19.08.1931
Efri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

1. mál, fjárlög 1932

Jón Baldvinsson:

Svo mætti virðast sem það væri eitthvert stórvægilegt málefni, sem hv. þm. Hafnf. og hv. 5. landsk. deila um. En um það stendur deilan, að hv. þm. Hafnf. vill veita 2 þús. kr. fjárveitingu þar sem hv. 5. landsk. vill veita 1 þús.

Það er ekki sjaldan, að róið er á geðveikismiðið hjá hv. 5. landsk. Aldrei hefir hér á landi nokkrum stjórnmálamanni verið rétt betra vopn af andstæðingi en hv. 5. landsk. var rétt í hönd af flóni því, sem kom „stóru bombunni“ af stað. Áður en það skeði býst ég að vísu við, að hv. 5. landsk. hafi átt dálítið — ekki mikið — fylgi, en enga „sympatiu“, en „stóra bomban“ veitti hvorttveggja, og hv. 5. landsk. hefir gert sér oft og tíðum mikinn mat úr þessu, svo að umr. um þetta mál eru orðnar vægast sagt heldur ógeðfelldar. Það er ekki fyrir tilverknað hv. 5. landsk. sjálfs, að hann er svona, umþráttuð persóna og hefir haft svona mikil áhrif. Það eru andstæðingar hans í flokki sjálfstæðismanna, sem hafa slegið honum svona upp. Langmesti uppsláttur hans var þó geðveikismálið, og á því miði er hann sífellt að fiska, svo ég held, að það fari bráðum að verða uppurið.

Ýmislegt kom fram í umr. hv. 5. landsk. um læknana, sem var frekar spaugilegt, en ég ætla ekki að fara út í það frekar. En það kom ýmislegt fram í skjölum þeim, sem hv. 5. landsk. las upp, sem sýnir svo glöggt hugarþel ýmsra lækna til fátækasta hluta landsmanna, að ég get ekki stillt mig um að fara um það fáeinum orðum. Mér er vel kunnugt, að margir læknar veita fátæklingum mikla og óeigingjarna hjálp, og má þar t. d. nefna Matthías Einarsson, sem öllum fátæklingum, er til hans hafa leitað, er kunnur að góðu einu. Hv. 5. landsk. las áðan upp bréf frá landlækni. Það var viðvíkjandi reikningi út af sjúkrahjálp þurfalings eins. Ég hefi ekkert við reikninginn að athuga, en mér þótti tónninn í bréfinu sýna greinilega hugarþel þessara háu herra til smælingjanna. Í bréfinu stendur: „Við reikninginn hefi ég ekki annað að athuga en það, að óþarflega hár kostnaður virðist þetta vera út af einum þurfalingi“. Þetta bréf er dags. 8. marz 1922. Landlækni þykir aðeins ástæða til þess að tala um þennan mikla kostnað, af því að sá, sem í hlut átti, var þurfalingur. — En athugum nú, á hvaða tíma þetta er. Árið 1922 var enginn landsspítali til, þá var ekki búið að byggja Kristneshælið, ekki búið að byggja spítalann á Ísafirði, ekki búið að byggja berklahælið í Kópavogi, ekki heldur hælið á Reykjum í Ölfusi. Síðan hafa ótal sjúkraskýli verið byggð víðsvegar um land. Þá hefir líklega ekki verið um annan spítala hér að ræða en franska spítalann, fyrir utan Landakot, sem alltaf var troðfullt. Fyrir sjúklinga utan af landi var því ekki nema um tvennt að ræða í mörgum tilfellum, annaðhvort vera sendir heim á sína sveit til þess að deyja drottni sínum, eða reyna að hola þeim niður í þessa tvo spítala. Í bréfi frá landlækni er ennfremur talað um menn, sem hafi ólæknandi kvilla, og fundið að því, að þeir skuli vera látnir liggja á spítölunum. Þarna kemur fram sami kuldinn og áður í garð þeirra, sem bágt eiga. Ég held, að hv. 5. landsk. hefði ekki átt að hampa þessu bréfi eins mikið og hann gerði; þótt það ætti að vera til þess að þjóna hans illa málsstað, hefir það gert annað, opinberað hug þessara háu embættismanna landsins til smælingjanna, þeirra, sem við bágust kjör eiga að búa.

Hv. 5. landsk. og hv. þm. Hafnf. hafa deilt hér allfast í kvöld. En það hefir verið smávægilegt karp um persónulega smámuni. Í aðalatriðunum, hinum stærri þjóðmálum, eru báðir þessir hv. þm. alveg sammála. M. a. hefir hv. þm. Hafnf. stuðlað að því, að hv. 5. landsk. gengur til sængur í kvöld sem ráðh. Þegar það verður tilkynnt í Sþ. á morgun, að hv. 5. landsk. sé orðinn ráðh., þá á hann það að þakka fyrst og fremst geðveikralækninum fyrrv. á Kleppi, hv. þm. Hafnf. og öðrum sjálfstæðismönnum. Það er stóra bomban í fyrra og aðgerðir sjálfstæðismanna á þinginu í sumar, sem gefa framsóknarmönnum nú tækifæri til þess að setjast í stjórnarsætið, í stað þess að ganga til kosninga í haust. —

Ég ætla þá að hverfa frá þessu óskemmtilega efni og snúa mér að aðalefni kvöldsins, umr. um einstakar brtt. við þessa umr. fjárl.

Á þskj. 374 ber ég fram brtt., sem fer fram á ríkisábyrgð fyrir samvinnufél. sjómanna á Siglufirði. Plögg þessu viðvíkjandi voru send til Alþ. í vetur, en svo undarlega vildi til, að þau töpuðust í meðförunum. Á Siglufirði hefir verið stofnað samvinnufél. sjómanna, og hefir bæjarstj. þar samþ. ábyrgð fyrir 300 þús. kr. handa því til skipakaupa. — Nú eru komnar inn í fjárl. ábyrgðir, sem eru ætlaðar til þess að hrinda þessum fyrirtækjum af stað. Alstaðar er sama sagan: gömlu fyrirtæki einstaklinganna hrynja í rústir, og þá tekur fjöldinn til sinna ráða með að byggja upp á ný. Og þessi viðleitni sjómanna víðsvegar um land til þess að bjarga atvinnuvegunum með því að stofna samvinnufélög, er glöggur vottur um aukið félagslyndi og þroska hjá ísl. alþýðu. Það sýnist ekki vera mikil áhætta fyrir ríkissjóð að ganga í þessa ábyrgð fyrir siglfirzka sjómenn. Þarna er fremur góð aðstaða, þar sem bærinn er fyrsti ábyrgðarmaður og auk þess yrði lánið tryggt með 1. veðrétti í skipunum, og ríkisstj. gæti vafalaust haft hönd í bagga með ráðning forstjóra og stjórn fyrirtækisins yfirleitt. Tilraun Ísfirðinga á þessu sviði, sem hefir verið eina bjargráð þess héraðs nú um 1½ árs skeið, sýnir berlega, hvað slík fyrirtæki geta gengið vel. Öll líkindi eru til þess, að Siglufirði mundi lánast eins vel, eftir öllum aðstæðum að dæma. Hv. 3. landsk. ber fram brtt. þess efnis, að samskonar ábyrgð fyrir Seyðisfj., sem komin er inn í fjárlagafrv., verði felld niður. Ég ætla að taka undir það með hv. 2. þm. N.-M., að engin vanþörf mun á því að bæta úr atvinnuskorti Seyðfirðinga, en um leið ætla ég að benda sama hv. þm. á það, að 10 þús. kr. fjárveiting, sem hann var á móti, hefði getað gert þó nokkuð í þá átt. Hv. þm. var sannfærður um, að rök mín með Fjarðarheiðarveginum mundu verða talin misskilningur einn, þegar kunnugir menn þar austur frá læsu þau í Alþt. En ég þori óhræddur að leggja þau undir dóm austfirzkra alþýðumanna.

Þá talaði hv. þm. á móti því, að Alþ. úthlutaði námsstyrkjum. Ég held, að Alþ. sé a. m. k. eins vel til þess fallið og stj. Það má vel vera, að einhver hafi fengið styrk frá Alþingi, sem ekki átti hann skilið, en hitt er víst, að margir styrkir, sem Alþ. hefir veitt, koma að góðu gagni. Menntamálaráðið veitir nú ekki eingöngu stúdentum styrk, og sá styrkur, sem þeir hafa fengið, er engan veginn nægur til þess, að þeir geti haldið áfram námi, ef þeir eiga enga að, sem geta styrkt þá. Ég bar fram brtt. við 2. umr. um að hækka þennan styrk, því að margir þessara stúdenta lifa reglulegu sultarlífi, og mikil bót væri að hvað lítilli hækkun sem væri.

Það var víst ekki fleira, sem ég þurfti að víkja að í þetta sinn; áður hefi ég minnzt á till. mínar um fjárveitingar til atvinnubóta, svo ég þarf ekki miklu við það að bæta. Nú hafa komið frá hæstv. forsrh. allmargar till. í þessa átt. Það er gott að heyra, að stj. hefir umráð yfir bjargráðasjóði og ætlar að lána sveitarfél., sem illa eru stödd, fé til atvinnubóta úr honum með góðum kjörum.

En ég vil ekki skiljast svo við fjárl., að leggja ekki ríkt á það við hæstv. stj. að nota sér þær heimildir, sem kunna að verða samþ. í atvinnubótaskyni. Ég tel sjálfsagt, að strax í haust verði gerður nauðsynlegur undirbúningur undir atvinnuframkvæmdir. Það hefir sýnt sig að undanförnu, að margt þessháttar fyrirtækja hefir farið í handaskolum, af því að undirbúningur var lítill eða enginn. Og þar sem flestir munu sammála um það, að dökkt útlit sé framundan, þá má ekki bíða eftir því, að þessi fjárl. komi til framkvæmda, heldur verður að byrja strax. Ég segi þetta í trausti þess, að eitthvað af till. mínum nái fram að ganga. Ég skil ekki í því, að stj. geti með nokkru móti daufheyrzt við þeim kröfum um atvinnubætur, sem berast nú alstaðar að af landinu. Það er þjóðinni lífsnauðsyn, að á þeim verði byrjað þegar í haust.