16.03.1932
Efri deild: 30. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

50. mál, leyfi til loftferða

Frsm. (Páll Hermannsson):

Eins og hv. þdm. er kunnugt, flytur frv. þetta merkilegt nýmæli og stórt mál. Auðfélag eitt í Bandaríkjum Norður-Ameríku vill hefja loftsamgöngur milli Ameríku og Evrópu um hina svonefndu „norðurleið“, yfir Grænland, Ísland og Færeyjar. Hefir landi okkar, Vilhjálmur Stefánsson, manna bezt fært rök að því, að einmitt þarna væri framtíðarleiðin. Við Íslendingar eigum þess kost, vegna legu landsins, að hafa áhrif á þetta stóra fyrirtæki.

Frv. fer fram á tvennt. Í fyrsta lagi er sótt um réttindi almenns eðlis, svo sem að fá að koma hér við og reisa byggingar og loftskeytastöðvar, eftir því sem þurfa þykir, og er þar í aðalatriðum ætlazt til, að starfað verði í almennri samkeppni. En í öðru lagi fer félagið fram á nokkur sérréttindi. Félagið óskar þannig eftir sérleyfi gagnvart öðrum þegnum Bandaríkjanna næstu 15 ár, auðvitað í því skyni að tryggja sér betri aðstöðu en öðrum vestan að. Þá er og farið fram á undanþágu frá ýmsum skattgreiðslum til ríkissjóðs og útsvarsgreiðslu til sveitar, gegn því að félagið greiði 5% af brúttótekjum þeim, sem það fær fyrir flutninga hérlendis, til ákvörðunarstaða innanlands eða utan. Þó má breyta hundraðsgjaldi þessu með lögum, er 10 ár eru liðin af leyfistímanum.

Hér er því um það að ræða að veita þýðingarmiklum. framförum stuðning, en jafnframt að binda hendur eftirkomendanna að nokkru. Augljóst er, að félagið getur ekki ráðizt í þetta nema réttindi þess og aðstaða sé að nokkru tryggð fyrst í stað.

Samgmn. áleit rétt að veita stuðning góðu máli, en binda þó ekki hendur eftirkomendanna meira en þörf er á. Leggur n. því til, að frv. verði samþ. Hinsvegar flytur n. brtt. á þskj. 175. Miða þær einkum að tvennu. Í fyrra lagi að því að þrengja ákvæði 2. gr. um það atriði, með hverjum hætti félagið geti eignazt hér land, og í öðru lagi að stytta leyfistímann.

Í frv. er svo ákveðið, að félagið geti öðlazt eignarrétt eða notkunarrétt yfir landi undir hús og önnur mannvirki, án þess að þetta sé bundið nánar, og gæti þetta því farið fram í frjálsum viðskiptum. Í almennum lögum frá 1919 er svo ákveðið, að slík mál skuli bera undir stjórnarráðið í hvert sinn. Samgmn. gat ekki séð, að það þyrfti að spilla starfsemi félagsins, þótt svo yrði ákveðið í frv. Má gera ráð fyrir, að félagið eignist strax í byrjun það land eða landsréttindi, sem til þess þarf að halda uppi hinum fyrirhuguðu langleiðar-flugferðum, en ef það tæki upp flugsamgöngur innanlands, myndi það fá notkunar-, eða eignarrétt á landi, ef landsmenn teldu sér hag að.

Ég sé, að hv. 4. landsk. hefir flutt brtt. við okkar brtt., en þótt ég geti fallizt á þá till., skal ég ekki segja um, hvernig meðnm. mínir taka henni.

Þá höfum við flutt brtt. við 6. gr. Ákveðið er í frv., að félagið greiði aðeins hundraðsgjöld af fargjöldum og flutningsgjöldum. Skýrsla um fasteignir félagsins kemur því eigi til greina í því sambandi. Mat á fasteignum félagsins yrði framkvæmt á sama hátt sem mat annara fasteigna í landinu, og yrðu því að sjálfsögðu auðfundnar upplýsingar um. það.

Þá er 3. brtt., um að færa leyfistímann úr 75 árum niður í 50 ár. Skal ég að vísu játa, að erfitt er að sanna með rökum þetta atriði. Þó virðist 50 ár, eða fullkomin meðalmannsæfi, vera alllangur leyfistími.

Samgmn. þykir viðurhlutamikið að binda leyfistímann við 75 ár. Það er að binda hendur komandi kynslóða um óralangan tíma: Hitt má til sanns vegar færa, að hættuminna er að binda leyfi við 50 ár en 75. Við sjáum skammt fram í tímann. En það ætti að vera áhættulaust fyrir hið erlenda félag að hefja starf sitt, þótt leyfistíminn sé eigi lengri. Fari það vel að ráði sínu, ætti að reynast auðvelt fyrir það að fá þennan leyfistíma framlengdan. Annars má, í þessu sambandi minna á það, að ekki er ólíklegt, að fleiri fél. sæki um leyfi í líku augnamiði. Ég býst t. d. við því, að austan að, frá Evrópu, hljóti að koma félög, sem vildu nota sér sömu atvinnugrein, og þá myndi þykja illa viðeigandi að veita slíku fél. ekki samskonar réttindi og þessu hinu fyrsta.

Fjóða brtt, er einskonar leiðrétting til tryggingar fél. sjálfu. Það er aðeins þetta, að tekið sé fram í 8. gr. um flutning pósts. Niðurlag gr. orðist svo: „Til flutninga á mönnum, pósti eða varningi fyrir borgun“. Orðið „póstur“ hafði fallið úr, en n. leggur til, að því verði bætt inn í, enda er þar um aðalatriðið að ræða.

Fimmta brtt. er leiðrétting við 11. gr. Í byrjun 11. gr. er svo að orði komizt: „ákveða má“ í leyfinu, að réttur leyfishafa skv. því falli niður, ef það fullnægir ekki ákveðnum skilyrðum. Það er augljóst, að þetta orðalag þýðir, að ætlazt er til, að svo sé ákveðið. Það þarf ekki að gefa neina heimild til þess, að þetta „megi“, það hefir litla þýðingu nema átt sé við að þetta „skuli“ ákveðið svo. Þetta eru hin einu viðurlög, sem sett eru frá hendi hins ísl. ríkis, og n. finnst sjálfsagt, að ekki sé verið með neina óþarfa kurteisi gagnvart þeim, sem um þessa samninga eiga að sjá, sem í þessu tilfelli er hæstv. ríkisstj. Annars sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið að sinni.