allar ferðir nauðsynlegar milli Hafnarfj. og Rvíkur. Annars get ég raunar látið mér það í léttu rúmi liggja, þó að menn fari það líka sér til gamans.

Það liggur í orðum hv. þm., að þetta eigi að gera til þess að láta fólkið fá atvinnu. Þetta get ég nú skilið, því að hér er um að ræða atvinnu handa Hafnfirðingum og Rvíkingum. En mér virðist, að ef ríkissjóður á að fara að leggja fram mörg hundruð þús. kr., þá verði Rvík og Hafnarfj. eitthvað að gera. En það virðist ekki koma fram í þessu, að heimtað sé, að þessir kaupstaðir geri neitt. Ég ætlast samt ekki til, að þeir kosti veginn. En vafalaust geta þeir gert eitthvað innan síns bæjarfél., sem a. m. k. samsvarar þessu, sem hér er farið fram á. Svo virtist mér koma fram hjá hv. þm., að ekki væri búið að slá neinu föstu um það, hvort gamla veginn ætti að byggja upp eða hvort ætti að leggja nýjan veg. Það er yfirleitt ekki búið að rannsaka, hvort er hentugra, og þess vegna finnst mér þessi till. eiginlega fæðast fyrir tímann, meðan maður veit ekki, hvar á að leggja þennan veg. Ég held því, að ef hv. þm. hefir eingöngu litið á þetta sem atvinnubótamál, þú sé nauðsynlegt fyrir hann að hafa einhverja varatill., t. d. að meðan væri verið að koma sér niður á það, hvar ætti að leggja þennan veg, fengju menn að aðhafast eitthvað, þótt ekki væri annað en t. d. að moka snjó uppi á Langjökli eða þvílíkt. Meiri hl. n. er á móti till.

Þá eru hér tvær till. um flóabátaferðir Það hefir nú verið venjan, að samgmn. hafi tekið afstöðu til framlaga til flóabátaferða og haft mest með þessi mál að gera. En ég hefi ekki orðið þess var, að nú hafi komið fram neitt þesskonar. Hv. þm. Snæf. talaði um það, að það væri fækkað ferðum til Breiðafjarðar með því fyrirkomulagi, sem nú á að vera á ferðum Suðurlands. Þetta er víst rétt hjá honum. En ég hefi skilið hann svo, að í notum þess, að nú eru tvö strandferðaskip og þau fara til Breiðafjarðar, þá megi spara ferðir Suðurlands til Breiðafjarðar. Annars hefir fjvn. í heild sinni ekki tekið afstöðu til þessara brtt.

Þá er hér till. frá hv. þm. Snæf. um framlag til hafnarbóta í Ólafsvík, 20 þús. kr. Eins og hv. dm. vita, flytur fjvn. till., um sama efni í rauninni, þar sem hún leggur til, að ríkissjóður leggi fram 7 þús. kr. gegn tvöföldu framlagi annarsstaðar frá. Hv. þm. talaði um það í dag, að það væri alls ekki rétt að binda fjárveitingar úr ríkissjóði til hafnargerðar við 1/3. Þetta hefir að vísu oft verið ríkjandi regla. En ég vil benda hv. þm. á það, að í lögum um hafnargerð í Ólafsvík er ákveðið, að ríkissjóður leggi fram ¼ og ¾ komi annarsstaðar að. Þess vegna álít ég, að fjvn. hafi gert vel, þar sem hún býður fram 1/3 úr ríkissj., sem er meira en l. um hafnargerð í Ólafsvík gera ráð fyrir. Meiri hl. mun fylgja þeirri till., sem n. ber fram.

Þá er hér till. um 10 þús. kr. til hafnargerðar á Sandi, frá hv. 2. landsk. Mestur hl. n. er á móti þessari till. Fyrir n. veit ég ekki til, að hafi legið gögn um þessa hluti, og hún sá sér alls ekki fært að taka slíka till. sem þessa, þar sem ómögulegt var að gera sér grein fyrir málinu á nokkurn hátt.

Um næstu till. frá hv. þm. Snæf., til bryggjugerða og lendingarbóta, hefir n. óbundnar hendur. Sama er að segja um XIV. till., frá hv. þm. Hafn., um kennslu í geðsjúkdómafræði, að n. er þar óbundin um atkvgr. Ennfremur get ég sagt það sama um till. frá hv. 1. þm. Reykv., um styrkinn til Stúdentaráðs háskólans.

Þá koma næst till. frá hv. 2. landsk., styrkir til náms erlendis, sem hv. þm. vill láta hækka úr 24 þús. upp í 30 þús. kr. N. er öll á móti þessari till. Hún vill sem sé halda við þá reglu, sem upp er tekin um þetta mál, og þykir ekki rétt í þeirri peningaþröng, sem nú er fyrir ríkissj., að fara að hækka þessi fjárframlög, þar sem hefir orðið að lækka svo mörg önnur. Sama er að segja um 2. lið XVI. brtt., að þar er n. á móti.

Þá er brtt. undir XVII. lið, frá hv. 1. þm. Reykv., í 3 liðum. Um þá liði alla er það að segja, að 4/5 hlutar n. eru á móti öllum till. Mér er frekar óljúft að fara frekar út í það, því að um einstaka menn og styrki til þeirra vil ég helzt ekki ræða, en aðeins skýra frá afstöðu n.

Um XVIII. lið, styrk til Maríu Hallgrímsdóttur til framhaldsnáms í læknisfræði, er það að segja, að n. er öll á móti aðaltill., en hefir óbundnar hendur um varatill.

Um styrk til Soffiu Stefánsdóttur til að halda uppi námsskeiðum í teikningu og tréskurði er n. óbundin.

Þá kem ég að brtt. XX. og XXI, sem eru mjög skyldar. Sú fyrri er frá hv. 2. landsk., en hin frá hv. þm. Hafnf. Viðvíkjandi þeirri um framlag til bókasafns Hafnarfj. er það að segja, að meiri hl. n. er á móti henni. Ég geri ráð fyrir, að hv. 2. landsk., sem flytur þessa till., vilji miða þetta við það, sem á sér stað á Akureyri og Ísafirði. En þess ber að gæta, að á þeim báðum stöðum eru amtsbókasöfn, en hér er aðeins um bæjarbókasafn að ræða. Og n. getur ekki fallizt á, að það geti notið sömu hlunninda og hin bókasöfnin. Það er líka vitanlegt, að aukastyrkur sá, sem bókasöfnin á Akureyri og Ísafirði hafa fengið, er miðaður sérstaklega við þá menn, sem starfa við bókasöfnin. Báðir þessir menn eru skáld, og það er að mínu áliti rétt, að landið stuðli að því, að þessir menn fái tækifæri til þess að hafa nokkurn stuðning sér til lífsframfæris á þennan hátt.

Þá er XXII. brtt., frá hv. 1. þm. Reykv. Það er fyrst, að aths., sem sett var í Nd. við styrk til Leikfél. Reykjavíkur, falli niður. Ég vil aðeins skýra frá því, að meiri hl. n. er á móti þessari till. Sama er að segja um till. um tónlistarskóla, frá þessum sama hv. þm. Um till. hans um styrk til Péturs Jónssonar söngvara hefir n. óbundnar hendur. Einnig um styrk til Þorvaldar Skúlasonar til að fullkomna sig í málaralist.

Þá er hér till. frá hv. 2. landsk. um styrk til dr. Guðbrands Jónssonar til að semja ísl. miðaldamenningarsögu. N. er öll á móti henni. Ég sé ekki ástæðu til að fara út í það nánar. Þessi maður hefir haft styrk í nokkrum undangengnum fjárl. til slíks verks eða svipaðs. En mér er ekki kunnugt um það, hvort eða hvað mikið hann er búinn að vinna í þessu efni. Það lá ekkert fyrir n. um það, sem hún gæti byggt neitt á. Þess vegna er hún á móti till.

Þá er XXV. brtt., um styrk til landssýningar Heimilisiðnaðarfélagsins, hefir óbundin atkv. um þá hækkun, sem farið er fram á.

XXVI. brtt. er n. á móti.

Þá er till. um 2 þús. kr. framlag til Kvenfélagasambands Íslands, og um það er n. óbundin.

Þá er smátill. frá hv. þm. A.-Húnv. um styrk til fiskiræktarfélags á Blönduósi. Aðaltill. er um 700 kr., og er n. á móti því, en óbundin um varatill., 500 kr.

XXX. brtt. er um það að veita Sjómannafél. Rvíkur 10 þús. kr. til að halda uppi sjómannastofu. N. leggur á móti þessari till., ekki af því, að ekki kunni að vera einhver þörf á þessu, en ég hefi heyrt, að hér sé starfrækt einhver þesskonar stofa í bænum. Og þar sem við yfirleitt verðum að spara útgjöld, þá sér n. ekki fært að stofna til nýrra útgjalda í þessu skyni.

Sama er að segja um næstu till., 8 þús. kr. til ráðningarskrifstofu Alþýðusambands Íslands.

Þá kemur hér till. um framlag til ræktunarvegar á Sauðárkróki gegn annarsstaðar frá, 9 þús. kr. Fyrir n. hefir ekkert legið um þetta, og ég verð að játa það, að mér er ekki vel ljóst, hvað hv. 2. landsk. á við með brtt. Ef hér er um sýsluveg að ræða, þá er það nú svo, að ríkissj. leggur fram helming til þeirra, svo að ef till. er samþ., er skaði fyrir Sauðárkrók að fá ekki nema 1/3 úr ríkissj. En ef það er misskilningur, að hér sé um sýsluveg að ræða, þá ætti þarna að vera hreppavegur, ef annars vantar veg. Og ég held, að ef gengið er inn á þessa braut, þá mundi komast allmikill ruglingur á það skipulag, sem annars hefir verið á vegalögunum, með því grípa þannig inn í á einstökum stöðum um sérstakt framlag úr ríkissjóði. N. getur þess vegna ekki fallizt á þessa till.

Þá er XXXI. brtt., frá hv. 2. þm. Árn., um 1000 kr. til Guðmundar Jónssonar á Stokkseyri. N. er á móti þessari till.

Þá er farið fram á að hækka styrkinn til Stórstúkunnar úr 8 þús. upp í 10 þús. Meiri hl. n. er með þessari till.

Þá kemur hér till. frá hv. 6. landsk. um byggingarstyrk til barnaheimilisins að Sólheimum í Grímsnesi, 10 þús. kr. Í yfirstandandi fjárl. eru veittar til þessa hælis um 5 þús. kr. En þau skjöl, sem fyrir n. lágu, sýndu, að það er ekki Prestafél., sem sækir um þetta, þótt orðalag till. bendi á það, heldur kona, sú hin sama og styrkurinn var veittur í fjárl. 1931. Nú hygg ég, að ég hafi skilið það rétt hjá hv. flm., að það sé Prestafél. Íslands, sem hefir keypt jörðina og leigt þessari konu til afnota, en hún byggt þarna hús og komið upp barnaheimilinu. Það stendur þá þannig, að sinn eigandi er að hvoru, jörðinni og byggingunni. Mér skilst, að Prestafél. hafi að nokkru leyti gengizt fyrir þessu. En strangt tekið er það ekki, ef um er að ræða byggingar, sem þarna hafa verið reistar, og þá að sjálfsögðu að því er snertir búpeninginn.

Nú má vel vera, að gott samkomulag haldist um þetta í framtiðinni. En þeir, sem þekkja nú dálítið til í veröldinni, munu illa geta treyst á svona lagaða samninga, eða réttara sagt — að því er mér skilst — samningsleysi. Mér virðist því í raun og veru, að þarna sé dálítil veila, að ríkissjóður leggi til fyrst í fjárl. 1931 5 þús. kr. og nú 10 þús. kr. Þá er hann búinn að leggja fé í hús, sem er privateign, 15 þús. kr. Ég hefði þess vegna kosið, að fyrirkomulag á þessu væri eitthvað dálítið annað. En nú má ekki heldur gleyma því, að það eru fleiri barnaheimili stofnuð en þetta. Það hefir verið látið í veðri vaka, að þau yrðu stofnuð hér og þar um landið. Og ef ríkissjóður á að taka þau öll að meira eða minna leyti á sína arma, þá hlýtur það að verða töluverður baggi. Ekki svo að skilja, að ég sé að halda fram, að þetta séu ekki góð fyrirtæki. En mér virðist, að ekki sé eins vel um hnútana búið eins og þyrfti að vera. Meiri hl. n. mælir því á móti þessari till. Það mun hafa komið fram varatill. frá hv. 2. þm. Árn. einmitt um þetta atriði. Um hana get ég ekkert sagt, því að n. hefir ekki tekið afstöðu til hennar.

Þá er hér till. frá hv. 6. landsk. um hækkun á styrk til Elliheimilisins Grundar. Í frv. eru 5 þús. kr., en hér er farið fram á hækkun upp í 10 þús. kr. Mér dettur ekki í hug að segja, að hér sé ekki um gott fyrirtæki að ræða. Yfirleitt er svo um margar þær till., sem hafa komið fram, að þær eiga mörgu góðu að koma í verk. En það er nú svo, að á þessum tímum verða líklega bæði einstaklingar og félög og ríkið sjálft að neita sér um ýmislegt nauðsynlegt, sem dýrt er að veita sér. Þegar svo horfir framundan, að menn sjá ekki fram á það, hvernig þeir geti farið að komast fram úr erfiðleikunum, þá er það nú svo, að ekki virðist varlegt að leggja fé jafnvel í góða hluti. Og það er einmitt þetta atriði, sem er þess svo mjög valdandi, að meiri hl. n. leggur á móti ýmsum þessum till., jafnvel þótt góðar séu. Ég veit ekki annað en að nágrannaþjóðirnar séu nú sem óðast að reyna að finna leiðir til að spara sér útgjöld.

Næst er lítil brtt. frá hv. 2. þm. N.-M., sem n. hefir óbundnar hendur um við atkvgr.

Þá kem ég að brtt. frá hv. 6. landsk. um 1200 kr., og til vara 1000 kr., til frú Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Um hana hefi ég ekki annað að segja en að n. hefir orðið sammála um að mæla á móti því, að hún verði samþ.

Þá koma till. nr. XXXIX og XL, og hefir n. óbundnar hendur um þær.

Næst eru 3 till. frá hv. 2. þm. S.-M., þar sem hann fer fram á þrennskonar ábyrgðir. Sú fyrsta er á þá leið að ábyrgjast 15 þús. kr. viðbótarlán fyrir Búðahrepp í Fáskrúðsfirði, til rafvirkjunar. N. sá sér ekki fært að mæla með þessu, enda er þarna um svo litla upphæð að ræða, einar 15 þús. kr., að n. vonast til þess, að hreppnum takist að fá þetta lán án ríkisábyrgðar.

Um næstu till., um að ríkisstj. ábyrgist 25 þús. kr. viðbótarlán til barnaskólabyggingar í Neskaupstað í Norðfirði, hafa einstakir nm. óbundnar hendur við atkvgr., en n. sá sér ekki fært að mæla með þessari ábyrgð.

Þá er 3. till. Hún er þess efnis, að ganga skuli í ábyrgð fyrir samvinnufél. Eskfirðinga fyrir láni til kaupa á fiskiskipum, allt að 4/5 kaupverðs skipanna, fullbúnum til fiskveiða, allt að 50 þús. kr. Slíkar till. eru ekki nýjar, þær hafa komið fram á mörgum undanförnum þingum, frá ýmsum kaupstöðum og sjóþorpum. Ég vil aðeins láta þá skoðun í ljós, að mér finnst það varhugaverð braut fyrir ríkissjóð að ganga inn á, sem brtt. gerir ráð fyrir. Ef þessu héldi áfram, yrði endirinn sá, að allur smærri sjávarútvegur væri rekinn með ríkisábyrgðum allt í kringum land. Ég verð að segja það, að mér finnst ekki mikill vandi að koma á fót samvinnufél., ef ríkissjóður er alltaf reiðubúinn til þess að ganga í ábyrgð fyrir það. Samvinnufél. eiga ekki að byggja fyrst og fremst á ríkisábyrgðum. Það er rétt, sem hv. flm. sagði, að heimildir svipaðar þeim, sem hér er farið fram á, hafa áður verið í fjárl. bæði fyrir Eskifjörð og Akureyrarkaupstað. Meðan þær heimildir voru í gildi, var leitað til stj. frá báðum stöðum til þess að fá þær notaðar. Ég var þá fjmrh. og ég neitaði báðum, og það er skoðun mín, að í slíkum tilfellum verði stj. að hafa vit fyrir þinginu. Nú hefir verið sett inn í fjárl. samskonar ábyrgð fyrir Seyðisfjörð. N. hefir ekki tekið afstöðu til þess liðar, og vildi ég því mælast til þess, að hv. flm. taki till. sínar aftur til 3. umr., og gæti hugsazt, að hægt væri að komast að samkomulagi við n. um að bera hana fram, ef hún tekur þá ekki það ráð að leggja á móti till. um ábyrgð fyrir Seyðisfjörð.

Þá er síðasta till., sem er borin fram af hv. 2. landsk. Hún er þess efnis, að ríkisstj. sé heimilað að greiða peningastyrk til atvinnulausra manna í kaupstöðum og kauptúnum, er nemi 100 þús. kr. Mér finnst allt of lítið skipulag á þessari till., enda held ég, að hún geri ekki mikið gagn. Bæði er það vitanlegt, að þeir verða ekki nema fáir, sem geta notið þessa styrks, og hætt er við, að hann komi mjög ójafnt niður. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. telji, að með þessu sé hægt að bæta úr brýnustu þörf. En ég held, að mjög yrði erfitt að úthluta þessum fjárstyrk, og þar sem ekkert fé er fyrir hendi, yrði stj. að fá lánsheimild til þess að geta framkvæmt þennan lið, ef hann yrði að lögum. N. leggur því til, að þessi brtt. verði felld.

Ef til vill þykir hv. þdm., að n. hafi tekið hörðum höndum á ýmsum brtt., en hún sá sér ekki annað fært, þótt hún hefði gjarnan viljað verða við ýmsum þeim beiðnum, er fram komu, ef öðruvísi hefði staðið á.

Vegna ummæla, sem komið hafa fram. ætla ég að gera sérstaka grein fyrir einni till. n. Þar er farið fram á, að felld sé niður aths. við 17. gr. 1. Það er sjúkrastyrkur til Elínar Sigurðardóttur. Það er rétt, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að þessi styrkur hefir áður verið í fjárl. En hann hefir ekki verið í tveimur síðustu fjárl., og þegar hann var veittur, var hann veittur beinlínis sem sjúkrastyrkur á allt annari grein fjárl. En auðvitað verður þingið að ákveða, hvort það vill taka slíkt fólk á framfæri fyrir ríkissjóðs hönd. En að setja það þannig í samband við berklavarnalögin, er gersamlega óheimilt. Hv. þm. Snæf. óskaði eftir því, að n. tæki aftur þessa brtt. sína vegna nýrra upplýsinga, sem hann hefði fengið í málinu. Þrátt fyrir það, að ég búist ekki við, að þetta breyti miklu, hefi ég fyrir mitt leyti ekkert á móti því að taka till. aftur til 3. umr. Ég veit aðeins eitt dæmi þess, að sett hafi verið slík aths. við almennar fjárveitingar; það var við berklavarnalögin um sjúkling, sem var erlends. En með sjúklinga, sem dvelja hér á landi hefir slíkt ekki verið gert fyrr. Og með því að setja þetta í lögin nú, skapaðist hættulegt fordæmi, sem erfitt væri að ganga framhjá. Það lágu nokkrar líkar beiðnir fyrir n., en hún þóttist ekki geta mælt með þeim. Þetta er ekki af því, að ég sé á móti opinherri hjálp til bágstadds fólks, en ég held, að fara verði einhverja aðra leið en þessa.

Þá verð ég loks að játa mig sekan í því að flytja sjálfur tvær brtt., sem báðar fara fram á hækkun. Sú fyrri er nr. XXXII á þskj. 297, og er þar farið fram á 1000 kr. fjárveitingu til Ottós Baldvins frá Akureyri, til flugnáms. Þetta er ungur piltur frá Akureyri, á fátæka foreldra og fór að ráði manna hér, sem fást við flugmál, til Ameríku. Hann komst þar í flugskóla og var þar nokkurn tíma við nám. En það varð svo kostnaðarsamt, að hann varð að hætta. Nú hefir hann skrifað heim og beðið um aðstoð. Ég býst við, að þessar 1000 kr. hrökkvi skammt, en ég treysti mér ekki til þess að fara fram á hærri upphæð. Vona ég, að hv. d. verði vel við þessari beiðni.

Mér láðist að geta um eina brtt. fjvn. Það voru eftirlaun til Lárusar Rists, 600 kr. Þessi maður hefir lengi verið leikfimikennari við Akureyrarskóla, en hefir nú orðið að hætta sökum elli. Hann hefir við fremur erfiðar heimilisástæður að búa, og n. hefir, eftir að hafa leitað sér upplýsinga, lagt eindregið til, að honum verði veitt eftirlaun sem öðrum kennurum.