21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

1. mál, fjárlög 1932

Pétur Ottesen:

Ég verð nú að segja það, að mér finnst, að fjmrh. hinn nýi ætti að vera viðstaddur, þegar rætt er um fjárlögin. Það ætlar þá að fara eins, þótt þrjú verði höfuðin á stj., og var meðan aðeins var eitt eða sem næst því, að ekki séu fleiri höfuð sjáanleg.

Mér finnst hæstv. fjmrh. hefja harla einkennilega göngu sína hér í d., þegar hann fer að mæla á móti því, að brtt., sem við í minni hl. fjvn. flytjum, verði samþ. Og það þegar af þeirri ástæðu, að um 1. brtt. má segja, að sú upphæð, sem þar um ræðir, sé lögboðin; það er nefnilega um að taka upp aftur 500 kr. fjárveitingu til þess að kenna lagalæknisfræði í háskólanum. Mér skilst, að það sé skilyrði fyrir því, að menn geti fengið próf frá læknadeild háskólans, að þeir verði hlutgengir læknar, að þeir eigi kost á því, að fá fræðslu í þessari grein. Því að í reglugerð, sem gefin var út árið 1912, var hreint og beint sett það skilyrði, að menn hefðu próf í lagalæknisfræði, til þess að þeir gætu öðlazt rétt til þess að verða læknar. En til þess að þeir geti tekið próf, verður vitanlega að sjá þeim fyrir fræðslu í þessu efni.

Mér virðist því koma harla undarlega fyrir, að mælt skuli á móti því, að lagfært sé aftur það glappaskot Ed., að fella þetta niður. Og það er harðast að heyra, þegar rödd frá hæstv. stj. kemur fram til þess að andmæla þessari sjálfsögðu tillögu.

Í þeirri breyt., sem Ed. gerði um ráðstöfun á því fé, sem gert er ráð fyrir að veita til Stórstúkunnar, felst tvennt. Í fyrsta lagi það, að styrkurinn er lækkaður um 3300 kr., eða fyllilega það. Í öðru lagi felst í aths. við þennan lið svo hrapallegt vantraust á starfi Stórstúkunnar í landinu, þar sem það þykir nauðsynlegt að taka af henni umráðin yfir þessum hl. fjárins. Það er því hvorttveggja, að minnkað er það fé, sem hún á að fá til umráða, og ennfremur er það yfirlýst, að þeir menn, sem goodtemplarar velja til þess að standa fyrir bindindismálunum, séu ekki verðugir þess að fá þetta fé til ráðstöfunar. Þetta er hnefahögg framan í bindindisstarfsemina í landinu og blóðugt sár á þessari hreyfingu.

Ég held, að engir aðrir menn í þessu landi inni af höndum óeigingjarnara starf né þarfara en það, að koma í veg fyrir óreglu og drykkjuskap í landinu. En það er þá Alþingi, löggjafarvaldið, sem fyrir þetta óeigingjarna og þjóðnýta starf réttir þessum mönnum þann löðrung, sem felst í þessari aths. Ég vil bæta því við, að það er náttúrlega ekki úr háum söðli að detta um tillögur og atbeina núv. og fyrrv. stj. til þessara mála. Því að einn af ráðh., sem var í gömlu stj. og var nú aftur að skjóta upp höfðinu í dag, skrifaði mikið um það í sitt blað, að menn ættu að drekka vín eins og kaffi, og að Íslendingar væru alls ekki samkvæmishæfir öðruvísi en undir áhrifum víns. Og þeir menn, sem voru og eru í landsstj., — ég undanskil þar hæstv. fjmrh. að öðru leyti en því, sem felst í ummælum hans, þegar hann leggst á móti þessari till. — hafa barizt með hnúum og hnefum á móti því, að styrkurinn til bindindisstarfsemi héldist. Stj. hefir fært hann niður í hvert skipti, sem hún hefir lagt fjárl. fyrir þingið, og það hefir orðið að vera verk Alþingis að hækka þennan styrk aftur. Þetta hefir hún alltaf gert og gerir það enn, og þá með þeim ósköpum, sem ég hefi nú lýst.

Um þriðju till. er það svo, eins og hv. 4. þm. Reykv. hefir lýst, að í Ed. var klipið af þeirri litlu fjárhæð, sem staðið hefir í fjárl. um mörg ár til Fiskveiðasjóðsins. Þótt ákvæðin um sjóðinn hafi verið bætt þannig, að fara á frekari leiðir til fjáröflunar, þá er þessi sjóður svo ákaflega vanmegnugur þess að inna af hendi það hlutverk, sem hann á að vinna, að honum myndi sannarlega ekki veita af því að halda þessu fé áfram. Frá sjálfstæðismönnum hefir legið fyrir frv. um að auka þennan sjóð, og seinast var það borið fram á þessu þingi, en við höfum ekkert komizt áfram með það, svo að ég legg ekki mikið upp úr þeim ummælum hv. frsm , að hækka mætti tekjur sjóðsins með því að breyta löggjöfinni um hann.

Náttúrlega mætti afsaka það, að vera á móti slíkri till. sem okkar, ef eitthvað væri í húfi um afgreiðslu fjárlaganna við að samþ. hana. En hvað getur verið í húfi? Ég held, að því sé yfirlýst bæði af stjórnarfl. og sjálfstæðismönnum, að þeir ætli að greiða fjárlagafrv. atkv. út úr þinginu. Hvað leiddi þá af því, að það, sem gert var í Ed., væri leiðrétt hér? Ekkert annað en það, að frv. væri samþ. hér í dag og á morgun óbreytt í Ed. Hv. frsm. talaði um, að í staðinn fyrir leiðréttingu, — og hann viðurkenndi, að þetta væri óréttmætt —, þá mundi koma annað. En það liggja ekki neinar brtt. fyrir aðrar en þessar þrjár. Það yrði þá Ed., sem yrði til þess að hefta framgang fjárlagafrv., og ekki er minnsta ástæða til þess að ætla það. Það er því engin ástæða á móti þessum brtt., að af því muni leiða aðrar eða meiri breyt. á frv. en þær, að lagfæra það, sem aflaga fór í Ed. Ég sé því enga skynsamlega ástæðu til þess að mæla á móti till. okkar, og því síður, þar sem enginn mælir brtt. Ed. bót.