07.08.1931
Neðri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

120. mál, fiskimat

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Síðan hv. þm. G.-K. kom fram með tilmæli sín hefir enginn reglulegur fundur verið haldinn í n. Tíminn hefir allur farið í afgreiðslu fjárl. Hinsvegar höfum við talað um þetta okkar í milli, sumir nefndarmanna, og mér hefir virzt, að þeim hafi, eins og mér, ekki litizt hér svo hættulegt ákvæði á ferðum, að nauðsynlegt væri að gera sérstakar breyt. á því nú þegar. Það mætti a. m. k. sjá, hvort svo reyndist í framkvæmdinni, að þetta yrði nokkur stórkostlegur útgjaldaliður fyrir ríkissjóð.

Þessi 7. gr., sem hv. þm. er að fetta fingur út í, er þannig, að fyrst er yfirmatsmönnum gert að skyldu að ferðast um í umdæmi sínu og utan þess, til að leiðbeina í fiskimeðferð og fiskimati. Þá er þeim einnig gefin heimild til þess að banna fisksöltun úr salti, sem þeir álíta ónothæft; þetta er ekki sett að ástæðulausu, því að það kemur fyrir, að einstaka menn vilja spara fé með því að nota skemmt salt. Fyrir þetta fá þeir ferðakostnað greiddan úr ríkisjóði samkv. þeirri venju, sem nú gildir, þ. e. eftir reikningi, sem ráðuneytið samþ.

Þá er í þessari gr. um leið ákvæði um það, að þeir fái á sama hátt, eftir úrskurði, greiddan kostnað við tilraunir um verkunaraðferðir, rannsóknir á salti, geymsluþoli fiskjar og öðrum tilraunum. og enn fremur nauðsynlegan símakostnað, en það hefir verið áður.

Það, sem er nýtt í þessari gr., er því þetta: Yfirfiskimatsmenn geta sjálfir gert tilraunir um bættar verkunaraðferðir og rannsóknir á salti, og beinan kostnað fá þeir borgaðan eftir á, eftir reikningi, sem ráðuneytið úrskurðar. Ég sé ekki, að með þessu sé svo mikil hætta á ferðum, að þurfi að óreyndu að setja takmarkanir gegn þessu. Einn af milliþinganefndarmönnunum vildi hafa þetta miklu sterkara, þannig að yfirmatsmönnum yrði gert að skyldu að fást við þessar rannsóknir, og með tilliti til kostnaðarins hefði hann þá orðið miklu meiri en yrði samkv. þessu frv., þar sem þeim er þetta aðeins heimilt, en ekki skylt.

Yfirfiskimatsmenn munu ekki fara að leggja út í mikinn kostnað án þess að fá fyrirfram samþykki ráðuneytisins um kostnað, sem af þessum tilraunum og rannsóknum muni hljótast. Þeir eiga alltaf undir högg að sækja um, hvað þeim verður endurgreitt, því að álíti ráðuneytið kostnaðinn óhóflegan, getur það dregið að sér höndina með að borga hann. Það yrðu því aðeins minni háttar tilraunir, sem kostuðu lítið fé, sem skynsamir og athugulir fiskimatsmenn mundu gera samkv. þessari gr.

Við nm. höfum ekki álitið þetta svo veigamikið atriði, að þyrfti að kalla saman fund í n. vegna þess, og ég er þeirrar skoðunar, að ákvæði 7. gr. séu engan veginn svo hættuleg, að þau megi ekki fara í gegnum þingið nú. Það yrði þá fyrst, ef ráðuneytið færi að kvarta yfir reikningunum, að ástæða væri til þess að draga úr þessu ákvæði.

Á hinn bóginn er það rétt, að áhugasamir og reyndir yfirfiskimatsmenn hafa samkv. frv. leyfi til þess að gera eitthvað í þessa átt, jafnvel þó það kostaði einhverjar smáupphæðir. En eins og nú er hafa þeir ekkert leyfi til þess að stofna til neins kostnaðar vegna rannsókna í þessu efni. Með ákvæðum 7. gr. er opnuð leið til slíkra tilrauna, en algerlega lagt undir úrskurð ráðuneytisins, hve langt megi fara, og þetta ætti ekki að þurfa að valda ágreiningi, a. m. k. ekki meðan ekki er farið að sjást, að þetta sé misbrúkað.