12.08.1931
Neðri deild: 27. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í B-deild Alþingistíðinda. (491)

7. mál, búfjárrækt

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Mér þykir það undarlegt, þar sem hér er um stórmál að ræða, að þá skuli ekki vera lagt út í að gera grein fyrir því, hvern kostnað muni af þessu frv. leiða. Ég minntist lítillega á þá hlið málsins við 1. umr. og óskaði þess, að málið væri látið ganga til landbn. til frekari athugunar.

Ég sé, að í hv. Ed. hefir verið sagt af frsm. þessa máls, að hér væri ekki um aukin útgjöld að ræða nema sem svaraði 20 þús. kr. á ári. Ég fór dálítið í gegnum þetta frv. á vetrarþinginu og ég komst að talsvert annari niðurstöðu. Það er fyrirsjáanlegt, að kostnaðurinn verður ekki einu sinni tvö- eða þrefalt hærri, heldur margfalt hærri en gert er ráð fyrir. Og það er næsta undarlegt, þegar borið er fram frv., sem hefir slík útgjöld í för með sér, að hvorki hæstv. atvmrh.hæstv. fjmrh. skuli láta eitt orð um það falla. Ég sé ekki betur en kostnaðurinn af þessu frv. muni í náinni framtíð verða full 200 þús. eða e. t. v. meira á ári hverju. Vil ég nú reyna að færa nokkur rök fyrir þessum staðhæfingum mínum í sem stytztu máli.

Sumir hv. dm. hafa verið að segja, að þessi kostnaður væri áður hvort sem er. Þetta er alls ekki rétt. Enginn sá kostnaður, sem þetta frv. hefir í för með sér, er áður fyrir, nema sá kostnaður, sem getur um í lögunum um búfjártryggingar, og hann er nokkuð breyttur í frv. frá því sem í 1., þótt það muni ekki ýkjamiklu. Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að útgjöldin á árinu 1931 nemi 45 þús. kr., en í l. um búfjártryggingar eiga þau einungis að nema 20 þús. kr., svo að á þessu ári verður kostnaðurinn, sem frv. að þessu leyti hefir í för með sér, ef það nær fram að ganga, um 25 þús. kr.

Samkv. 11. gr. frv. á að greiða nautgriparæktarfél., sem stofnuð eru samkv. fyrirmælum 10. gr., allt að kr. 1.50–2.00 á ári hverju fyrir hverja kú og kelfda kvígu. Nú munu vera á landinu um 21 þús. kýr og kvígur. Og það má búast við, að fél. þessum fjölgi mjög fljótlega, þegar ríkissjóður fer að styrkja þau svo ríflega, og gera má ráð fyrir, að innan skamms verði nautgriparæktarfél. í hverri sveit og hverju kauptúni landsins. Það er því næst að álykta, að þegar þessi lög koma til framkvæmda, þá hafi ríkissjóður þarna um 31–40 þús. kr. útgjöld. Það má að vísu segja, að ekki verði allir, sem gefi mjólkurskýrslur og mæli fitumagn mjólkurinnar, þar sem ætlazt er til, að það sé gert þrisvar á ári, en útgjöldunum mun þó ekki skakka mikið frá því, sem ég hefi sagt

Samkv. 12. gr. á að styrkja þessi fél. til að halda kynbótanaut með 75 kr. til nauta, sem fengið hafa 2. verðlaun, og 150 kr. til nauta, sem fengið hafa l. verðlaun. Það er alveg víst, að ekki verða færri en 300 kynbótanaut á landinu, líklega um 100 1. fl. og 200 2. fl. naut. Styrkurinn til þessara nauta nemur allt í allt um 30 þús. kr. á ári.

Ennfremur á samkv. 13. gr. að styrkja fél. til þess að halda sýningar. Á að greiða kr. 0,50 fyrir hvern framtalinn sýningargrip og þeir munu verða um 30 þús., eftir þeim gripafjölda, sem nú er. Og ef landinu er skipt, eins og í frv. er ætlazt til, í 5 sýningardeildir, þannig að á 5 árum hafi sýningargjald verið greitt til allra nautgripa á landinu, þá mun það verða á þessum 5 árum um 15 þús. kr., eða 3 þús. kr. á ári. Þá á einnig að styrkja fél. til þess að koma upp nautgripagirðingum, og má í því skyni greiða 400 kr. til hvers þeirra. Ætla má, að ekki verði færri en 80 nautgriparæktarfél., sem njóta þessa styrks, og það eru þá um 32 þús. kr. á ári, eða um 320 þús. kr. tíunda hvert ár. Þessi eini liður verður því í mjög náinni framtíð a. m. k. 70 þús. kr.

Það er vitanlega ekkert á móti því, að reynt sé á þennan hátt að koma nautgriparæktinni í betra horf, en ég efast um, að tilganginum verði náð með þessu einu. Það þarf margt fleira til þess að koma nautgriparæktinni á þann rekspöl, sem æskilegt væri.

Þá eru það kynbætur hrossa. Þar er nú að mínu áliti farin alveg skökk leið. Eins og ég gat um við 1. umr., þá sé ég enga ástæðu til þess að vera að kasta tugum þúsunda í það að bæta þennan hestastofn, þar sem það er vitanlegt, að hestum er alltaf að fækka vegna aukinnar bifreiðanotkunar og fyrirsjáanlegt, að innan skamms munu bifreiðar að mestu notaðar til flutninga. Hinsvegar hafa bændur næga hvöt til þess að bæta reiðhestakynið, með þeim markaði, sem er hér innanlands, því að það mun enn verða svo um nokkurt áraskeið, að þeir verða keyptir háu verði, svo að óþarfi virðist að greiða sérstök verðlaun til þess að rækta reiðhestakynið. Samkv. 33. gr. frv. á að greiða fyrir hverja hryssu, sem leidd er til kynbótahests, kr. 1,50, og ennfremur á að greiða upp í fóðurkostnað kynbótahestsins 100 kr. á ári. Ég er viss um, að a. m. k. 100 kynbótahestar verða í landinu, og fóðurkostnaður, sem greiddur yrði til þeirra úr ríkissjóði, myndi þá nema 10 þús. kr. á ári. Og ég hygg, að ef hrossaræktin verður eitthvað svipuð því, sem gera má ráð fyrir, þegar hún er styrkt á þennan hátt, þá muni aldrei verða færri en 1000 hryssur, sem leiddar verða til kynbótahests, og styrkur sá, sem ríkið þarf að greiða í því sambandi, mun nema um 15 þús. kr. árlega.

Samkv. 34. gr. á að styrkja þessi félög til þess að kaupa kynbótahesta og greiða sem svarar 1/3 hluta kaupverðs þeirra. Gert er ráð fyrir, að hvert kynbótafélag geti fengið 8. hvert ár styrk til þess, og sá kostnaður nemur minnst 5000 kr. á ári.

Þá eru hrossagirðingarnar. Til þeirra á að leggja 400 kr. til hvers félags. Jeg hygg, að það muni verða líkt og með nautgripagirðingarnar, að ætla megi 3000 kr. til þeirra. Og að endingu á ríkið að kaupa kynbótahesta, ef enginn vill eiga þá, en hrossaræktarráðunautur segir, að hestarnir séu af góðu kyni. Ég hygg, að það megi fullyrða, að slíkir hestar hafi verið seldir hingað til frá 500 upp í 1000 kr., en við skulum segja, að ríkið fengi þá fyrir 600 kr., og þarf það a. m. k. að kaupa fjóra slíka hesta á ári, og þá eru það 2400 kr. útgjöld. Til sýninga og til verðlauna á þessum gripum, og er þar miðað við, að greiddir séu 10 aurar í gjald fyrir hvern framtalinn hest eða grip, getur kostnaðurinn aldrei orðið minni en 31000 kr. á ári. Til afkvæmissýninga hesta á að veita úr ríkissjóði 300 kr. verðlaun fyrir 1. flokks afkvæmi, 200 kr. fyrir 2. flokks og 100 kr. fyrir 3. flokks afkvæmi. Kostnaðurinn af þessu verður aldrei minni en 4–5000 kr. á ári, en eigendum þessara hesta og þessara afkvæma er lögð sú byrði á herðar að leggja til sýningarstaðinn. Það er allt og sumt, sem þeir þurfa að gera, að leggja til eitthvert holt eða mel. Ég hygg, að með þessu fyrirkomulagi verði þeir æðimargir, sem vilja sýna þessa gripi og fá, þótt ekki sé nema 3. verðlaun, 100 kr., fyrir léleg tryppi, svo að þessi kostnaður gæti allt í allt orðið skollans mikill. En það er sérstaklega þessi kafli búfjárræktarl., sem ég tel afskaplega varhugaverðan og tilgangslausan, því samkv. honum á að kasta tugum þús. kr. úr ríkissjóði til þess að rækta hross, sem engin þörf er fyrir í landinu, og því miður er ekki hægt að selja út úr landinu. Ég álít, að kostnaðurinn verði aldrei minni en 50–60 þús. kr. á ári.

Um sauðfjárræktina er öðru máli að gegna. Þar á að styrkja félögin til þess að hafa kynbótahrúta með 50 kr. fyrir hvern 1. fl. kynbótahrút og 50 kr. fyrir hverjar 100 kynbótaær. Það er ekki gert ráð fyrir, að þessar ær þurfi að vera 1. fl. Gætu því verið 2. eða 3. fl., ef þær einungis eru kynbótaær. Og ekki er sett neitt hámark á þeirri upphæð, sem greiða skal úr ríkissjóði. Mér finnst óvarlegt að koma fram með slíka till. sem þessa á þeim tímum, sem nú eru, því að ég álít, að kostnaður, sem af þessu muni leiða, verði a. m. k. 10–15 þús. kr. á ári.

Þá eru hér ákvæði um, að styrkja megi 8 sauðfjárræktarbú með allt að 800 kr. hvert. Sömuleiðis skal halda hrútasýningar fjórða hvert ár, og er landinu skipt í 4. umdæmi, og skal halda sýningar í þeim til skiptis. Geri ég ráð fyrir, að kostnaður af þessu nemi um 3–4 þús. kr. á ári.

Þá er og ákveðið, að stofna megi til samkeppnissýninga, og má veita til þess allt að 5000 kr. á ári. Til sauðfjárræktar mun því verða veitt á ári hverju um 25 þús. kr.

Þá eru fóðurbirgðafélögin. Þau njóta árlegs styrks úr ríkissjóði, og er hann 10 kr. fyrir hvern bónda, sem býr einn á jörð, en ef tveir bændur eða fleiri búa saman á jörð, er styrkurinn 10 kr. fyrir einn bóndann, en 5 kr. fyrir hinn eða hvern hinna bændanna. Þessi styrkur getur því aldrei orðið minni en 65 þús. kr. á ári.

Loks vil ég nefna búfjártryggingarsjóðinn. Skal ríkissjóður hafa lagt sjóðnum til 45 þús. kr. fyrir árslok 1931 og síðan 15000 á ári í 17 ár. Þetta fyrirkomulag er nokkuð svipað því, sem var í lögunum frá 1928, en framlagið er hér ákveðið meira en helmingi hærra en samkv. þeim lögum. Ég sé því ekki betur en að kostnaðurinn af búfjárræktarlögunum verði innan skamms orðinn um 150 þús. kr. á ári. Þar við bætast svo 65 þús. kr. til fóðurbirgðafélaganna og 15 þús. kr. til búfjártryggingarinnar. Alls verður þetta því nokkuð yfir 200 þús. kr. á ári. Ég skal ekki fullyrða, að þessu verði komið í kring næstu 3–4 árin, en að þessu stefnir, þar sem styrkurinn er svo hár. En sérstaklega er þó varhugavert að samþ. kaflann um kynbætur hrossa, því eins og ég hefi bent á, er það bein hagsýni að fækka hrossunum, en með þessu frv., ef að lögum verður, er mönnum gefið mjög undir fótinn að fjölga þeim.

Ég get satt að segja ekki skilið, hvernig hv. landbn. getur leyft sér að neita að taka við málinu og afla sér upplýsinga um, hvern kostnað muni af því leiða. Mér finnst þetta sýna svo mikla léttúð í fjármálum. Það var nú reyndar fyrirfram vitað um hæstv. stj., en mig undrar, að hv. landbn. skuli láta þetta mál fara umr.laust gegnum deildina, og bera því við, að hér væri um örfáa tugi þús. kr. að ræða, þegar vitanlegt er, að útgjöldin verða margfalt meiri.

Ég vil að endingu skora á hv. landbn. að afla sér upplýsinga í málinu eða hrekja útreikninga mína. En ég hyggt, að þeir muni reynast réttir, þegar þetta fyrirkomulag er komið í kring. Í frv. er svo mikil hvöt fyrir bændur til þess að stofna búfjárræktarfélög, að þeir munu alstaðar gera það.