19.08.1931
Efri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

1. mál, fjárlög 1932

Jón Jónsson:

Ég ætla að athuga svolítið það, sem hv. 1. landsk. sagði út af þessu fjárlagafrv. Hann hélt því fram, að það væri miklu óskýrara en undanfarin frv. hefðu verið, og sagði m. a., að ekki væri hægt að komast að þeirri niðurstöðu, sem ég komst að. Mér finnst frv. vera fullt eins skýrt, þegar búið er að setja sig inn í formið, og mér virðist það eðlilegri færsla, að sama regla sé höfð um allar starfsgreinir ríkissjóðsins, þannig að annaðhvort séu taldar nettótekjur ellegar þá brúttótekjur, en ekki ýmist, eins og áður hefir verið. Nú eru taldar aðeins nettótekjur í heildaryfirlitinu, en í 3. gr. eru skýringar um þessar stofnanir, sem gera það allt saman ljóst. Það er því mjög einfalt að fá út þessar tölur; það er ekki annað en að taka sjóðsyfirlitið í 21. gr. og leggja svo við það samkv. 3. gr. gjöldin t. d. af póstinum eða símanum eða útvarpinu, og draga svo aftur frá fyrningarnar, sem líka má sjá, hvað eru miklar, og hagnaðinn af Vífilsstaðabúinu og Kleppsbúinu. Þetta er all skýrt og glöggt og er nú komið í betra horf en áður. Ég get ekki séð, að það sé að nokkru leyti óskýrara; það má vera fyrst í stað, meðan menn eru að átta sig á því, en undir eins og maður er kominn inn í það, þá er það ljósara form heldur en verið hefir.

Ég er sannast að segja alveg forviða yfir því, hve geysilega miklar umr. eru orðnar út af þessari till. hv. þm. Hafnf. um lítilsháttar styrk til aukakennslu í háskólanum. Mér virtist þessi till. ósköp sakleysisleg og þótti eðlilegt, að sá skóli, ekki síður en aðrir skólar, þyrfti lítilsháttar styrk til aukakennslu, sem forstöðumenn skólans gætu svo ráðstafað. Ég álít líka, að við þessa stofnun, eða læknad., séu prófessorarnir þeir sæmdarmenn, að þeim sé fyllilega trúandi til þess arna. En nú verð ég að segja, að hv. þm. Hafnf. hefir gert það með sínum umr., sem hann hefir getað, til þess að spilla fyrir því, að þessi saklausa till. næði fram að ganga, þar sem hann hefir verið að draga inn í umr. fyrrv. yfirlækni á Kleppi og verja í sambandi við þetta það frumhlaup, sem hann gerði að fyrrv. dómsmrh. landsins, sem allir vita, að er eitt hið versta verk, sem menn vita til, að læknir hafi unnið hér á landi. Það er ekki með öðru frekar hægt að spilla fyrir máli, sem ég tel, að sé út af fyrir sig gott, heldur en með því að setja það í samband við svona lagaða hluti.

Mér sýnist þessi fjárhæð vera mjög lítil og hógvær, og litlu meiri en undanfarið hefir verið veitt til kennslu í lagalæknisfræði og augnlækningum, og skil því ekki, að margt fleira þurfi að blandast þar inn i.

Nú er það freisting fyrir mig, sem ætlaði að greiða atkv. með þessari till., að gera það ekki, eftir slíka málfærslu, en það er hart að láta háskólann gjalda þess, þótt hann hafi svo óheppilegan málsvara hér í þinginu, sem minntist á einn hinn mesta ólánsmann, sem verið hefir í ísl. læknastétt. Ég býst því við að láta háskólann ekki gjalda þess, en mína atkvgr. ber ekki að skilja svo, að þetta sé hundið við neinn ákveðinn mann eða kennslugrein, heldur geri ég þetta í þeirri trú, að prófessorarnir muni nota þetta læknavísindunum til hags, en ekki misbrúka það á nokkurn hátt.