29.07.1931
Efri deild: 15. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

90. mál, ríkisborgararéttur

Pétur Magnússon:

Eins og hv. 2. þm. S.-M. drap á, lá hér fyrir á síðasta þingi frv. shlj. þessu frv. Það kom hingað til allshn. og hafði hún skrifað nál., en frv. var eigi komið til 2. umr. þegar þing var rofið. N. lagði til, að 9. manninum, Harald Aspelund bókara á Ísafirði, yrði bætt við í frv. N. áleit, að það væru engu síður skilyrði til þess að veita honum ríkisborgararétt en hinum, sem fyrir voru.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. S.-M. sagði um niðurlagsákvæði frv., vil ég aðeins segja það, að mér virðist augljóst, að ætlazt sé til, að umsækjendur sýni fram á, að erlendur ríkisborgararéttur falli niður um leið og þeir öðlast ísl. ríkisborgararétt. Það nær engri átt að skilja þetta ákvæði frv. svo, að það sé skilyrði, að þeir eigi engan ríkisborgararétt nú. Hinsvegar skal ég játa, að það er ekki heppilegt að orða gr. þannig, að þeir verði að sanna, að þeir eigi ekki ríkisborgararétt þar, sem þeir eru fæddir, því hugsanlegt væri, að þeir hefðu áður öðlazt ríkisborgararétt í öðru landi en þeir eru fæddir í. Mætti breyta þessu, en ég held, að það muni ekki verða til baga.

Ég hefi ekki gert mér ljósa grein fyrir því, hverra sannana dómsmrn. krefst í þessu efni. Það verður að skera úr því sjálft, hverra sannana það krefur til þess að erlendur ríkisborgararéttur falli niður, og ég sé ekki neina ástæðu til þess að gefa stj. neinar reglur um þetta. Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem úr þessu þarf að skera, og hefir sennilega einhver venja myndazt um það. En ef menn sýna fram á, að eftir þeirra landslögum falli ríkisborgararéttur niður, ef þeir öðlast ríkisborgararétt annarsstaðar, geri ég ráð fyrir, að það verði talið nægilegt.