31.07.1931
Neðri deild: 17. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

135. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Ég þarf ekki að fjölyrða um þetta mál. Eins og grg. frv. ber með sér, flytur fjhn. Nd. málið fyrir tilmæli forsrh. Hafði forstjóri félagsins snúið sér til hans með beiðni um, að lögin um skattgreiðslu félagsins yrðu framlengd.

Nú er það öllum ljóst, að hagur félagsins er ekki betri nú en þá er lögin voru sett. Það eru því sömu ástæður til þess að framlengja l. eins og að setja þau upphaflega. Og eins og nú horfir við, virðist það ekki geta orðið mikill halli fyrir ríkissjóð að framlengja þau.