03.08.1931
Efri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í C-deild Alþingistíðinda. (2483)

150. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Flm. (Jón Jónsson):

Það hefir oft komið til orða áður hér á Alþingi að hækka bifreiðaskattinn, til þess að láta hann mæta meira en hann nú gerir því aukna viðhaldi akveganna, sem bílarnir hafa haft í för með sér. Fyrir síðasta þingi lá þannig frv. um þetta efni, sem mþn. í skattamálum hafði samið, en frv. náði ekki fram að ganga. Höfum við hv. 2. þm. Eyf. nú tekið þetta frv. upp og leyfum okkur að flytja það hér í þessari hv. d., en nokkrar breyt. höfum við gert á frv., og skal ég síðar víkja að þeim nánar. Vil ég áður leyfa mér að gera stuttlega grein fyrir þeim ástæðum, sem við flm. þessa frv. teljum, að einkum liggi til þess, að nauðsynlegt sé að setja slík lög sem þessi.

Eins og kunnugt er, hefir miklu fé verið varið undanfarið til lagningar akvega um landið. Árangurinn hefir og orðið sá, að bílfærir þjóðvegir munu nú alls ná 1500 km. og bílfærir sýsluvegir nokkur hundruð km. Hafa þessar framkvæmdir, svo sem sjálfgefið er, veitt stórum bætta aðstöðu þeim sveitum, sem þessara bættu samgangna njóta, en jafnframt orðið til þess að auka útgjöld ríkisins að miklum mun. Sést þetta bezt á því, að árleg útgjöld ríkissjóðs til vegaviðhalds hafa á síðustu 10 árum hækkað úr 100 þús. kr. upp í 500 þús. kr. Er þetta mikil aukning, enda tel ég, að vel megi draga í vafa, að ríkissjóði sé ekki ofraun að þessu fyrirkomulagi, sem nú ríkir í þessum efnum, þar sem ríkið fyrst er látið gefa héruðunum vegina og síðan skuldbundið til að halda þeim við með ærnum tilkostnaði. Auk þess er á það að líta, að framlögum ríkissjóðs til vegamálanna er mjög misskipt á milli landsins barna með þessu móti. Sumsstaðar er mikið um akvegi, annarsstaðar lítið og jafnvel ekkert. Á Vestfjarðakjálkanum er t. d. lítið af vegum; mun svo, að ekki sé að finna bílfæran vegarspotta þar í tveim sýslum. Á Austfjörðum er einnig lítið um bílfæra vegi, þegar frá er talin Fagradalsbraut. Hinsvegar er í ýmsum öðrum héruðum landsins fjöldi akfærra vega, og sýnir það misræmið, sem í þessum efnum er. Fyndist mér nær sanni, að þeir, sem aðallega nota og, njóta veganna, væru skyldaðir til að kosta viðhald þeirra að meira leyti en nú, og gæti þá ríkið varið mismuninum til vegalagningar í þeim héruðum, sem enga vegi hafa, svo að talizt geti. Liggur í augum uppi, að þessar vegalagningar, sem gerðar hafa verið undanfarið, hafa ekki verið heilbrigðar, ef notendur þessara vega hafa þeirra ekki það gagn, að þeim sé gróði að vegunum, því að þeir þurfi að láta eitthvað í aðra hönd fyrir að fá að nota þá. Nú held ég, að flestir séu sammála um, að vegalagningar séu heilbrigð fyrirtæki, og fyndist mér því sanngjarnt, að veganotendunum væri gert að greiða viðhaldskostnað veganna að sínu leyti, og sá kostnaður ekki lagður að jöfnu á þá landsbúa, sem við vegleysi þurfa að stríða, sem hina, er nóga og góða hafa vegina. Þetta fyrirkomulag tefur og um ófyrirsjáanlegan tíma, að við náum þangað, sem á að vera takmark okkar í vegamálunum — akvegir um allar byggðir landsins og helzt heim á hvern bæ.

Eins og ég áður sagði, virðist öll sanngirni mæla með því, að veganotendunum sé gert að greiða eitthvað fyrir þessi fríðindi, sem ríkið lætur þeim í té, og að lagður sé á það ríflegur bílskattur, að hann mæti viðhaldskostnaði veganna að meira eða minna leyti. Þetta er og viðurkennt með öðrum þjóðum, og nágrannaþjóðir okkar hafa lögfest allrífan bifreiðaskatt, til þess að ná þessu marki. Að vísu var hér stigið spor í þessa átt með bifreiðaskattslögunum frá 1921, en þar var sporið allt of skammt stigið, þó að betur væri en óstigið. Mér er það vel ljóst, að mjög getur orkað tvímælis, hvort sú leið til álagningar þessa skatts, sem við flm. þessa frv. höfum varðað, er sú réttasta. Það getur auðvitað verið deiluefni. hvort skatturinn á að vera þungaskattur, hestorkuskattur eða benzínskattur. En eðlilegast virðist að miða við það slit, sem ætla má, að vegirnir verði fyrir af völdum bílanna, og hygg ég, að þar sé benzín- og gúmmínotkunin hinn rétti mælikvarði. Hinsvegar mælir óneitanlega margt með því, að tekið sé tillit til þess, hversu þörf eða óþörf umferðin er, og að þannig sé tekinn hærri skattur af mannflutningabifreiðum en vörubílum, sem flytja meiri eða minni nauðsynjar á milli manna. Höfum við flm. frv. reynt að samríma þessar tvær skoðanir, svo sem við bezt gátum, en auðvitað má um það deila, hversu vel hefir tekizt. En ég held, að mér sé óhætt að segja, að við erum báðir tveir fúsir til samkomulags um breyt. á hlutföllum þessara skatta innbyrðis, allt hvað þær breyt. miða ekki að því að lækka skattinn til ríkisins í heild sinni.

Ég hefi þá í höfuðdráttunum gert grein fyrir þeim ástæðum, sem fyrir þessu frv. eru, og skal nú með nokkrum orðum víkja að þeim breyt., sem við flm. gerðum á frv., frá því sem það var í vetur. Aðalbreytingin er á 8. gr. frv. Við sáum ekki ástæðu til að taka það fram í frv., hversu mörg % af skattinum skyldu fara til malbikunar á vegum annarsvegar, og hinsvegar til annars viðhalds, eins og gert var í upphaflega frv. Er eðlilegast, að vegamálastjórnin ákveði í hverju einstöku tilfelli, hvernig þessu skuli haga. Þá leggjum við og til, að meiru af skattinum sé varið til viðhalds á sýsluvegum en frv. í vetur gerði ráð fyrir, og að fjárveitingar í því skyni séu ekki eins ströngum skilyrðum bundnar og þar var. Lagningum sýsluvega miðar mjög ört áfram, eins og kunnugt er, og eykst bifreiðaumferðin að sama skapi. Afleiðingin er auðvitað sú, að viðhaldskostnaðurinn vex hröðum fetum, og mun þegar orðinn ofvaxinn ýmsum sýslufélögum. Í einu héraði, þar sem ég er kunnugur og þar sem vegaskatturinn nemur 6% af fasteignamati, er skatturinn alls um 5000 kr., en til vegaviðhalds eingöngu hefir þetta hérað orðið að verja 10–12 þús. kr. á ári, og sjá þá allir, að ekki verður mikið eftir til nýlagninga hjá þessu sýslufélagi, svo illt sem það er að láta svo heilbrigðar framkvæmdir niður falla. Og sömu sögu mun að segja úr fleirum héruðum. Það virðist því réttmætt að láta sýslufélögin fá sinn hluta af þessum skatti og að honurn yrði ekki síður varið til viðhalds sýsluvegum en þjóðvegunum. Höfum við flm. hugsað okkur, að skatturinn kæmi hlutfallslega niður á sýslurnar, þannig að þær sýslur, sem legðu meira í kostnað vegna vegaviðhalds, fengju meira af skattinum en aðrar sýslur, sem lítil útgjöld hafa af þessum ástæðum. Höfum við og ekki gert ráð fyrir, að framlagið sé bundið því skilyrði, að sýslurnar leggi fram fé á móti, eins og gert var í upphaflega frumvarpinu.

Að endingu vildi ég óska, að hv. d. vildi lofa frv. þessu að ganga í gegnum deildina, og að því verði vísað til fjhn.