07.08.1931
Efri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

7. mál, búfjárrækt

Frsm. (Jón Jónsson):

Ég vil henda á það, að ef' þessi till. er samþ., þá er það ekki eingöngu, að ríkissjóði séu spöruð þessi útgjöld, heldur er þá líka komið í veg fyrir ýmsar framkvæmdir búfjárræktarinnar, og það verð ég að telja mjög óheppilegt, því að ég held, að allir hljóti að vera sammála um það, að okkur riði mest af öllu á að efla okkar atvinnuvegi, því að á þeim byggist velmegun þjóðarinnar. Þessi till. virðist veru fram komin af gremju út af þessari till., sem samþ. var í Nd., en það er óviðeigandi að gera svona mikla rekistefnu út af henni nú; það gefst væntanlega tími til að ræða hana seinna.

Ég vil leggja áherzlu á það, að þessi till. getur, eftir þeim áreiðanlegustu upplýsingum, sem hægt er að fá, alls ekki sparað meira yfir þennan tíma en 20–30 þús. kr., svo að það skiptir ekki miklu máli á þá hlið, en getur á hinn bóginn orðið til að draga allmikið úr merkilegum framkvæmdum fyrir annan aðalatvinnuveg landsbúa, landbúnaðinn.

Hv. 2. landsk. talaði um, að við framsóknarmenn skildum ekki, að þörf væri á framlagi til neins nema landbúnaðarins. Því fer fjarri, að svo sé, en það er okkar skoðun, að mest velti á því, að atvinnuvegirnir séu styrktir. Ég hygg, að Nd. hafi samþ. í gærkvöldi till., sem miða talsvert að því, að skoðun hv. 2. landsk., að styðja líka hinn atvinnuveginn og þá verkamennina í landinu, svo að hann þarf ekki neitt yfir þessu að kvarta. Annars held ég og vona, að þessir hv. jafnaðarmenn geri fullmikið úr þessu atvinnuleysi í landinu. Það er verið að tala um, að fjöldi fólks sé atvinnulaus í Reykjavík og þorpunum, en þegar verið er að biðja um að fá það upp í sveit, þá er ekki hægt að fá nokkra manneskju.

Það má, því miður, búast við alvarlegu atvinnuleysi hér í bænum, þegar fram á vetur kemur. Bærinn hefir dregið að sér meira fólk en atvinnuvegir hans hafa þolað, og því eðlilegt, að bærinn verði sjálfur að súpa seyðið af því og þurfi að verja fé til að bæta úr atvinnuleysinu, þegar kreppir í ári.